Messier 86

Linsulaga vetrarbraut í Meyjunni

  • Messier 86, linsulaga vetrarbraut, Meyjan
    Messier 86, linsulaga vetrarbraut í Meyjunni. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Linsulaga vetrarbraut
 Gerð: S0(3)/E3
Stjörnulengd:
12klst 26mín 11,7s
Stjörnubreidd:
+12° 56′ 46"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
-416 ± 5 km/s
Sýndarbirtustig:
+9,8
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4406

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna 18. mars 1781. Þetta sama kvöld skrásetti Messier sjö önnur þokukennd fyrirbæri á sama svæði á himninum, allt vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni en líka kúluþyrpinguna Messier 92.

Messier 86 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er linsulaga vetrarbraut í hjarta Meyjarþyrpingarinnar, safni um það bil 1.300 vetrarbrauta. Í henni eru aðeins gamlar, gulleitar stjörnur.

Messier 86 hefur mest blávik allra fyrirbæra í Messierskránni því hún stefnir í átt að vetrarbrautinni okkar á 419 km hraða á sekúndu. Ástæðan er sú að hún er að falla inn að miðju Meyjarþyrpingarinnar og nálgast hana úr gagnstæðri átt við okkur. Á ferðalagi sínu ferðast M86 í gegnum heitt en dreift gas í þyrpingunni. Þannig myndast þrýstingur sem „rænir“ vetrarbrautina gasi og tilkomumikill gashali myndast eins og sjá má á mynd Chandra röntgengeimsjónauka NASA.

Messier 86 er hluti af keðju Markarians sem svo er nefnd vegna þess að frá jörðu séð mynda nokkrar vetrarbrautir slétta, sveigða línu.

Á himninum

Messier 84 og Messier 86 er um hálfa leið milli stjarnanna Epsilon í Meyjunni og Beta í Ljóninu en gott er að nota stjörnukort af Meyjunni til að finna þær. Í gegnum meðalstóra og stóra stjörnusjónauka sést bjartur hringlaga kjarni sem dofnar til jaðranna.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 86. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-86 (sótt: DAGSETNING).