NGC 346
Tegund: | Lausþyrping og ljómþoka |
Stjörnulengd: |
0klst 59mín 18s |
Stjörnubreidd: |
-72° 10′ 48" |
Fjarlægð: |
210.000 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
|
Stjörnumerki: | Túkaninn |
Önnur skráarnöfn: |
ESO 51-10 |
Skoski stjörnufræðingurinn James Dunlop uppgötvaði svæðið þann 1. ágúst árið 1826.
NGC 346 nær yfir um 200 ljósára breitt svæði í geimnum. Hún er flokkuð sem lausþyrping en það gefur til kynna að hópurinn hafi allir myndast úr sama skýi. Þokan sem fylgir þyrpingunni kallast ljómþoka sem þýðir að gasið í henni hefur hitnað svo af völdum stjarnanna að það glóir á svipaðan hátt og neongas í auglýsingaskiltum.
Stjörnurnar í NGC 346 eru ungar á stjarnfræðilegan mælikvarða, rétt nokkurra milljóna ára gamlar. Öflugir vindar frá massamiklum stjörnum hrundu af stað þessari stjörnumyndun með því að þjappa saman miklu magni efnis en það er fyrsta skrefið í átt til þess að nýjar stjörnur kvikni. Efnisskýið féll svo saman undan eigin þyngdarkrafti uns sum svæði urðu þéttari og nógu heit til að mynda skær bál, knúin áfram af kjarnasamruna — stjörnu sem lýsti síðan upp afgangsgas og -ryk.