Omega Centauri
Tegund: | Kúluþyrping |
Stjörnulengd: |
13klst 26mín 47,28s |
Stjörnubreidd: |
-47° 28′ 46,1" |
Fjarlægð: |
15.800 ljósár |
Sýndarbirtustig: |
+3,7 |
Stjörnumerki: | Mannfákurinn |
Önnur skráarnöfn: |
Enski stjörnufræðingurinn Edmond Halley uppgötvaði þyrpinguna árið 1677 en taldi að um geimþoku væri að ræða. Við góðar aðstæður sést þyrpingin með berum augum. Fyrir rúmum 2.000 skrásetti Ptólmæos hana sem stjörnu en það var ekki fyrr en upp úr 1830 sem enski stjörnufræðingurinn John Herschel áttaði sig á að um þokan var í raun kúluþyrping.
Omega Centauri er stærsta og bjartasta kúluþyrpingin á braut um vetrarbrautin okkar. Í Grenndarhópnum er aðeins kúluþyrpingin Mayall II, sem tilheyrir Andrómeduvetrarbrautinni, stærri og bjartari.
Omega Centauri inniheldur um 10 milljónir stjarna. Árið 2010 voru birtar niðurstöður mælinga með Hubblessjónaukanum á stjörnum við miðju þyrpingarinnar sem sýndu hvernig þær munu færast um hana næstu 10.000 árin. Þetta er ein umfangsmesta kortlagning á hreyfingum stjarna í stjörnuþyrpingu sem gerð hefur verið.
Á þéttasta svæðinu í miðri þyrpingunni, eru ef til vill ekki nema 0,1 ljósár á milli stjarna. Í miðjunni sjálfri er líklega meðalstórt svarthol, um 12.000 sinnum massameira en sólin okkar. Svartholið og sú staðreynd að Omega Centauri er 10 sinnum massameiri en aðrar stórar kúluþyrpingar, benda til þess að hún sé ef til vill kjarni úr dvergvetrarbraut sem vetrarbrautin okkar sogaði til sín. Auk þess finnast í henni misgamlar stjörnur með fjölbreytt málmagn sem bendir til að þyrpingin hafi ekki myndast öll í einu (eins og talið er að kúluþyrpingar myndist) og sé hún þar af leiðandi líkari dvergvetrarbraut.
Því miður sést Omega Centauri ekki frá Íslandi en hún er án efa með allra glæsilegustu fyrirbærum næturhiminsins.