Messier 14
Kúluþyrping í Naðurvalda
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
17klst 37mín 38,15s |
Stjörnubreidd: |
-03° 14′ 45,3" |
Fjarlægð: |
30.600 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+8,32 |
Stjörnumerki: | Naðurvaldi |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 6402 |
Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna 1. júní árið 1764. Messier lýsir henni sem kúlulaga og daufri þoku án stjarna. Tæpum tuttugu árum síðar greindi William Herschel fyrstur manna stjörnur í þyrpingunni.
Messier 14 er örlítið sporöskjulaga kúluþyrping. Hún er um 100 ljósár í þvermál og í 30.600 ljósára fjarlægð. Heildarljósaflið er 400.000 sinnum meira en sólar sem samsvarar -9,12 í raunbirtu. Sökum mikillar fjarlægðar sýnist hún daufari en bæði Messier 10 og Messier 12, nágrannar hennar í Naðurvalda, þótt að í raun sé hún umtalsvert bjartari.
Á næturhimninum er Messier 14 á svæði sem sést aldrei mjög vel frá Íslandi. Þyrpingin er nokkuð fjarri björtum stjörnum svo notast þarf við gott stjörnukort til að staðsetja hana (sjá stjörnukort af Naðurvalda). Sökum fjarlægðar er Messier 14 fremur dauf og fátt markvert sést í gegnum litla stjörnusjónauka.
Tengt efni
-
Kúluþyrping
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 14. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-14 (sótt: DAGSETNING).