Messier 69
Kúluþyrping í Bogmanninum
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
18klst 31mín |
Stjörnubreidd: |
-32° 20" |
Fjarlægð: |
29.700 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+8,3 |
Stjörnumerki: | Bogmaðurinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 6637 |
Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þyrpinguna þann 31. ágúst 1780. Sömu nótt fann hann Messier 70. Messier var að leita að fyrirbæri sem landi hans Nicholas Lacaille hafði fundið árin 1751-52 og taldi sig hafa fundið það en í raun var það áður óþekkt fyrirbæri. Messier hafði áður leitað að fyrirbæri Lacailles árið 1764 en hafði ekki erindi sem erfiði.
Messier 69 er í um 29.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er um það bil 85 ljósár í þvermál. Þyrpingin er í aðeins 6.200 ljósára fjarlægð frá miðju Vetrarbrautarinnar og aðeins 1.800 ljósár skilja milli hennar nágrannans Messier 70.
Messier 69 er óvenju málmrík kúluþyrping. Það þýðir að stjörnur hennar hafa tiltölulega hátt hlutfall frumefna sem eru þyngri en helíum. Málmamagnið er engu að síður töluvert lægra en í stjörnum eins og sólinni okkar. Þetta bendir til þess að þyrpingin hafi orðið snemma í sögu alheimsins en þó ekki fyrr en fyrstu kynslóðir stjarna höfðu sprungið og framleitt þyngri frumefni en vetni og helíum.
Á himninum
Messier 69 er of sunnarlega á himinhvelfingunni til að sjást frá Íslandi svo fara þarf á mun suðlægari slóðir til að sjá hana. Þyrpingin er nokkurn veginn mitt á milli stjarnanna Kaus Australis og zeta í Bogmanninum en gott er að nota stjörnukort . Hún er með smæstu og daufust kúluþyrpingum Messierskrárinnar en sést við bestu aðstæður með handsjónauka.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 69. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-69 (sótt: DAGSETNING).