Loftnetið (e. Antennae Galaxies)
NGC 4038 / NGC 4039
Tegund: | Gagnvirkar vetrarbrautir |
Stjörnulengd: |
12klst 01mín 53.0sek 12klst 01mín 53.6sek |
Stjörnubreidd: |
-18° 52′ 10″ -18° 53′ 11″ |
Fjarlægð: |
60 milljón ljósár (19 Mpc) |
Sýndarbirtustig: |
+11,2 / +11,1 |
Stjörnumerki: | Hrafninn |
Önnur skráarnöfn: |
Arp 244 |
Loftnetið er tvær vetrarbrautir að renna saman í eina. Frá báðum vetrarbrautunum stefna langir halar úr stjörnum, gasi og ryki sem er að kastast burt frá vetrarbrautunum. Halarnir minna um margt á loftnet og draga vetrarbrautirnar nafn sitt af því.
Þegar vetrarbrautirnar renna saman mynda þær eina risavetrarbraut. Hið sama mun gerast eftir e.t.v. fimm milljarða ára þegar Vetrarbrautin okkar rekst á Andrómeduvetrarbrautina.
Árekstur vetrarbrautanna hófst fyrir nokkur hundruð milljónum ára. Voru þá vetrarbrautirnar tvær aðskildar. NGC 4038 var þyrilvetrarbraut en NGC 4039 sennilegast bjálkaþyrilvetrarbraut. Talið er að að samrunanum loknum myndi Loftnetið sporvöluvetrarbraut.
Áreksturinn hrindir af stað hrinu stjörnumyndunar í vetrarbrautunum. Nýjar stjörnur verða til þegar gasið og rykið úr vetrarbrautunum rekst saman. Stjörnumyndunarsvæðin eru úr glóandi vetni, bleik eða rauðleit á myndinni hér að ofan en hún var tekin með Hubblessjónauka NASA og ESA. Á myndinni eru reginþyrpingar ungra, heitra blárra O- og B-stjarna áberandi. Massamestu stjörnurnar í þeim lifa stutt og springa á innan við 10 milljón árum. Dreifa þær þá efni um vetrarbrautina og koma af stað frekari stjörnumyndun.
Ljósmynd Hubbles hér að ofan er sú skarpasta sem tekin hefur verið af Loftnetinu. Nærri helmingur daufu fyrirbæranna í Loftnetinu eru ungar stjörnuþyrpingar sem innihalda tugi þúsunda stjarna. Appelsínugulu kekkirnir vinstra og hægra meginn við miðju myndarinnar eru kjarnar upphaflegu vetrarbrautanna. Í þeim eru aðallega gamlar stjörnur á bak við dökkbrúna rykþræði.
Í gegnum sjónauka
Loftnetið er aðeins of neðarlega til að sjást vel frá Íslandi svo fara verður sunnar á hnöttinn til að sjá almennilega. Undirritaður sá þær með 14 tommu spegilsjónauka frá Suður-Afríku árið 2010 og litu þær þá út eins og hjarta með tveimur þráðum sem gengu út frá því, alveg einstaklega fallegt.
Myndir
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Sævar Helgi Bragason (2010). Loftnetið (NGC 4038 / NGC 4039). Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/ngc-skrain/ngc-4038-4039(sótt: DAGSETNING).