Að fara með hóp í stjörnuskoðun

Undirbúningur

stjörnuskoðun
Stjörnuskoðun með byrjendum fyrir utan Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Mynd: Grétar Örn Ómarsson.

Dagsetning
Erfitt er að fastsetja dag með löngum fyrirvara upp á að það verði sæmilega léttskýjað. Þeir sem hafa séð um stjörnuskoðun fyrir hópa hjá Stjörnuskoðunarfélaginu hafa stundum reynt að sigta út einhverja viku og látið þátttakendur vita af stjörnuskoðuninni með SMS-skilaboðum daginn áður eða samdægurs. Hægt að senda foreldrum SMS ásamt því að láta nemendur vita í skólanum.

Veðurspá næstu daga má finna á vefsíðu Veðurstofunnar. Þar er einnig að finna skýjahuluspá sem gefur sæmilega raun einn til tvo daga fram í tímann.

Staðsetning

Vanalega er enginn staður í þéttbýli fullkominn fyrir stjörnuskoðun en yfirleitt er ágætt að skoða þar sem skær ljós trufla ekki. Mikilvægt er að auðvelt sé að finna staðinn (til dæmis er hægt að setja lítið kort á miða fyrir nemendur ef eitthvað er óljóst). Kannski er skólalóðin besti staðurinn eftir allt saman, þrátt fyrir truflun frá lýsingu! Gott er þá að kanna það fyrirfram hvort hægt sé að slökkva á ljósum utan á húsinu. Við hjá Stjörnufræðivefnum og Stjörnuskoðunarfélaginu förum yfirleitt með þátttakendur á námskeiðum í Valhúsaskóla í stjörnuskoðun fyrir utan skólann. Allir vita þá hvert þeir eiga að mæta. Þótt lýsing í kringum húsið sé yfirdrifin þá er einnig kostur að sjá almennilega til þegar fólk er að læra á stjörnukort og æfa sig í að kíkja í sjónauka.

Best er að fara í könnunarleiðangur á stjörnuskoðunarstaðinn í myrkri til þess að athuga hvort einhverjar hættur leynist sem gestir þurfi að vara sig á. Kanna einnig hvort ljós lýsi beint í augun á þátttakendum (þar með talin bílljós frá gestum).

Á veturna skiptir færðin einnig máli. Fyrir nokkrum árum fórum við í stjörnuskoðun við Kaldársel fyrir utan Hafnarfjörð. Einhverjir beygðu í vitlausa átt, lentu í snjóskafli og voru heila klukkustund að losa bílinn. Þeir náðu samt dálítilli stund í stjörnuskoðun eftir þessar hrakfarir.

Stærð hópsins
Eitt af því fyrsta sem þarf að skoða er stærð hópsins. Á að bjóða öllum fjölskyldumeðlimum eða bara nemendum (ef þeir eru nógu gamlir)? Þetta getur skipt máli varðandi fjölda útprentaðra stjörnukorta. Ef farið er í stjörnuskoðun á skólatíma snemma morguns getur verið gott að skipta bekknum/hópnum í tvennt og láta annan helminginn fara út að skoða í einu. Neðar á síðunni eru alls konar ábendingar fyrir kennara um undirbúning og framkvæmd stjörnuskoðunar með skólahóp.

Tímasetning
Það fer náttúrlega eftir aldri og árstíma hvenær best er að tímasetja stjörnuskoðun fyrir skólahóp. Okkur hjá Stjörnufræðivefnum hefur gefist vel að hafa stjörnuskoðun kl. átta eða hálfníu að kvöldi í u.þ.b. eina klukkustund. Þessar tímasetningar ganga frá seinnihluta september og fram í miðjan mars (betra að byrja hálfníu í byrjun og lok þessa tímabils). Myrkrið er náttúrlega mest um miðbik vetrar og þá er mögulegt að byrja aðeins fyrr. Einnig er mögulegt að fara út að morgni að skoða um háveturinn sem þýðir að stjörnuskoðunin þarf ekki að fara fram utan skólatíma. Við gefum út sérstök stjörnukort fyrir morgnana í desember og janúar.

Póstlisti kennara

Stjörnufræðivefurinn er með sérstakan póstlista fyrir kennara sem við notum til þess að senda upplýsingar um námsefni og stjörnukort og látum vita þar ef eitthvað spennandi sést á næturhimninum.

Hvað er að sjá á himninum?

stjörnukort mánaðarins
Við gefum út nýtt stjörnukort í hverjum mánuði á veturna.

Þið getið prentað út tvenns konar stjörnukort hér á vefnum eftir því hvers konar hóp þið eruð með (Stjörnukort mánaðarins og Stjörnukort fjölskyldunnar). Þótt stjörnuskoðunin sé skipulögð nokkrar vikur fram í tímann þá breytist kortið óverulega á tveggja mánaða tímabili. Hér á Stjörnufræðivefnum er einnig grein sem nefnist: Hvað get ég skoðað með Galileósjónaukanum?

Auðþekkjanleg stjörnumerki og stjörnumynstur
Á stjörnukortunum er sagt frá mynstrum sem tiltölulega auðvelt er að finna á himninum (Sumarþríhyrningurinn á haustin, Vetrarþríhyrningurinn um og eftir áramót, Karlsvagninn og Pólstjarnan, Kassíópeia, Óríon, Sjöstirnið í Nautinu o.fl.). Best er að taka stjörnukort með í könnunarleiðangurinn á staðinn til þess að átta sig á því hvar helstu stjörnumerki og jafnvel reikistjörnur sjást á himninum.

Til þess að tengja stjörnumerkin við eitthvað áþreifanlegt (svo þau séu ekki bara strik sem tengja saman stjörnur) þá hefur gefist vel í stjörnuskoðun hjá okkur er að segja frá goðsögum sem tengjast nokkrum vel völdum merkjum og hvernig þau líta út á himninum (t.d. Svanurinn sem minnir á fugl á himinum, Tvíburarnir Kastor og Pollux, veiðimaðurinn Óríon o.fl.).

Tunglið og reikistjörnurnar
Skoðið á stjörnukorti mánaðarins eða í þriðja flipanum efst á kortinu á AstroViewer.com hvenær tunglið sést og hversu gamalt það er (vaxandi tungl sést að kvöldlagi en minnkandi tungl sést að morgni til). Athugið að fullt tungl lýsir upp himininn svo mun erfiðara er að sjá stjörnur en vanalega u.þ.b. þrjá daga fyrir og eftir fullt tungl. Einnig er fullt tungl mjög skært í sjónauka og erfitt að skoða það. Dagsetningar á fullu tungli er að finna á baksíðu Stjörnukorts mánaðarins. Þar er einnig að finna kort með helstu höfunum á tunglinu sem nemendur geta notað og spreytt sig á að finna karlinn og kanínuna í tunglinu (sést með því að snúa höfðinu lárétt og horfa á fullt tungl!).

Í leiðarvísinum á bakhlið Stjörnukorts mánaðarins er að finna umfjöllun um þær reikistjörnur sem sjást á himninum og hvað hægt er að skoða í handsjónauka eða stjörnusjónauka.

Handsjónaukar og stjörnusjónaukar
mynd19
Galileósjónaukinn.

Biðja fólk um að koma með handsjónauka eða stjörnusjónauka ef það á sjónauka (og kann á hann). Nota Galilósjónaukann. Skoða á Stjörnukorti mánaðarins hvaða fyrirbæri utan sólkerfisins er hægt að skoða í sjónauka. Á Stjörnufræðivefnum er ágætis grein fyrir byrjendur sem nefnist Fyrsta stjörnuskoðunin.

Vasaljós
Það er sjálfsagt að taka með sér vasaljós. Best er að nota þau sparlega því augun aðlagast myrkrinu og það tekur þau smá stund að jafna sig eftir að hafa séð skært ljós. Þetta skiptir samt litlu máli í þéttbýli ef það er talsverð lýsing í kring hvort sem er. Vanir stjörnuáhugamenn notar helst rauð ljós sem hafa minnst áhrif á næturaðlögun augnanna. Hægt er að búa til „stjörnuskoðunarvasaljós“ t.d. með því að setja rauða filmu framan á þau eða mála með rauðu naglalakki. Þetta má sýna nemendum í kennslustund og jafnvel tengja við kennslu um skynfrumurnar í augnbotninum (stafi og keilur).

Aldur
Stjörnuskoðun er fyrir alla fjölskylduna. Hins vegar má búast við því að þeir sem eru í yngsta aldurshópnum hafi minna úthald en þeir sem eldri eru. Lykilatriði er að allir séu vel klæddir! Ágætt að hægt sé að skjótast inn í hús til þess að ylja sér (skólalóðin getur því verið hentugur staður).

Öryggi
Tryggja þarf að allir séu með fylgd á leiðinni til og frá stjörnuteitinu.

Rusl, klósett, möguleg aðstaða innanhúss, skipulögð hressing o.fl.
Þetta er allt saman praktísk atriði sem vert er að hugsa um við skipulagninguna og útskýra fyrir nemendum og síðar fjölskyldum (getur verið í boðskorti í stjörnuteitið).

Að lokum: Muna eftir heitu kakói, hlýjum fötum og góða skapinu!

Undirbúningur í kennslustund

Segja frá stað og stund og hvernig þetta fari fram í grófum dráttum.

Prenta út Stjörnukort mánaðarins eða Stjörnukort fjölskyldunnar handa nemendum. Skoða það saman í tíma og sýna hvernig það virkar (ef horft er t.d. á Júpíter, Óríon eða Karlsvagninn þá eiga þau fyrirbæri að snúa niður á stjörnuskífunni). Benda á reikistjörnur og auðþekkt stjörnumerki sem gætu sést. Í stjörnuteiti er kjörið tækifæri fyrir krakka að kenna foreldrum sínum og systkinum um stjörnuhimininn.

Safna e.t.v. stjörnukortunum saman aftur til dreifingar á stjörnuskoðunarkvöldinu. Hafa nóg af aukakortum svo aðrir fjölskyldumeðlimir sem koma með nemendum geti fengið kort ef þeir vilja.

Viðurkenningar
Sniðug leið til þess að allir séu virkir í stjörnuskoðuninni er að setja upp blað í tíma þar sem nemendur (og e.t.v. einnig foreldrar) safna stjörnumerkjum og fyrirbærum sem auðvelt er að finna frá þeim stað þar sem stjörnuskoðunin fer fram. Það virkjar fólk á svæðinu og kemur í veg fyrir að allir bíði í röð við sama sjónaukann. Þau sem horfa í gegnum sjónauka geta skráð niður athuganir á sérstakt skráningarblað.

Stjörnufræðiforrit
Það er um að gera að benda nemendum á að skoða stjörnufræðiforrit á netinu svo sem Stellarium sem er bæði ókeypis og á íslensku. Einnig geta margir sem eru með snjallsíma náð í stjörnufræðiforrit sem virka þannig að þegar símanum er beint upp í himininn þá sýnir hann á korti nöfnin á stjörnum og stjörnumerkjum. Enn sem komið er þá vitum við ekki um neitt svona forrit sem birtir upplýsingar á íslensku. Forrit og símar eru kjörin leið til þess að virkja nemendur og efla áhuga á stjörnufræði.

Á staðnum

Praktíst atriði
Benda gestum á það ef þeir þurfa að vara sig á einhverju í kvöldmyrkrinu. Er hægt að komast á klósett? Er hægt að henda rusli einhvers staðar?

stjörnumerkin, Óríon, stjörnumerki
Kort af stjörnumerkinu Óríon

Yfirlit yfir stjörnuhimininn
Farið örstutt yfir það helsta sem sést á himninum með þátttakendum. Þarna er gagnlegt að nota stjörnumerki og mynstur stjarna svo sem Karlsvagninn í Stórabirni og Kassíópeiu (sjást alltaf), Óríon og Sjöstirnið (sjást um miðjan vetur). Bjartar reikistjörnur eru oft heppilegar ef þær sjást á himininum (Júpíter, Mars, Venus, Satúrnus).

Ganga á milli þátttakenda
Þegar stjörnuteitið er komið af stað er gott að kennari eða einhver hjálpsamur sem þekkir til himinsins gangi á milli og benda á fyrirbæri á himninum og svari spurningum sem snúa að kortinu og fleiru. Ef einhverjir nemendur eru ekki að skoða næturhimininn gæti verið ráð að bjóða þeim að færa sig aðeins til á svæðinu eða jafnvel spyrja þá hvað þeir hafi séð og bjóða þeim að vera hjá einhverjum sem aðeins þekkir til himinsins.

Merkja inn á kort
Það getur verið sniðugt að fá nemendur og foreldra til þess að haka við eða draga hring utan um þau stjörnumerki sem nemendur finna á himninum. Þá er líka hægt að veita viðurkenningar fyrir að finna stjörnumerki eftir stjörnuskoðunina.

Í næstu kennslustund

Frekari úrvinnsla úr því sem nemendur sáu í stjörnuteitinu.

Hugmyndir að spurningum og verkefnum

Hér eru nokkur atriði sem nemendur geta kynnt sér í stjörnuteitinu til viðbótar við það að átta sig á kortinu og finna stjörnumerki og önnur fyrirbæri á himninum.

  • Eru stjörnurnar mismunandi á litinn?

  • Er munur (annar en ljósstyrkur) á útliti reikistjarna og fjarlægra sólstjarna (fastastjarna) á himninum?

  • Höfuðáttirnar

  • Hvernig mun tunglið líta út á morgun?

  • Notkun vísindatækja eins og sjónauka og handsjónauka.

  • Hvernig lýsing frá þéttbýli hefur áhrif á himininn.

  • Gervihnettir (sjást sem ljósdeplar sem færast hægt yfir himininn).

  • Stjörnuhröp (sandkorn/smásteinar sem falla inn í lofthjúpinn og brenna upp á örskömmum tíma).

Heimildir

  1. Blaine, Lloyd. Party with the Stars. Grein í tímaritinu Science and Children í maí 1997.

  2. Family ASTRO How-To-Manual. Leiðarvísir fyrir verkefnið Project Astro hjá Astronomical Society of the Pacific.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sverrir Guðmundsson (2011). Að fara með hóp í stjörnuskoðun. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/galileosjonaukinn/stjornuskodun-med-skolahopa/ (sótt: DAGSETNING)