Að skoða Júpíter

  • júpíter, Björn Jónsson
    Júpíter 15. mars 2004 kl. 00:47. Myndin er tekin með Philips ToUcam PRO II vefmyndavél gegnum 15 cm Intes MN61 Maksutov-Newtonian sjónauka. Mynd: Björn Jónsson

Miðbaugsþvermál Júpíters er um 143.000 km en pólþvermálið er 6% minna, því möndulsnúningurinn er mjög hraður (innan við 10 klst.) sem fletur hann út. Vegna þessa hraða snúnings liggja allar skýjamyndanirnar í austur-vestur stefnu og mynda mörg misdökk skýjabelti samsíða miðbaug. Þó eru þar fyrirbæri sem liggja ekki í austur-vestur stefnu, t.d. nokkrir sporöskjulaga blettir eins og Rauði bletturinn. Á mynd 1 sjást helstu skýjabelti Júpíters og rauði bletturinn.

Júpíter, skýjabelti, svæði, rauði bletturinn
Mynd 1. Helstu skýjabelti Júpíters og rauði bletturinn. Í stjörnusjónauka er myndin venjulega á hvolfi, þ.e. norður snýr niður og suður upp. Hafa ber í huga að myndin sýnir dæmigert útlit á síbreytilegri reikistjörnu. Skýjabelti birtast, hverfa, dökkna, lýsast, breikka og mjókka og smáatriði færast til innbyrðis milli lengdargráða. Mynd: Björn Jónsson og Stjörnufræðivefurinn

Af þessum beltum er NMB undantekningalaust sýnilegt og venjulega dekksta og mest áberandi beltið. SMB er breytilegast og virkast af öllum beltunum; stundum bæði breiðara og dekkra en NMB en þess á milli svo ljóst að það greinist ekki frá ljósu beltunum (MBS og SHbS) norðan og sunnan þess. NMB og SMB eru tvö breiðustu beltin sem sjást alltaf séu þau til staðar, jafnvel í litlum sjónaukum og eru jaðrar þeirra oft „bylgjukenndir“.

rauði bletturinn, Júpíter, SEB, breytingar í lofthjúpi, stjörnuskoðun
Mynd 2. Skematísk mynd af þeim breytingum sem stundum verða á SEB og samhliða því á rauða blettinum. Það eru einmitt svona breytingar sem gera Júpíter að áhugaverðustu reikistjörnunni fyrir áhugastjörnuskoðara. Norður snýr hér upp. Mynd: Björn Jónsson og Stjörnufræðivefurinn

Þegar SMB er dökkt sést rauði bletturinn venjulega illa. Þá er hins vegar „skarð“ í nyrðri jaðri þess og þannig má greina hvar bletturinn er. Þetta skarð sést allgreinilega í 6 cm sjónauka við góð skilyrði og auðveldlega í 15 cm sjónauka, nema aðstæður séu slæmar. Þegar SMB lýsist sést rauði bletturinn að sjálfsögðu betur en ella, en einnig verður hann yfirleitt dekkri og rauðari við þetta og sést þá enn betur. Mynd 2 sýnir þetta í aðaldráttum.

SHbS er alltaf ljós og sést yfirleitt greinilega. Þegar SMB lýsist verður það nánast samlitt SHbS og eru mörkin á milli þeirra þá yfirleitt ógreinileg.

STB er oft sýnilegt en stundum svo dauft að erfitt eða ómögulegt er að sjá það. Stundum sést votta fyrir því á miðri „skífunni“ en ekki við jaðrana.

NTB er svipað og STB en sést oftar og er yfirleitt greinilegra. Sést raunar yfirleitt nema aðstæður séu slæmar, en birtist yfirleitt ekki fyrr en horft hefur verið í smá tíma. Þetta belti var mjög dauft 1988-1989.

NPS er dökkt og stærð þess breytileg en að öðru leyti ekkert að sjá.

SPS er mjög líkt NPS.

MS er venjulega ljósasta svæði Júpíters. Oft ná dökkar „tungur“ frá mörkum NMB og MS inn í MS.

Að skoða Júpíter

Á Júpíter eru skýjabelti, blettir og svæði helst skoðað, eins og lýst var hér að ofan. Af skýjabeltunum sjást NMB og SMB alltaf ef þau eru til staðar, þ.m.t. í litlum sjónaukum. Sé horft í 10-20, þann tíma sem það tekur augun að venjast myrkrinu, koma venjulega tvö belti í ljós auk pólsvæðanna og ýmissa smáatriða í jöðrum beltanna, sem yfirleitt eru á mörkum þess að vera sýnileg.

Rauðablettsskarðið sést þegar horft hefur verið í 10-20 mínútur. Sjaldgæft er að sjá fleiri en tvö belti ef skoðað er í mjög skamman tíma (innan við 5 mín.) því augun þurfa ekki aðeins að venjast myrkrinu, líka því sem það er að horfa á. Í 15 cm sjónauka er hins vegar auðvelt að sjá öll þessi fyrirbæri nema aðstæður séu verulega slæmar. Margt fleira sést eftir því sem sjónaukinn er stærri, t.d. dökkir og ljósir blettir sem eru minni en Rauði bletturinn, auk þess sem litir eru allir miklu sterkari og meira áberandi.

Áhugavert er að fylgjast með tunglum Júpíters. Galíleótunglin fjögur eru meðal stærstu tungla sólkerfisins og Ganýmedes raunar hið stærsta. Hægt er að fylgjast með þeim ganga fyrir Júpíter. Þegar það gerist er yfirleitt erfitt að sjá þau, nema þegar þau eru við jaðar Júpíters. Sömuleiðis má fylgjast með skuggum tunglanna á Júpíter. Skuggarnir sjást greinilega sem örlitlir en mjög dökkir blettir á Júpíter. 

Þegar Júpíter er skoðaður er auðvitað einfaldlega hægt að horfa, teikna eða taka myndir af honum. Í stórum sjónaukum sést svo mikið að auðvelt er að gleyma sér í dágóða stund við það eitt að horfa.

Síur og myndatökur

Síur geta verið gagnlegar við athuganir á Júpíter. Mörk dökkra og ljósra belta sjást betur ef ljósblá sía (Wratten 80A eða 82A) er notuð. Með gulri (Wratten 12) eða appelsínugulri (Wratten 21) síu eru tungur sem ná oft úr NMB inn í MS greinilegri, auk ýmissa smáatriða við pólsvæðin. Að lokum er hægt að taka myndir. Myndavélar og sérhæfð myndvinnsluforrit eru orðin svo fullkomin að ná má myndum með miklu fleiri smáatriði en mannsaugað nær að greina í gegnum sjónaukann. Þannig var þetta ekki fyrir 10-15 árum, þegar myndavélar og tölvur voru það frumstæðar að augað hafi yfirburði. Eins og fram hefur komið þykir mér bæði best og auðveldast að nota vefmyndavélar þegar teknar eru myndir af reikistjörnunum. Myndatökur krefjast stærri og stöðugri sjónauka en teiknun.

Að teikna Júpíter

Ef teikna á Júpíter er gott að vera með útlínur „skífunnar“ tilbúnar á blaði. Yfirleitt er best að hafa þvermálið 4-5 cm en taka verður með í reikninginn að pólþvermálið er sex prósent minna en miðbaugsþvermálið. Best er að teikna með dökkum blýanti en sumir nota jafnvel marga blýanta.

Áður en byrjað er að teikna er nauðsynlegt að horfa á Júpíter í a.m.k. 5-10 mínútur (með smá hvíldum þó) eða lengur til að aðlaga augað að því sem horft er á. Eftir þennan tíma er hægt að byrja að teikna.

Fyrst eru stærstu atriðin teiknuð (dekkstu og breiðustu beltin, pólsvæðin o.þ.h.) og reynt að staðsetja þau sem nákvæmast. Síðan er smáatriðunum bætt inn. Möndulsnúningur Júpíters er hraður og af þeim sökum má greina á honum breytingar innan fimmtán mínútna við góð skilyrði. Því er mjög æskilegt að ljúka við teikninguna á 10-15 mínútum. Þegar myndin er tilbúin er dagsetningin, heimstími (sami og íslenski tíminn), stækkun, sjónauki, upplýsingar um skoðunarskilyrði og e.t.v. fleira skráð inn á.

Eftir athugun má laga myndina til. Ef lítill sjónauki er notaður, er þetta allt tiltölulega einfalt, en með stórum sjónauka flækist málið vegna þess hve margt er að sjá. Hver athugun af þessum toga tekur um tvær klukkustundir og er þá uppsetning sjónauka og annar undirbúningur meðtalið. Miklu meira gagn er af fáum löngum athugunum á Júpíter en mörgum stuttum (5 mínútur eða skemur) því þá sést miklu meira.

Teikningar af Júpíter

bj_teikning_a
 

4. ágúst 1986 kl. 01:30-2:30 (teikning kláruð kl. 01:50)

Skoðunarskilyrði voru góð, lítill titringur í 160x sem var mest notuð. Norðurhvelið var greinilega dekkra en suðurhvelið. Hugsanlega vottaði fyrir STB vestast (lengst til hægri). Skarð rauða blettsins sást greinilega en það tók 10-20 mínútur að koma auga á það og átta sig á útliti þess. Dökk tunga virtist syðst í skarðinu (suðurjaðar rauða blettsins?). „Bylgjur“ sáust á suðurjaðri NMB. NTB sást greinilega og einnig NHbS milli þess og NMB.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég sá óvart eitthvað fleira með 6 cm sjónaukanum en beltin tvö, NMB og SMB. Af einhverjum ástæðum horfði ég miklu lengur á Júpíter í þetta skipti en ég var vanur og eftir 10-20 mínútur fóru alls kyns smáatriði að koma í ljós sem mér hafði aldrei dottið í hug að væri hægt að sjá með 6 cm sjónauka. Áður hafði ég aldrei horft lengur en í um 5 mínútur.
Mynd: Björn Jónsson

bj_teikning_b
 

14. september 1986 kl. 1:10

Nokkuð góð skilyrði en þunn skýjahula truflaði stundum. SMB var breiðara en NMB en nú var NMB orðið dekkra en SMB, öfugt við fyrri athuganir. STB sást illa eða alls ekki og NTB sást illa. Skarð rauða blettsins sást greinilega og hafði breyst talsvert frá 4.8.86. Austan skarðsins virtist SMB dökkna, e.t.v. vegna dökkrar „tungu“ sem náði frá norðurjaðri skarðsins til austurs. Í suður- og suðvesturjaðri skarðsins var dökk tunga sem teygði sig til vesturs inn í SMB. Norðar var ljós tunga til vesturs. Þrjár bylgjur voru á suðurjaðri NMB og líklega tunga út úr þeirri austustu. Skili milli pólsvæða og annarra svæða voru óvenju ógreinileg.
Mynd: Björn Jónsson

bj_teikning_c
 

8. október 1988 kl. 1:45

Frábær skilyrði, mjög lítill titringur, skörp mynd og miklar birtuandstæður. Notaði 111x. Greinileg litaskil voru milli suðurpólssvæðisins og ljósa svæðisins (SHbS) norðan þess en þó sást STB ekki milli þeirra. Suðurpólssvæðið dökknaði greinilega er nær dró suðurpólnum. Erfitt var að greina þetta en þó virtist vera mikil ólga þarna. Skarð rauða blettsins sást greinilega og virtist vera einhvers konar dökk tunga syðst í því frá svæðum vestan þess. Dökkur „klumpur“ var innan SMB nokkru vestar og virtust suður- og norðurjaðrar hans ójafnir. Ekkert sást í nánd við miðbaug. NMB sást mjög greinilega og var sérlega dökkt austan til. Við miðju „skífunnar“ var ein bylgja sem virtist vera endir á langri, breiðri og dökkri tungu sem teygði sig í ANA-VSV-stefnu inn í NMB. Þetta sást ógreinilega og var erfitt að átta sig vel á hvað þetta var. Vestar var NMB heldur ljósara. Þar virtust vera aðrar tvær ógreinilega bylgjur. Enn vestar, nálægt vestustu bylgjunni, dökknaði það heldur aftur. NTB sást á miðri skífunni en dofnaði og hvarf er austar og vestar dró. Ekkert sást á norðurpólssvæðinu sem var allt í sama lit.

Þetta var besta og nákvæmasta athugun sem ég hafði fram að þessu gert á Júpíter, enda voru skoðunarskilyrði frábær, þau bestu sem ég hafði skoðað við.
Mynd: Björn Jónsson

bj_teikning_d
 

17. nóvember 1990 kl. 1:50

Góð skilyrði þrátt fyrir að Júpíter væri fremur lágt á lofti og þunn skýjahula væri af og til fyrir. Loft virtist mjög tært en mikið hafði rignt daginn áður. Notaði 111x. Í 160x truflaði móða á linsu vegna uppgufunar af auga!

Suðurpólssvæðið var allt einsleitt eins og venjulega og ekkert þar að sjá. Skil þess og SHbS voru hins vegar óvenju greinilega enda SHbS sérlega bjart, mun ljósara en MS. Ég hef aldrei séð það svona ljóst. STB sást alls ekki og NTB ekki heldur.

SMB sást aftur og orðið álíka greinilegt og áður en það hvarf. Það virtist hins vegar ekki hafa náð „jafnvægi“ og í því var mjög mikil ólga. Það var allt „sundurbrotið“ og í því var óreglulegt safn af skáhallandi, ljósum og dökkum línum, dökkum og e.t.v. ljósum línum í AV-stefnu, ljósum hring/sporöskjulaga blettum og e.t.v. dökkum blettum. Þetta var þó á mörkum sýnileika og brá fyrir í sekúndubrot þegar loftið varð kyrrt. Myndin er tilraun til að sýna þetta, smáatriðin í SMB eru vafalaust ónákvæm en ég teiknaði allt í þetta skipti, bæði það sem ég sá örugglega og svo óljós smáatriði á mörkum sýnileika. Suðurjaðar SMB var ekki alveg beinn. Vestast í norðurjaðrinum var ógreinileg tunga inn í MS en að öðru leyti var hann beinn.

MS var hefðbundið og ekkert þar að sjá. NMB var sérlega dökkt, einkum í miðju, en daufara sunnar og norðar. Þrjár bylgjur sáust í suðurjaðrinum, sú í miðjunni var mjög stór, dökk og greinileg og úr henni lá hali inn í MS. Vestasta bylgjan var einnig allgreinileg en sú austasta fremur ógreinileg. Skilin milli norðurpólssvæðisins og syðri svæða (NHbS o.fl.) voru óvenju óljós og ekki vottaði fyrir NTB. Að öðru leyti var norðurpólssvæðið svipað og venjulega.

NMB var mjórra en SMB en miklu dekkra og óvenju dökkt. Einnig virtist það óvenju gráleitt (í staðinn fyrir brúnleitt) og átti það raunar við um SMB auk fleiri svæða.
Mynd: Björn Jónsson

Heimildir

  1. Rogers, J. H. 1995. The Giant Planet Jupiter. Cambridge University Press. Þessi bók er sannkölluð „biblía“ þeirra sem áhuga hafa á Júpíter.
  2. MacRobert, A. An Observer's Guide to Jupiter. Sky & Telescope, júní 1984.
  3. Cicco, D.d. Jupiter's Global Upheaval. Sky & Telescope, júní 1990.
  4. Dobbins, A., D.C. Parker, C.F. Capen. Introduction to Observing and Photographing the Solar System. Willman-Bell, Inc. 1988.
  5. Hunt, G., P. Moore. Jupiter. Rand McNally & Co, New York 1981.
  6. Olivarez, J. More Changes on Jupiter. Sky & Telescope, nóvember 1990.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Björn Jónsson (2004). Að skoða Júpíter. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/solkerfid-large/ad-skoda-jupiter