Messier 45
Sjöstirnið í Nautinu
Tegund: | Lausþyrping |
Stjörnulengd: |
03klst 47mín 24sek |
Stjörnubreidd: |
+24° 7′ |
Fjarlægð: |
440 ljósár (135 parsek) |
Sýndarbirtustig: |
+1,4 |
Hornstærð: |
1,8 gráður |
Radíus: |
8 ljósár |
Stjörnumerki: | Nautið |
Auðvelt er að sjá Sjöstirnið með berum augum á heiðskírri nótu og það lítur mjög vel út í handsjónauka. Samkvæmt grísku goðsögnunum eru stjörnurnar sjö dætur Atlasar og Pleiónu. Sex stjörnur eru greinilegar en goðsögnin segir að sú sjöunda (Merópa) hafi dofnað af skömm eftir samneyti við dauðlegan mann. Japanska nafnið á þyrpingunni, Subaru, er bæði notað fyrir bílafyrirtæki og risasjónauka á Hawaii.
Sjöstirnið er 45. fyrirbærið í skrá franska stjörnufræðingsins Charles Messiers yfir þokur og þyrpingar sem gefin var út árið 1771. Messier færði þyrpinguna í skrá sína hinn 4. mars árið 1769.
Sjöstirnið er ung stjörnuþyrping, líklegast innan við 100 milljón ára. Þyrpingin er umlukin bláleitu þokuskýi sem lýsist upp vegna endurvarps frá stjörnum Sjöstirnisins. Slík þoka kallast endurskinsþoka. Bjartasti hluti þokunnar er við stjörnuna Merópu. Hana uppgötvaði Ernst Wilhelm Tempel með fjögurra tommu linsusjónauka sínum hinn 19. október 1859. Lengi vel töldu menn þokuna efnisleifar frá myndun þyrpingarinnar er svo er ekki. Þokan er alls ótengd þyrpingunni, það vill einungis svo til að Sjöstirnið er á leið í gegnum hana á ferð sinni um Vetrarbrautina.
Goðsagnir
Sjöstirnið hefur þekkst frá alda öðli enda þyrpingin áberandi á himninum. Með berum augum minnir hún um margt á litla útgáfu af Karlsvagninum. Minnst er á þyrpinguna í Illíonskviðu Hómers frá um 750 f.Kr. og í Ódysseifskviðu sem skrifuð var tæpum þrjátíu árum síðar. Í biblíunni er þrisvar sinnum minnst á Sjöstirnið, tvisvar í Jobsbók (9:9 og 38:31):
8 hann sem þenur út himininn aleinn,
og gengur á háöldum sjávarins,
9 hann sem skóp Vagnstirnið og Óríon,
Sjöstjörnuna og forðabúr sunnanvindsins,
31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin
eða fær þú leyst fjötra Óríons?
32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma
og leiðir þú Birnuna með húnum hennar?
og einu sinni í Amos:
8 Hann, sem skóp sjöstjörnuna og Óríon, sem gjörir niðmyrkrið að björtum morgni og dag að dimmri nótt, sem kallaði á vötn sjávarins og jós þeim yfir jörðina, Drottinn er nafn hans.
Sjöstirnið er oft kallað Systurnar sjö. Í grískri goðafræði voru systurnar sjö dætur Atlasar og Pleione, þær Alkýóna, Asterópa (tvístirni, stundum líka kallað Sterópa), Elektra, Maia, Merópa, Taygeta og Kalæno.
Í erlendum tungumálum ber Sjöstirnið mismunandi nöfn. Margir kannast við japanska heitið á þyrpingunni sem þó er sjaldnast notað í tenglsum við hana sjálfa en það er nafnið Subaru. Bifreiðategundin er einmitt nefnd eftir þyrpingunni og hið sama má segja um Subaru-sjónaukann á Mauna Kea. Persneska nafnið á Sjöstirninu er Soraya sem íranska keisaraynjan var síðar nefnd eftir.
Að skoða Sjöstirnið
Stjörnukort af Nautinu sem sýnir staðsetningu Sjöstirnisins (sækja pdf). Mynd: IAU/S&T og Stjörnufræðivefurinn |
Sjöstirnið er að finna skammt norðvestur af björtu rauðu risastjörnunni Aldebaran, sem er bjartasta stjarna Nautsins. Við Aldebaran er önnur þekkt lausþyrping sem kallast Regnstirnið (e. Hyades) og gaman er að skoða með víðum handsjónauka. Aldebaran er þó ekki hluti þeirrar þyrpingar heldur stjarna í forgrunni í ríflega 68 ljósára fjarlægð en Regnstirnið er í 150 ljósára fjarlægð.
Sjöstirnið er glæsilegt á að líta með handsjónauka eða linsusjónauka með litla stækkun og víðu sjónsviði. Þyrpingin nýtur sín nefnilega best við litla stækkun því hún nær yfir stórt svæði á himninum, næstum fjórfalt stærra svæði en fullt tungl.
Við þokkalegar aðstæður má greina að minnsta kosti sex stjörnur með berum augum, en við góðar aðstæður sjást frá níu upp í tólf stjörnur í þyrpingunni. Áður en stjörnusjónaukinn var fundinn upp voru til sögur af mönnum sem sögðust sjá meira en fjórtán stjörnur með berum augum í þyrpingunni.
Sjöstirnið er mjög nærri sólbaugnum (fjórar gráður frá honum). Sólbaugurinn er sú braut sem sólin, tunglið og reikistjörnurnar virðast ganga eftir á himninum. Af þeim sökum gengur tunglið oft fyrir þyrpinguna. Hverfur þá Sjöstirnið á bak við tunglið og getur slíkur atburður verið mjög fallegur á að líta.
Björtustu stjörnur Sjöstirnisins
Stjörnur Sjöstirnisins. Mynd: NASA/ESA og Stjörnufræðivefurinn |
Níu björtustu stjörnur Sjöstirnisins eru nefndar systrunum sjö úr grískri goðafræði auk foreldra þeirra Atlasar og Pleiónu.
-
Celaeno (16 Tauri) er stjarna í lausþyrpingunni Sjöstirninu sem er í um 430 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 5,45). Hún er bláhvít undirmálsstjarna af gerðinni B7, um tíu sinnum massameiri en sólin og rúmlega fjórum sinnum breiðari. Hún er yfir 12.000°C heit.
-
Elektra (17 Tauri) er stjarna í lausþyrpingunni Sjöstirninu sem er í um 400 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,7). Hún er bláhvít risastjarna af gerðinni B6.
-
Taygeta er þrístirni í lausþyrpunginni Sjöstirninu í um 440 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Nautinu. Bjartasta stjarna kerfisins, Taygeta A, er bláhvít undirmálsstjarna af gerðinni B6. Hún er litrófstvístirni með 1.313 daga umferðartíma. Lengra í burtu er þriðja stjarna, Tayget B.
-
Maia er stjarna í lausþyrpingunni Sjöstirninu sem er í um 400 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 3,87). Hún er blá risastjarna af gerðinni B8, um fjórum sinnum massameiri en sólin, fimm sinnum brieðari og 660 sinnum bjartari. Yfirborðshitastig hennar er yfir 12.000°C svo hún gefur að mestu frá sér útfjólublátt ljós. Stjarnan er nefnd eftir elstu systurinni af systrunum sjö. Eftir að Seifur kom fram vilja sínum við hana, ól hún Hermes, sendiboða guðanna.
-
Asterópa eða Sterópa er nafn á tveimur stjörnum, 21 Tauri og 22 Tauri, í lausþyrpingunni Sjöstirninu í stjörnumerkinu Nautinu. 21 Tauri er meginraðarstjarna af gerðinni B8 (birtustig 5,76) en 22 Tauri er meginraðarstjarna af A0-gerð. Báðar stjörnur eru í um 430 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Merópa (23 Tauri) er stjarna í lausþyrpingunni Sjöstirninu í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 4,11). Hún er bláhvít undirmálsstjarna af gerðinni B6 sem er ríflega fjórum sinnum massameiri en sólin, fjórum sinnum breiðari og 630 sinnum bjartari. Yfirborðshitastig hennar er yfir 13.000°C svo hún gefur að mestu frá sér útfjólublátt ljós.
- Alkýóna eða Eta Tauri er fjórstirni í lausþyrpingunni Sjöstirninu í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 2,87). Stærsta stjarna kerfisins, Alkýóna A, er bláhvít risastjarna af gerðinni B7. Hún er tífalt breiðari en sólin okkar og yfir 2.000 sinnum bjartari. Yfirborðshitastig hennar er yfir 12.000°C svo hún gefur að mestu frá sér útfjólublátt ljós. Við hana eru þrjár stjörnur: Alkýóna A og Alkýóna B eru meginraðarstjörnur af gerðinni A en Alkýóna D er meginraðarstjarna af gerðinni F.
-
Atlas (27 Tauri) er þrístirni í lausþyrpingunni Sjöstirninu í stjörnumerkinu Nautinu. Stærsta stjarnan, Atlas A, er bláhvít risastjarna af gerðinni B. Hún er sýndartvístirni með 1.250 daga umferðartíma.
-
Pleióna (28 Tauri) er tvístirni í lausþyrpingunni Sjöstirninu í stjörnumerkinu Nautinu (birtustig 5,05). Pleióna er örstutt frá Atlas á himninum svo erfitt getur reynst að sjá hana með berum augum. Bjartasta stjarna kerfisins, Pleióna A, er undirmálsstjarna af gerðinni B8 sem er að þróast í risastjörnu. Kerfið er í um 400 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 45. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messier-45 (sótt: DAGSETNING).