Messier 32

Fylgivetrarbraut Andrómeduþokunnar M31

  • messier-31-32-110
    Messier 31, Messier 32 og Messier 110. Mynd: ESA/Hubble & Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin (ESA/Hubble)
Helstu upplýsingar
Tegund: Dvergsporvöluþoka
 Gerð: cE2
Stjörnulengd:
00klst 42mín 41,8s
Stjörnubreidd:
+40° 51′ 55"
Fjarlægð:
2.5 milljón ljósár
Rauðvik:
z = -0,000667
Sjónstefnuhraði:
-200 ± 6 km/s
Sýndarbirtustig:
+8,08
Stjörnumerki: Andrómeda
Önnur skráarnöfn:
NGC 221, Arp 168

Franski stjörnufræðingurinn Guillaume Le Gentil (sjá skemmtilega sögu í grein um þvergöngu Venusar) uppgötvaði M32 þann 29. október 1749. Landi hans Charles Messier kom fyrst auga á hana árið 1757 en skrásetti ekki fyrr en 3. ágúst 1764. Þá rissaði hann upp Andrómeduþokuna og fylgivetrarbrautirnar tvær M32 og M110 en af einhverju ókunnum ástæðum gaf hann þeirri síðastnefndu ekki skráarheiti.

Messier 32 er í um 2,5 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er um 8.000 ljósár í þvermál og því agnarlítil í samanburði við nágranna sinn. Frá sjónarhóli okkar virðist hún svífa fyrir ofan ystu þyrilarma M31. Litrófsrannsóknir staðfesta það og sýna að hún er örlítið nær okkur en þessi hluti Andrómeduþokunnar.

M31 og M110, fylgivetrarbrautir Andrómeduþokunnar, eru nálægustu dvergsporvölurnar við jörðina. Mikill útlitsmunur er á þeim. M32 er dæmigerð sporvala, þétt og með háa yfirborðsbirtu á meðan M110 er mun gisnari og með lægri yfirborðsbirtu. Engar kúluþyrpingar sveima um M32 en átta um M110. Í miðjunni er 100 milljón sólmassa risasvarthol.

Árið 1944 rannsakaði stjörnufræðingurinn Walter Baade stjörnurnar í M32 og M110 með 100 tommu Hooker sjónaukanum í Kaliforníu. Hann sá að stjörnurnar voru allar álíka bjartar og þar af leiðandi nokkurn veginn jafn langt í burtu og M31.

Eins og flestar aðrar sporvöluþokur er M32 að mestu úr gömlum stjörnum. Svo virðist sem framleiðsla nýrra stjarna þar sé lokið — hún inniheldur nánast ekkert gas og ryk. En þegar litið er á fjölda stjarna, stærð kjarnans og þéttleika ber M32 öll einkenni mun stærri sporvala. Svo virðist sem M32 hafi einhverju sinni verið mun stærri en gerst of nærgöngul Andrómeduþokunni að hún glataði ystu stjörnum og kúluþyrpingum sínum til hennar. Þær eru nú hluti af hjúpi M31. Vísbendingar um að þetta hafi gerst sjást í þyrilörmum Andrómeduþokunnar en þeir hafa bjagast vegna flóðkrafta.

Á himninum

Stjörnumerkið Andrómeda er alla jafna hátt á himninum yfir Íslandi. M31 og fylgivetrarbrautir hennar sjást því leikandi frá Íslandi. Til að finna þríeykið er gott að notast við stjörnukort af Andrómedu. M32 er aðeins 22 bogamínútur suður af miðju Andrómeduþokunnar.

Birtustig M32 er +7,94 svo hægt er að greina hana með góðum vilja í handsjónauka þótt heppilegra sé að nota stjörnusjónauka. Þá sést vel sporöskjulögunin og þéttur kjarninn.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 32. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-32 (sótt: DAGSETNING).