Messier 89

Sporvöluþoka í Meyjunni

  • Messier 89, sporvöluþoka, Meyjan
    Sporvöluþokan Messier 89 í Meyjunni. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Sporvöluþoka
 Gerð: E0
Stjörnulengd:
12klst 35mín 39,8s
Stjörnubreidd:
+12° 33′ 23"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
340 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,7
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4552

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna 18. mars 1781. Sama kvöld skrásetti Messier sjö önnur þokukennd fyrirbæri á sama svæði á himninum, allt vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni en líka kúluþyrpinginu Messier 92.

Messier 89 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er sporvöluþoka en næstum fullkomlega hringlaga, hugsanlega vegna sjónarhorns okkar hér á jörðinni Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni, safni um það bil 1.300 vetrarbrauta. Í henni eru aðeins gamlar, gulleitar stjörnur.

Messier 89 hefur mikinn fjölda kúluþyrpinga, ef til vill um 2.000 talsins. Til samanburðar eru um það bil 150-200 kúluþyrpingar í kringum Vetrarbrautina okkar.

Hugsanlegt er að vetrarbrautin hafi eitt sinn verið dulstirni eða útvarpsvetrarbraut. Út frá henni skagar strókur úr gasi sem nær 100.000 ljósár út í geiminn.

Á himninum

Einfaldasta leiðin til að finna Messier 89 á himninum er að finna fyrst Messier 84 og Messier 86 sem eru um hálfa vegu milli stjarnanna Epsilon í Meyjunni og Beta í Ljóninu. Með því að færa sjónaukann örlítið í austur og svo innan við gráðu norður sést Messier 87. Færðu sjónaukann lítið eitt í suðvestur átt frá M87 og þá ættirðu að koma auga á Messier 89. Gott er að styðjast við stjörnukort af Meyjunni til að finna hana. Vetrarbrautin er dauf en lítur út eins og hringlaga þokumóða í gegnum stjörnusjónauka.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 89. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-89 (sótt: DAGSETNING).