Samstirni
e. Asterisms
Stjörnur sem mynda samstirni geta verið allar innan sama stjörnumerkis eða tilheyrt ólíkum stjörnumerkjum. Þær eru yfirleitt í mismunandi fjarlægð frá sólu og því ekki tengdar innbyrðis. Á þessu eru undantekningar og er Sjöstirnið í Nautinu trúlega þekktasta dæmið um stjörnur sem mynda samstirni og eru einnig í sömu stjörnuþyrpingu. Samstirni hjálpa fólki að rata um himininn og glæða hann lífi. Fjósakonurnar þrjár í belti Óríons auðvelda leitina að stjörnumerkinu. Samstirnin sem hér hafa verið nefnd sjást greinilega með berum augum en svo eru til samstirni sem sjást aðeins í stjörnusjónauka eins og Trapisan í Sverðþokunni í Óríon.
Meðal annarra þekktra samstirna eru Sumarþríhyrningurinn og Vetrarþríhyrningurinn, ferhyrningurinn í Pegasusi (Vængfáknum) og Herðatréð í Litlarefi. Þótt til séu listar yfir víðkunn samstirni er ekkert því til fyrirstöðu að leita að eigin samstirnum út frá uppröðun stjarnanna!