Að skoða sólkerfið
Hér er aðallega fjallað um það sem sjá má á reikistjörnunum Júpíter og Satúrnusi. Umfjöllunin miðast ekki við neina tiltekna stærð af sjónaukum. Margt af því sem nefnt er sést í nánast öllum stjörnusjónaukum þó að í einhverjum tilfellum þurfi stærri sjónauka. Í sumum tilvikum byggir undirritaður slíkt á eigin reynslu, en höfundur hefur aðallega skoðað reikistjörnurnar með tvenns konar sjónaukum; fyrst með 6 cm linsusjónauka en frá 1999 með 15 cm Maksutov-Newtonian spegilsjónauka. Greinin endurspeglar mjög það sem undirritaður hef skoðað mest.
Miklu máli skiptir að sjónauki gefi mikla stækkun og að skerpan sé góð til að sjá sem mest. Góð skerpa næst helst með góðum linsusjónauka en þeir eru oft dýrari og því eru spegilsjónaukar algengari. Sé spegilsjónauki notaður er æskilegt að aukaspegillinn sé sem minnst hlutfall af þvermáli spegilsins, annars minnkar skerpan. Bestu spegilsjónaukarnir eru því Maksutov eða Newtonsjónaukar og Maksutov-Newtonian sjónaukar. Að sjálfsögðu er hægt að nota hvernig sjónauka sem er. Þannig hafa algengir alhliða sjónaukar eins og Schmidt-Cassegrain reynst mjög vel.
Sjónaukar, fylgihlutir og veður
Við reikistjörnuskoðun er yfirleitt notuð mikil stækkun og því er mikilvægt að loft sé kyrrt, sem því miður gerist alltof sjaldan hérlendis. Nokkuð erfitt er að henda reiður á hvenær svo er, nema að setja sjónaukann upp og gá. Oft eru slæm skilyrði og tíbrá þótt það sé logn. Með því að skrá veðuraðstæður þegar ég skoða reikistjörnurnar, virðist mér sem bestu aðstæðurnar á höfuðborgarsvæðinu séu þegar vindur er hægur af suðaustri, austri eða norðaustri; hiti helst við eða yfir frostmark og ef ekki er langt síðan hefur rignt hefur. Aðstæður eru yfirleitt ekki góðar í norðanátt og miklu frosti, jafnvel þó vindur sé hægur. Þó vantar mig meiri samanburð til að staðfesta þetta.
Séu skilyrði góð er 200-300x stækkun oft notuð eða meira. Þetta er þó háð stærð sjónaukans. Þannig er sjaldgæft að nota meiri stækkun en sem nemur 20 sinnum þvermál ljósopsins í cm. Stundum hef ég farið upp í 360x með 15 cm sjónaukanum en nota oftast 260x og stundum 180x sé tíbrá mikil. Nauðsynlegt er að ljósið fari í gegnum sem fæsta spegla og linsur. Þannig borgar sig ekki að nota millistykki sem snýr myndinni við þannig að norðurpóll viðkomandi reikistjörnu snúi upp. Myndin verður þá óskýrari, daufari og þokukenndari. Óhætt er að nota góða Barlow-linsu til að auka stækkunina. Síur geta verið gagnlegar til að sjá betur ýmis fyrirbæri, t.d. rauða blettinn á Júpíter eða ský á Mars.
Mikil stækkun krefst stöðugs sjónauka. Mjög erfitt er að fókusstilla ef allt leikur á reiðiskjálfi og því skiptir sjónaukastæðið gríðarlegu máli. Augnglerin verða að vera góð því góður sjónauki er frekar gagnslaus séu þau léleg. Gott er að eiga tvö til fjögur augngler og Barlow-linsu sem saman stækka frá 30-50x, upp í 300-400x með nokkuð jöfnu bili. Efri mörkin eru háð stærð sjónaukans. Stækkanirnar sem ég næ á 15 cm sjónaukanum eru 44x, 88x, 130x, 180x, 260x og 360x og hefur það reynst mjög vel.
Sé aðalmarkmiðið að horfa á reikistjörnurnar í gegnum sjónaukann, verða augun að venjast myrkrinu áður en byrjað er á slíku. Ef kalt er í veðri er gott að venja myrkrinu innandyra í 10-20 mínútur. Þegar athugunin er hafin er lykilatriði að horfa lengi á viðkomandi reikistjörnu. Það virðist geta tekið augun/heilan 10-15 mínútur að átta sig á því sem sést þegar um er að ræða óskýra hluti. Auk þess getur liðið nokkur tími milli þess að loftið verði nógu kyrrt. Sé horft nógu lengi koma allskyns smáatriði í ljós sem ekki sæjust ef horft væri í skamman tíma (innan við fimm mínútur). Stöku sinnum hef ég horft á Júpíter og Satúrnus í meira en klukkustund, með stuttum hvíldum, þegar aðstæður hafa verið góðar.
Ef taka á myndir hefur mér þótt auðveldast og best að nota vefmyndavél. Grein um slíkt birtist í Fréttabréfi Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness í mars 2004 (.pdf skjal 800 kB).
Júpíter
Sjá nánar: Að skoða Júpíter
Júpíter hefur mest upp á að bjóða fyrir áhugastjörnuskoðara af reikistjörnunum. Í hefðbundnum handsjónauka sjást Galíleótunglin fjögur og ekki þarf nema 30-50x stækkun til að sjá eitt eða tvö skýjabelti. Með stærri sjónauka og meiri stækkun koma milli fimm til tíu eða jafnvel fimmtán önnur belti í ljós, auk rauða blettsins (eða „skarðsins“ þar sem hann er) og fleiri smáatriði.
Satúrnus
Satúrnus er af mörgum álitin fegursta reikistjarnan. Hringarnir sjást í litlum sjónaukum með 30-50x stækkun en stærri sjónauki og meiri stækkun þarf til að þeir verði virkilega fagrir og til að skynja „dýptina“ í þeim. Sé sæmilega stór sjónauki notaður, virkar Satúrnus þrívíðari en nokkur önnur reikistjarna.
Venus
Á Venusi er lítið að sjá. Hún er algjörlega hulin skýjum, mjög björt, nánast hvít og í sýnilegu ljósi sjást engin smáatriði í lofthjúpnum. Í útfjólubláu ljósi horfir öðruvísi við. Þar sjást ýmiskonar fyrirbæri í lofthjúpnum. Því er orðið nokkuð um að áhugamenn myndi Venus í gegnum útfjólubláa síu.
Mars
Sjá nánar: Að skoða Mars
Athuganir á Mars eru fremur erfiðar því hann er sjaldan svo nógu nálægt jörðu til að smáatriði sjáist. Á Mars er hins vegar mjög margt að sjá. Stundum sjást hvítar pólhettur auk dökkra svæða, daufra skýja og jafnvel rykstorma. Í 6 cm sjónauka sést lítið annað eitt eða tvö dökk svæði og pólhetturnar sjást við góð skilyrði. Mun meira sést í 15 cm og stærri sjónaukum. Með slíkum sjónaukum er hægt að fylgjast með pólhettunum stækka og minnka og sjá má óskýr ský og rykstorma. Rykstormarnir ná stundum yfir alla reikistjörnuna og hylur yfirborðið.
Merkúríus
Merkúríus sést auðveldlega með berum augum en samt eru ekki margir sem hafa séð hann. Ástæðan er sú að hann er sjaldan hátt á lofti eða langt frá sólinni á morgun- og/eða kvöldhimninum. Athuganir á honum eru þar af leiðandi mjög erfiðar. Við mjög góðar aðstæður og stóran sjónauka með a.m.k. 200x stækkun á að vera hægt að greina á honum daufa, dökka bletti. Best er að skoða Merkúríus strax eftir sólsetur eða rétt fyrir sólarupprás og passa að sólin sé ekki nálægt honum.
Úranus
Úranus sést ekki með berum augum nema hann sé hátt á lofti, helst í gangstöðu og að ljósmengun sé ekki til staðar. Frá Íslandi séð er hann frekar lágt á lofti. Hann sést þó auðveldlega með handsjónauka og er ekki erfitt að finna hann. Í stjörnusjónauka sést að ekki er um stjörnu að ræða, en að öðru leyti er fátt að sjá.
Neptúnus
Neptúnus er of lágt á lofti til að sjást vel frá Íslandi og er mun daufari en Úranus. Þegar hann er hátt á lofti sést hann í handsjónauka en erfiðara er að finna hann en Úranus.
Plútó
Plútó sést í einungis í stórum stjörnusjónaukum, 15 cm er algjört lágmark og helst þarf talsvert stærri sjónauka. Erfitt er að finna hann meðal stjarnanna.
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Björn Jónsson (2010). Að skoða sólkerfið. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/solkerfid (sótt: DAGSETNING).