Messier 13
Kúluþyrpingin mikla í Herkúlesi
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
16klst 41mín 41,44s |
Stjörnubreidd: |
+36° 27′ 36,9" |
Fjarlægð: |
25.100 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+5,8 |
Stjörnumerki: | Herkúles |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 6205 |
Enski vísindamaðurinn Edmond Halley uppgötvaði þyrpinguna árið 1714 og tók eftir að hún sést með berum augum á himninum þegar tunglskins nýtur ekki við. Charles Messier skrásetti hana 1. júní 1764.
Messier 13 er um 145 ljósár í þvermál og inniheldur að líkindum í kringum þrjú hundruð þúsund stjörnur. Björtust er breytistjarnan V11 sem hefur sýndarbirtustigið +11,95. Þyrpingin er nálægt 13 milljarða ára gömul.
Árið 1974 var skilaboð frá mannkyninu sent frá útvarpssjónaukanum í Arecibo í átt að Messier 13. Skilaboðið verður meira en 25 þúsund ár á leiðinni og þótt þyrpingin verði ekki lengur á sama stað þegar það kemur, var tilgangurinn með skilaboðinu fyrst og fremst að sýna fram á að þetta var hægt. Nýlegar rannsóknir benda auk þess til að reikistjörnur séu fremur fátíðar í þéttum kúluþyrpingum.
Á himninum
Kúluþyrpingin Messier 13 sést með berum augum sem daufur þokublettur á himninum þar sem ljósmengun spillir ekki fyrir. Sýndarbirtustig hennar er +5,8 svo aðstæður þurfa að vera góðar svo hún sjáist án sjóntækja. Í gegnum handsjónauka sést hún greinilega sem kúlulaga þokublettur.
Þyrpingin sést mjög vel í gegnum stjörnusjónauka af öllum stærðum og gerðum. Í meðalstórum sjónauka má greina ystu stjörnurnar í þyrpingunni við mikla stækkun. Til að sjá kúluþyrpinguna sem best í sjónauka eða með berum augum getur verið gott að horfa örlítið til hliðar við hana.
Stjörnuáhugamenn nota oft hliðraða sjón til að sjá dauf fyrirbæri. Þegar við horfum beint á fyrirbæri notum við skynfrumur í miðjum augnbotninum sem nefnast keilur. Með þeim er hægt að sjá liti þegar bjart er úti. Keilurnar eru hins vegar ekki sérlega næmar í myrkri. Önnur tegund augnfruma, stafir, gagnast hins vegar best í myrkri. Þá er að finna umhverfis keilurnar í augnbotninum. Með stöfunum getum við ekki séð liti en þeir eru aftur á móti ljósnæmir.
Auðveldasta leiðin til að finna Messier 13 er að nota stjörnukort mánaðarins og sérstakt stjörnukort af Herkúlesi. Á himninum er stjörnumerkið Herkúles vestan megin við Karlsvagninn og Hjarðmanninn. Þegar Herkúles er kominn í leitirnar er best að skanna svæðið milli stjarnanna η and ζ í stjörnumerkinu
Beint í norðaustur af M13 er vetrarbraut á rönd, NGC 6207. Hún er af +12. birtustigi og sést því vart nema með meðalstórum áhugamannasjónaukum.
Tengt efni
-
Kúluþyrping
Heimildir
- SpaceTelescope.org, The Crowded Heart of the Hercules Globular Cluster
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sverrir Guðmundsson og Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 13. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-13 (sótt: DAGSETNING).