Messier 49
Sporvöluþoka í Meyjunni
Tegund: | Sporvöluþoka |
Gerð: | E4 |
Stjörnulengd: |
12klst 29mín 46,7s |
Stjörnubreidd: |
+08° 00′ 02" |
Fjarlægð: |
60 milljón ljósár |
Rauðvik: |
z = 0,003326 |
Sjónstefnuhraði: |
997 ± 7 km/s |
Sýndarbirtustig: |
+9,5 |
Stjörnumerki: | Meyjan |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 4472, Arp 134 |
Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna þann 19. febrúar 1771. Hún var fyrsta vetrarbrautin sem fannst í Meyjarþyrpingunni.
Messier 49 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er með björtustu vetrarbrautum Meyjarþyrpingarinnar — safni meira en 1.300 vetrarbrauta — og ein af risasporvölunum sem í henni eru. M60 er hátt í 200.000 ljósár í þvermál, tvöfalt stærri en vetrarbrautin okkar og inniheldur líklega yfir trilljón stjörnur. Á sveimi um hana gætu verið í kringum 6000 kúluþyrpingar.
Messier 49 er 134. fyrirbærið í skrá bandaríska stjörnufræðingsins Haltons Arp yfir sérkennilegar vetrarbrautir sem kom út árið 1966. Í skrá Arps eru 338 vetrarbrautir sem eru að renna saman eða gagnverka hvor við aðra.
Á himninum
Messier 49 sést ágætlega frá Íslandi en best er að skoða hana þegar Meyjarmerkið er í suðri að áliðinni nóttu seint í mars og snemma í apríl. Engin björt eða áberandi stjarna er mjög nálægt M49 svo nauðsynlegt er að nota stjörnukort af Meyjunni til að finna hana.
Sýndarbirtustig Messier 49 er +9,5 svo nota þarf stjörnusjónauka til að skoða hana. Í gegnum átta tommu sjónauka við um það bil 100-falda stækkun sést bjartur þokublettur sem dofnar til jaðranna.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 49. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-49 (sótt: DAGSETNING).