Messier 54

Kúluþyrping í Bogmanninum

  • Messier 54, kúluþyrping, Bogmaðurinn
    Kúluþyrpingin Messier 54 í Bogmanninum. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
18klst 55mín
Stjörnubreidd:
-30° 28´
Fjarlægð:
87.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+8,37
Stjörnumerki: Bogmaðurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 6809

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna 24. júlí 1778. Messier sagði hana mjög daufa þaðan sem hann sá hana í París.

Messier 54 er í um 87.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Árið 1994 komust menn að því að hún tilheyrir í raun ekki Vetrarbrautinni okkar heldur dvergsporvölunni í Bogmanninum (SagDEG). Þyrpingin er gríðarstór, um 300 ljósár í þvermál og mjög þétt. Hún er líka ein bjartasta kúluþyrping sem þekkist með ljósafl á við 850.000 sólir. Aðeins Omega Centauri er skærari.

Messier 54 er björt en svo fjarlæg að hægt er að rugla henni saman við stjörnu í litlum handsjónaukum eða leitarsjónaukum. Vegna mikillar fjarlægðar er líka mjög erfitt að greina sundur stjörnur í henni og raunar aðeins hægt með stórum áhugamannasjónaukum. 10x50 handsjónauki og litlir stjörnusjónaukar sýna hringlaga þokublett sem dofnar til jaðranna.

Á himninum

Messier 54 sést ekki frá Íslandi enda alltof sunnarlega á himinhvolfinu. Fara þarf suður að Miðjarðarhafinu til að sjá hana vel á himninum en gott er að styðjast við stjörnukort af Bogmanninum til að finna hana. Auðvelt er að staðsetja hana út frá stjörnunni Zeta í Bogmanninum.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 54, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_54

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 54. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-54 (sótt: DAGSETNING).