Messier 88

Þyrilþoka í Bereníkuhaddi

  • Messier 88, þyrilþoka, Bereníkuhaddur
    Þyrilþokan Messier 88 í Bereníkuhaddi. Mynd: Joseph D. Schulman
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SA(rs)b, HII Sy2
Stjörnulengd:
12klst 31mín 59,2s
Stjörnubreidd:
+14° 25′ 14"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
2.281 ± 3 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,4
Stjörnumerki: Bereníkuhaddur
Önnur skráarnöfn:
NGC 4374

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna 18. mars 1781. Sama kvöld skrásetti Messier sjö önnur þokukennd fyrirbæri á sama svæði á himninum, allt vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni en líka kúluþyrpinginu Messier 92. Messier 88 var ein af 14 þyrilþokum sem William Parsons, lávarður af Rosse, bar kennsl á fyrir árið 1850. Þyrilþokurnar ollu mönnum miklum heilabrotum því ekki var vitað hvort þær væru innan eða utan okkar eigin vetrarbrautar. Lausnin fékkst ekki fyrr en upp úr 1920 þegar í ljós kom að þyrilþokurnar voru stakar vetrarbrautir.

Messier 88 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni og um 130.000 ljósár í þvermál. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni, safni meira en 1.300 vetrarbrauta og stefnir í átt að miðju hennar sem hún kemst næst eftir 200-300 milljónir ára.

Messier 88 er Seyfert vetrarbraut af gerð 2 sem þýðir að í litrófi hennar eru ljómlínur frá jónuðu gasi í miðju vetrarbrautarinnar. Í kjarnanum er risasvarthol, líklega um 80 milljón sólmassar.

Árið 1999 sást sprengistjarna, SN 1999cl, í Messier 88.

Á himninum

Einfaldasta leiðin til að finna Messier 88 á himninum er að finna fyrst Messier 84 og Messier 86 sem eru um hálfa vegu milli stjarnanna Epsilon í Meyjunni og Beta í Ljóninu. Með því að færa sjónaukann örlítið í austur og svo innan við gráðu norður sést Messier 87. Um það bil eina gráðu norður og eina gráðu austur frá M87 ættirðu að koma auga á Messier 88. Gott er að styðjast við stjörnukort af Bereníkuhaddi til auðvelda sér leitina. Í gegnum meðalstóra og stóra sjónauka er Messier 88 fremur óljós hringlaga móðublettur með bjartan kjarna.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 88. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-88 (sótt: DAGSETNING).