Messier 29

Lausþyrping í Svaninum

  • Messier 29, lausþyrping, Svanurinn
    Lausþyrpingin Messier 29 í Svaninum. Mynd: Hillary Mathis/NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
20klst 23mín 56s
Stjörnubreidd:
+38° 31,4"
Fjarlægð:
6.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+7,1
Stjörnumerki: Svanurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6913

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna 29. júlí árið 1764 og lýsti henni sem hópi sjö eða átta daufra stjarna.

Messier 29 er í um 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er ekkert sérstaklega stór, aðeins um 11 ljósár í þvermál. Björtustu stjörnurnar eru allar risar af B-gerð. Milli okkar og þyrpingarinnar er nokkuð þétt ryksvæði sem dregur úr birtu hennar. Væri útsýnið óheft væri þyrpingin um það bil þremur birtustigum bjartari.

Messier 29 er hluti af OB1 stjörnufélagi í Svaninum. Aldurinn er áætlaður um 10 milljónir ára því fimm heitustu stjörnurnar eru allir risar í litrófsflokki B0. Þyrpingin stefnir í átt til okkar á 28 km hraða á sekúndu.

Á himninum

Messier 29 sést vel frá Íslandi enda er jafnan Svanurinn hátt á íslenska stjörnuhimninum. Þyrpingin er á þéttu svæði í Vetrarbrautinni nokkrar gráður suðvestur af stjörnunni Sadr (Gamma) í Svaninum. Gott er að styðjast við stjörnukort af Svaninum til að finna þyrpinguna.

Sýndarbirtustig Messier 29 er +7,1. Hún sést leikandi með handsjónauka en nýtur sín best í stjörnusjónaukum við litla stækkun. Átta stjörnur með sýndarbirtustig milli +9 til +10 mynda meginhópinn en í þyrpingunni austanverðri eru nokkrar aðrar álíka bjartar stjörnur.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 29, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_29

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 29. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-29 (sótt: DAGSETNING).