Að skoða Júpíter
Miðbaugsþvermál Júpíters er um 143.000 km en pólþvermálið er 6% minna, því möndulsnúningurinn er mjög hraður (innan við 10 klst.) sem fletur hann út. Vegna þessa hraða snúnings liggja allar skýjamyndanirnar í austur-vestur stefnu og mynda mörg misdökk skýjabelti samsíða miðbaug. Þó eru þar fyrirbæri sem liggja ekki í austur-vestur stefnu, t.d. nokkrir sporöskjulaga blettir eins og Rauði bletturinn. Á mynd 1 sjást helstu skýjabelti Júpíters og rauði bletturinn.
Mynd 1. Helstu skýjabelti Júpíters og rauði bletturinn. Í stjörnusjónauka er myndin venjulega á hvolfi, þ.e. norður snýr niður og suður upp. Hafa ber í huga að myndin sýnir dæmigert útlit á síbreytilegri reikistjörnu. Skýjabelti birtast, hverfa, dökkna, lýsast, breikka og mjókka og smáatriði færast til innbyrðis milli lengdargráða. Mynd: Björn Jónsson og Stjörnufræðivefurinn |
Af þessum beltum er NMB undantekningalaust sýnilegt og venjulega dekksta og mest áberandi beltið. SMB er breytilegast og virkast af öllum beltunum; stundum bæði breiðara og dekkra en NMB en þess á milli svo ljóst að það greinist ekki frá ljósu beltunum (MBS og SHbS) norðan og sunnan þess. NMB og SMB eru tvö breiðustu beltin sem sjást alltaf séu þau til staðar, jafnvel í litlum sjónaukum og eru jaðrar þeirra oft „bylgjukenndir“.
Mynd 2. Skematísk mynd af þeim breytingum sem stundum verða á SEB og samhliða því á rauða blettinum. Það eru einmitt svona breytingar sem gera Júpíter að áhugaverðustu reikistjörnunni fyrir áhugastjörnuskoðara. Norður snýr hér upp. Mynd: Björn Jónsson og Stjörnufræðivefurinn |
Þegar SMB er dökkt sést rauði bletturinn venjulega illa. Þá er hins vegar „skarð“ í nyrðri jaðri þess og þannig má greina hvar bletturinn er. Þetta skarð sést allgreinilega í 6 cm sjónauka við góð skilyrði og auðveldlega í 15 cm sjónauka, nema aðstæður séu slæmar. Þegar SMB lýsist sést rauði bletturinn að sjálfsögðu betur en ella, en einnig verður hann yfirleitt dekkri og rauðari við þetta og sést þá enn betur. Mynd 2 sýnir þetta í aðaldráttum.
SHbS er alltaf ljós og sést yfirleitt greinilega. Þegar SMB lýsist verður það nánast samlitt SHbS og eru mörkin á milli þeirra þá yfirleitt ógreinileg.
STB er oft sýnilegt en stundum svo dauft að erfitt eða ómögulegt er að sjá það. Stundum sést votta fyrir því á miðri „skífunni“ en ekki við jaðrana.
NTB er svipað og STB en sést oftar og er yfirleitt greinilegra. Sést raunar yfirleitt nema aðstæður séu slæmar, en birtist yfirleitt ekki fyrr en horft hefur verið í smá tíma. Þetta belti var mjög dauft 1988-1989.
NPS er dökkt og stærð þess breytileg en að öðru leyti ekkert að sjá.
SPS er mjög líkt NPS.
MS er venjulega ljósasta svæði Júpíters. Oft ná dökkar „tungur“ frá mörkum NMB og MS inn í MS.
Að skoða Júpíter
Á Júpíter eru skýjabelti, blettir og svæði helst skoðað, eins og lýst var hér að ofan. Af skýjabeltunum sjást NMB og SMB alltaf ef þau eru til staðar, þ.m.t. í litlum sjónaukum. Sé horft í 10-20, þann tíma sem það tekur augun að venjast myrkrinu, koma venjulega tvö belti í ljós auk pólsvæðanna og ýmissa smáatriða í jöðrum beltanna, sem yfirleitt eru á mörkum þess að vera sýnileg.
Rauðablettsskarðið sést þegar horft hefur verið í 10-20 mínútur. Sjaldgæft er að sjá fleiri en tvö belti ef skoðað er í mjög skamman tíma (innan við 5 mín.) því augun þurfa ekki aðeins að venjast myrkrinu, líka því sem það er að horfa á. Í 15 cm sjónauka er hins vegar auðvelt að sjá öll þessi fyrirbæri nema aðstæður séu verulega slæmar. Margt fleira sést eftir því sem sjónaukinn er stærri, t.d. dökkir og ljósir blettir sem eru minni en Rauði bletturinn, auk þess sem litir eru allir miklu sterkari og meira áberandi.
Áhugavert er að fylgjast með tunglum Júpíters. Galíleótunglin fjögur eru meðal stærstu tungla sólkerfisins og Ganýmedes raunar hið stærsta. Hægt er að fylgjast með þeim ganga fyrir Júpíter. Þegar það gerist er yfirleitt erfitt að sjá þau, nema þegar þau eru við jaðar Júpíters. Sömuleiðis má fylgjast með skuggum tunglanna á Júpíter. Skuggarnir sjást greinilega sem örlitlir en mjög dökkir blettir á Júpíter.
Þegar Júpíter er skoðaður er auðvitað einfaldlega hægt að horfa, teikna eða taka myndir af honum. Í stórum sjónaukum sést svo mikið að auðvelt er að gleyma sér í dágóða stund við það eitt að horfa.
Síur og myndatökur
Síur geta verið gagnlegar við athuganir á Júpíter. Mörk dökkra og ljósra belta sjást betur ef ljósblá sía (Wratten 80A eða 82A) er notuð. Með gulri (Wratten 12) eða appelsínugulri (Wratten 21) síu eru tungur sem ná oft úr NMB inn í MS greinilegri, auk ýmissa smáatriða við pólsvæðin. Að lokum er hægt að taka myndir. Myndavélar og sérhæfð myndvinnsluforrit eru orðin svo fullkomin að ná má myndum með miklu fleiri smáatriði en mannsaugað nær að greina í gegnum sjónaukann. Þannig var þetta ekki fyrir 10-15 árum, þegar myndavélar og tölvur voru það frumstæðar að augað hafi yfirburði. Eins og fram hefur komið þykir mér bæði best og auðveldast að nota vefmyndavélar þegar teknar eru myndir af reikistjörnunum. Myndatökur krefjast stærri og stöðugri sjónauka en teiknun.
Að teikna Júpíter
Ef teikna á Júpíter er gott að vera með útlínur „skífunnar“ tilbúnar á blaði. Yfirleitt er best að hafa þvermálið 4-5 cm en taka verður með í reikninginn að pólþvermálið er sex prósent minna en miðbaugsþvermálið. Best er að teikna með dökkum blýanti en sumir nota jafnvel marga blýanta.
Áður en byrjað er að teikna er nauðsynlegt að horfa á Júpíter í a.m.k. 5-10 mínútur (með smá hvíldum þó) eða lengur til að aðlaga augað að því sem horft er á. Eftir þennan tíma er hægt að byrja að teikna.
Fyrst eru stærstu atriðin teiknuð (dekkstu og breiðustu beltin, pólsvæðin o.þ.h.) og reynt að staðsetja þau sem nákvæmast. Síðan er smáatriðunum bætt inn. Möndulsnúningur Júpíters er hraður og af þeim sökum má greina á honum breytingar innan fimmtán mínútna við góð skilyrði. Því er mjög æskilegt að ljúka við teikninguna á 10-15 mínútum. Þegar myndin er tilbúin er dagsetningin, heimstími (sami og íslenski tíminn), stækkun, sjónauki, upplýsingar um skoðunarskilyrði og e.t.v. fleira skráð inn á.
Eftir athugun má laga myndina til. Ef lítill sjónauki er notaður, er þetta allt tiltölulega einfalt, en með stórum sjónauka flækist málið vegna þess hve margt er að sjá. Hver athugun af þessum toga tekur um tvær klukkustundir og er þá uppsetning sjónauka og annar undirbúningur meðtalið. Miklu meira gagn er af fáum löngum athugunum á Júpíter en mörgum stuttum (5 mínútur eða skemur) því þá sést miklu meira.
Teikningar af Júpíter
Heimildir
- Rogers, J. H. 1995. The Giant Planet Jupiter. Cambridge University Press. Þessi bók er sannkölluð „biblía“ þeirra sem áhuga hafa á Júpíter.
- MacRobert, A. An Observer's Guide to Jupiter. Sky & Telescope, júní 1984.
- Cicco, D.d. Jupiter's Global Upheaval. Sky & Telescope, júní 1990.
- Dobbins, A., D.C. Parker, C.F. Capen. Introduction to Observing and Photographing the Solar System. Willman-Bell, Inc. 1988.
- Hunt, G., P. Moore. Jupiter. Rand McNally & Co, New York 1981.
- Olivarez, J. More Changes on Jupiter. Sky & Telescope, nóvember 1990.
Hvernig vitna skal í þessa grein
- Björn Jónsson (2004). Að skoða Júpíter. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/solkerfid-large/ad-skoda-jupiter