Messier 50
Lausþyrping í Einhyrningnum
Tegund: | Lausþyrping |
Stjörnulengd: |
07klst 3,2mín |
Stjörnubreidd: |
-06° 20′ |
Fjarlægð: |
3.200 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+5,9 |
Stjörnumerki: | Einhyrningurinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 2323 |
Hugsanlegt er að ítalski stjörnufræðingurinn Giovanni Domenico Cassini hafi fundið þyrpinguna fyrir árið 1711. Þann 5. apríl 1772 fann franski stjörnufræðingurinn Charles Messier hana og færði í skrá sína yfir þokukennd fyrirbæri sem sem líktust halastjörnum á himinhvelfingunni.
Messier 50 er í um 3.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni og í kringum 20 ljósár í þvermál. Þyrpingin telur líklega yfir 200 stjörnur. Bjartasta stjarnan er af gerð B6 og birtustig hennar er +7,85.
Á himninum
Messier 50 er á mörkum Einhyrningsins og Stórahunds, nokkrar gráður fyrir ofan Síríus, björtustu stjörnu næturhiminsins. Hún sést því ágætlega frá Íslandi en kemst aldrei mjög hátt á loft. Best er að skoða hana í kringum miðnætti snemma í febrúar og mars þegar hún er í hágöngu í suðri. Til að finna hana er best að styðjast við stjörnukort af Einhyrningnum. Þyrpingin er nokkurn veginn fyrir miðju ímyndaðrar línu sem dregin er milli Síríusar og Prókýons í Vetrarþríhyrningnum.
Messier 50 nýtur sín best í gegnum stjörnusjónauka við litla stækkun en hægt er að sjá hana með handsjónauka. Við bestu aðstæður er hún sjáanleg með berum augum.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 50. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-50 (sótt: DAGSETNING).