Messier 39
Lausþyrping í Svaninum
Tegund: | Lausþyrping |
Stjörnulengd: |
21klst 32,2mín |
Stjörnubreidd: |
+48° 29" |
Fjarlægð: |
800 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+4,6 |
Stjörnumerki: | Svanurinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 7092 |
Franski stjörnufræðingurinn Guillaume Le Gentil er talinn hafa uppgötvað þyrpinguna árið 1750. Landi hans Charles Messier bætti henni við skrá sína þann 24. október árið 1764. Hugsanlegt er að Grikkinn Aristóteles hafi séð þyrpinguna með berum augum í kringum árið 325 f.Kr..
Messier 39 er í aðeins 800 ljósára fjarlægð frá jörðinni og inniheldur að minnsta kosti 30 stjörnur á 7,5 ljósára breiðu svæði. Bjartasta stjarnan í þyrpingunni er í litrófsflokki A0. Allar stjörnur þyrpingarinnar eru á meginröð en sú bjartasta er rétt óorðin rauður risi. Áætlaður aldur þyrpingarinnar er 270 milljónir ára. Hún stefnir í átt til okkar á 28 km hraða á sekúndu.
Á himninum
Messier 39 er um 9 gráður norðaustur af Deneb, björtustu stjörnu Svansins og því yfirleitt hátt á lofti fyrir Íslandi. Gott er að nota stjörnukort af Svaninum til að finna hana þótt hún sjáist með berum augum sem þokublettur. Hún sést líka vel með handsjónauka.
Flatarmál þyrpingarinnar á himninum er meira en fulls tungls svo best er að skoða hana við litla stækkun í gegnum stjörnusjónauka. Þótt þyrpingin sé gisin stendur vel út frammi fyrir daufari stjörnum Vetrarbrautarinnar í bakgrunni.
Þyrpingin er kjörið viðfangsefni byrjenda í stjörnuskoðun og vitaskuld lengra kominna líka.
Tengt efni
Heimildir
-
SkySafari hugbúnaðurinn
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 39. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-39 (sótt: DAGSETNING).