Messier 4
Kúluþyrping í Sporðdrekanum
-
Messier 4, glæsileg kúluþyrping, prýðir þessa nýju mynd Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum í La Silla stjörnustöð ESO. Þessi stóri bolti úr öldruðum stjörnum er ein nálægasta kúluþyrpingin við jörðina og er að finna í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, skammt frá björtu rauðu stjörnunni Antaresi. Mynd: ESO
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
16klst 23mín 36,41s |
Stjörnubreidd: |
-26° 31′ 31,9" |
Fjarlægð: |
7.200 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+7,12 |
Stjörnumerki: | Sporðdrekinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 6121 |
Frakkinn Philippe Loys de Chéseaux uppgötvaði þyrpinguna árið 1746. Landi hans Charles Messier skrásetti hana 8. maí árið 1764 og tókst að sjá stakar stjörnur í henni. Þar með varð Messier 4 fyrsta kúluþyrpingin sem mönnum tókst að greina stakar stjörnur í. Aðeins tuttugu árum síðar tókst William Herschel að greina sundur stjörnur í öllum kúluþyrpingum Messierskrárinnar, enda með mun stærri og betri sjónauka.
Messier 4 er ein nálægasta kúluþyrpingin við sólkerfið okkar eða í aðeins 7.200 ljósára fjarlægð. Ef ekki væri fyrir miðgeimsryk væri Messier 4 ein tignarlegasta kúluþyrping himins. Miðgeimsefnið veldur geimroðnun — ljós hennar er rauðara en það er í raun og veru vegna ryks sem er milli hennar og okkar. Hún fær þess vegna á sig appelsínugulan eða brúnleitan blæ á litmyndum.
Messier 4 er með gisnustu kúluþyrpingum. Í miðju hennar er nokkuð áberandi bjálkamyndun sem sést í meðalstórum stjörnusjónaukum. Í bjálkanum eru stjörnur af 11. birtustigi en William Herschel tók fyrstur eftir honum.
Árið 1987 fannst tifstjarnan 1821-24 í Messier 4. Þessi tifstjarna er nifteindastjarna sem snýst einu sinni á 3,0 millísekúndum eða yfir 300 sinnum á sekúndu, tíu sinnum hraðar en tifstjarnan í Krabbaþokunni.
Árið 1995 voru teknar myndir af Messier 4 með Hubble geimsjónaukanum. Á myndunum sáust fjölmargir hvítir dvergar sem eru því meðal þeirra elstu í Vetrarbrautinni, um 13 milljarða ára.
Á himninum
Messier 4 er rétt aðeins of sunnarlega til að sjást frá Íslandi. Íslendingar á suðlægari breiddargráðum ættu þó ekki að vera í vandræðum við að finna hana með hjálp stjörnukorts af Sporðdrekanum. Hún er aðeins um 1,3 gráður vestur af Antaresi, björtustu stjörnu Sporðdrekans.
Höfundur þessarar greinar hefur séð hana bæði með handsjónauka og stjörnusjónauka frá Chile og Suður Afríku. Í handsjónauka sést hún sem kúlulaga móðublettur sem verður þéttari við miðju. Lítinn stjörnusjónauka þarf til að greina björtustu stjörnurnar sem eru með birtustig í kringum +11.
Nálægt aust-norðaustur af Messier 4 er önnur daufari kúluþyrping, NGC 6144 (birtustig +10,4). Best er að Antares sjáist ekki í sjónsviði sjónaukans þegar hún er skoðuð ellegar truflar glýjan frá Antaresi.
Myndasafn
Messier 4 og Rho Ophiuchi skýið í Naðurvalda
|
||
Hvítir dvergar í Messier 4
|
||
Víðmynd af Messier 4Þessi víðmynd sýnir kúluþyrpinguna Messier 4 (NGC 6121) í stjörnumerkinu Sporðdrekanum. Litmyndin var sett saman úr ljósmyndum Digitized Sky Survey 2 (DSS2). Litla kúluþyrpingin ofarlega til vinstri er NGC 6144. Hún er svipuð Messier 4 en meira en þrefalt lengra í burtu. Ofarlega til vinstri sést líka rauður bjarmi vetnis í tengdu stjörnumyndunarsvæði. Bjarta stjarnan ofarlega hægra megin er Sigma Scorpii. Mynd: ESO/Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin |
||
Gamlar glitrandi kúlurÞessa glitrandi fallegu ljósmynd tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA af stjörnum í miðju kúluþyrpingarinnar Messier 4. Mynd: NASA/ESA-Hubble |
Tengt efni
-
Kúluþyrping
Heimildir
-
Gamlar glitrandi kúlur - Mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum 3. september 2012
-
Leyndardómsfull þyrping - Frétt frá ESO.org
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 4. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-4 (sótt: DAGSETNING).