Þrískipta þokan (e. Trifid Nebula)
Messier 20
Tegund: | Ljómþoka / endurskinsþoka |
Stjörnulengd: |
18klst 02mín 23sek |
Stjörnubreidd: |
-23° 01′ 48″ |
Fjarlægð: |
7.600 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+6,3 |
Hornstærð: |
28 bogamínútur |
Stjörnumerki: | Bogmaðurinn |
Önnur skráarnöfn: |
NGC 6514, Sharpless 30 |
Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier var í leit að halastjörnum þegar hann kom auga á Þrískiptuþokuna fyrstur manna í júní árið 1764. Hann lýsti henni sem þokukenndu glóandi fyrirbæri og færði hana í fræga skrá sína, þá 20. í röðinni. Sextíu árum síðar sá enski stjörnufræðingurinn John Herschel rykslæðurnar sem skipta þokunni í þrennt. Hann nefndi hana því Þrískiptuþokuna.
Þrískiptaþokan er í um 7.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Rauðbleika rósarlaga skýið er dæmigerð ljómþoka. Í henni eru ungar, heitar og massamiklar stjörnur sem móta og lýsa hana upp með sterkri útfjólublárri geislun sinni. Vetnisgasið jónast og gefur frá sér rauðbleikt ljós.
Bláa þokan er endurskinsþoka. Í henni dreifa gas og ryk ljósi frá stjörnunum sem Þrískipta þokan hefur getið af sér. Ryk og gassameindir dreifa bláu ljósi betur en rauðu — eiginleiki sem skýrir hvers vegna himininn er blár og sólsetur rauð — sem gefur þessari þoku bláleitan blæ.
Dökku gas og rykskýin sem kljúfa Þrískiptuþokuna eru skuggaþokur. Riddaraþokan í Óríon er frægust slíkra þoka. Í þeim eru stjörnur líka að myndast.
Í neðri hluta ljómþokunnar stingst stöpull eins og fingur út úr skýinu og bendir beint á stjörnuna sem knýr Þrískiptuþokuna áfram. Stöpullinn er dæmi um gashnoðra sem er að gufa upp en þeir hafa líka sést í Arnarþokunni. Á fingurbjörginni, sem Hubble geimsjónaukinn hefur tekið mynd af, er þéttur gashnoðri sem hefur staðið af sér stöðugan ágang geislunar frá stóru stjörnunni.
Omegaþokan sést því miður ekki frá Íslandi. Hún sést vel frá suðlægari slóðum, rétt rúmlega 2 gráður norðvestur af Lónþokunni. Auðvelt er að finna hana með stjörnukortinu hér.
Myndasafn
Þrískipta þokan á mynd Wide Field Imager
|
||
Stjörnumyndun í Þrískiptuþokunni
|
Tengt efni
-
Bogmaðurinn
Hvernig vitna skal í þessa grein
-
Sævar Helgi Bragason (2011). Þrískipta þokan. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/thriskiptathokan sótt (DAGSETNING)