Messier 98
Þyrilþoka í Bereníkuhaddi
Tegund: | Þyrilþoka |
Gerð: | SAB(s)ab |
Stjörnulengd: |
12klst 13mín 48,3s |
Stjörnubreidd: |
+14° 54′ 01" |
Fjarlægð: |
60 milljón ljósár |
Rauðvik: |
z = -0,000474 |
Sjónstefnuhraði: |
-142 ± 4 km/s |
Sýndarbirtustig: |
+11 |
Stjörnumerki: | Bereníkuhaddur |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 4192 |
Franski stjörnufræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna 15. mars árið 1781 ásamt Messier 99 og Messier 100 sem eru nærri. Landi hans og vinur Charles Messier mældi staðsetningu hennar á himninum og færði í skrá sína þann 13. apríl sama ár.
Messier 98 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni, safni meira en 1.300 vetrarbrauta. M98 stefnir í átt til okkar á 140 km hraða á sekúndu vegna þess að hún er að falla inn að miðju Meyjarþyrpingarinnar.
Á himninum
Messier 98 er eitt erfiðasta fyrirbæri Messierskrárinnar að skoða enda er hún dauf og á rönd. Til að finna hana á himninum þarf að styðjast við stjörnukort af Bereníkuhaddi. Gott er að byrja á að finna Messier 84 sem er nokkurn veginn mitt á milli stjarnanna Beta (Denebólu) í Ljóninu og Epsilon í Meyjunni. Notaðu minnstu stækkun sem gefur mesta sjónsvið. Þegar sú vetrarbraut er fundin er best að skanna svæðið hægt og rólega með sjónaukanum í norðurátt þar til Messier 99 er fundin. Frá henni heldur þú áfram örlítið í norður uns í sjónsviðinu sést daufur og mjór þokublettur. Nota þarf meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka til að sjá þokuna.
Tengt efni
Heimildir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 98. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-98 (sótt: DAGSETNING).