Messier 81

Þyrilþoka í Stórabirni

  • Messier 81, þyrilþoka, Stóribjörn
    Þyrilþokan Messier 81 í Stórabirni. Mynd: NASA/ESA/Hubble Heritage Team (STScI/AURA)
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SA(s)ab
Stjörnulengd:
09klst 55mín 33,2s
Stjörnubreidd:
+69° 3′ 55"
Fjarlægð:
12 milljónir ljósára
Rauðvik:
z = -0,000113
Sjónstefnuhraði:
-34 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+6,9
Stjörnumerki: Stóribjörn
Önnur skráarnöfn:
NGC 3031

Þýski stjörnufræðingurinn Johann Elert Bode uppgötvaði Messier 81 og Messier 82 þann 31. desember árið 1774. Hún er þess vegna stundum nefnd vetrarbraut Bodes. Bode lýsti henni sem móðubletti innan við gráðu frá M82 sem hann fann sömu nótt. Í ágúst árið 1779 fann Frakkinn Pierre Méchain þokuna og lét landa sinn og vin Charles Messier vita af henni. Messier bætti henni þá við skrá sína eftir að hafa mælt hnit hennar á himninum þann 9. febrúar 1781.

Eiginleikar

Messier 81 er í um 12 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er þyrilþoka eins og vetrarbrautin okkar og líklega álíka stór. M81 hefur mjög tignarlega þyrilarma úr ungum, bláum, heitum stjörnum sem margar hverjar hafa myndast á síðustu milljónum ára og sjást vel á útfjólublárri ljósmynd GALEX geimsjónaukans af vetrarbrautinni. Í örmunum eru líka stjörnur sem urðu til í hrinu stjörnumyndunar fyrir um 600 milljónum ára. Á glæsilegum ljósmyndum Hubble geimsjónauka NASA og ESA og Spitzer geimsjónauka NASA sést mikið ryk í örmunum og þétt og björt stjörnumyndunarsvæði sem ungu stjörnurnar lýsa upp með orkuríkri útfjólublárri geislun sinni.

Í miðbungu Messier 81 eru mun eldri og rauðari stjörnur. Þessi bunga er töluvert stærri en miðbunga okkar vetrarbrautar. Í kjarnanum er 70 milljón sólmassa risasvarthol, fimmtán sinnum þyngra en svartholið í miðju okkar vetrarbrautar.

Hingað til hefur aðeins ein sprengistjarna sést í Messier 81, SN 1993J sem fannst 28. mars 1993. SN 1993J var sprengistjarna af gerð IIb.

Fyrir um 300 milljónum ára er hugsanlegt að aukning hafi orðið á myndun stjarna í M81 eftir að nágrannavetrarbrautirnar Messier 82 og NGC 3077 gerðust nærgöngular. Þess sjást best merki í Messier 82 sem er hrinuvetrarbraut af þessum sökum en líka í þyrilörmum M81. Aðeins um 300.000 ljósár skilja milli M81 og M82.

M81 hópurinn

stjörnukort, stjörnumerki, Stóribjörn
Kort sem sýnir staðsetningu Messier 81 í stjörnumerkinu Stórabirni. Kort: IAU/S&T og Stjörnufræðivefurinn

Messier 81 er stærsta vetrarbrautin í hópi 34 vetrarbrauta sem við hana er kenndur. Hópurinn er í aðeins um 12 milljón ljósára fjarlægð. Hann er næstnálægasti vetrarbrautarhópurinn við Grenndarhópinn, sem vetrarbrautin okkar tilheyrir; aðeins Myndhöggvarahópurinn er nálægari.

Á himninum

Það getur verið nokkuð snúið að finna Messier 81 á himninum. Til þess þarf að nota stjörnukort af Stórabirni. Messier 81 er um það bil 10 gráður norðvestur af stjörnunni Alfa í Stórabirni (krepptur hnefi í útréttri hendi nær yfir um 10 gráðu svæði á himninum). Gott er að skanna svæðið með handsjónauka eða leitarsjónauka.

Margir sjóngóðir áhugamenn hafa séð þokuna með berum augum við bestu aðstæður. Best er þó að skoða hana með stjörnusjónauka við meðalstækkun. Með sjónaukum með lítilli stækkun er hægt að sjá M81 og M82 í sama sjónsviði. Í átta tommu sjónaukum og stærri er hægt, með hliðraðri sjón, að greina daufa þyrilarmana í M82.

Myndasafn

Messier 81, Messier 82, þyrilþoka, Stóribjrön

Víðmynd af Messier 81 og Messier 82

Þyrilþokan Messier 81 og nágrannavetrarbrautin Messier 82 á mynd Digitized Sky Survey 2 (SDSS)

Mynd: ESA/Hubble og Digitized Sky Survey 2. Þakkir: Davide De Martin

Messier 81, þyrilþoka, Stóribjörn

Mynd Hubble geimsjónaukans af Messier 81

Þessi mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA er sú skarpasta sem tekin hefur verið af vetrarbrautinni. Á myndinni sjást stakar stjörnur, lausþyrpingar, kúluþyrpingar og stjörnumyndunarsvæði. Myndin er sett saman úr gögnum sem Advaced Camera for Surveys aflaði milli 2004 og 2006.

Mynd: NASA, ESA og Hubble Heritage Team STScI/AURA). Þakkir: A. Zezas og J. Huchra (Harvard-Smithsonian Center for Astrophysics)

Messier 81, Messier 82, þyrilþoka, Stóribjrön

Samsett mynd Hubble, GALEX og Spitzer af Messier 81

Messier 81 á mynd sem skeytt var saman úr gögnum Hubble, GALEX og Spitzer geimsjónaukanna. Gögn GALEX sýna útfjólublátt ljós frá heitustu svæðum vetrarbrautarinnar, gögn Spitzers innrautt ljós frá gasi og ryki og gögn Hubbles sýna sýnilegt ljós.

Mynd: NASA, ESA og A. Zezas (Harvard-Smithsonian Centre for Astrophysics); GALEX: NASA, JPL-Caltech, GALEX Team, J. Huchra et al. (Harvard-Smithsonian Centre for Astrophysics); Spitzer: NASA/JPL/Caltech/Harvard-Smithsonian Centre for Astrophysics.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 81. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-81 (sótt: DAGSETNING).