Áttungurinn
Latneskt heiti: |
Octans |
Bjartasta stjarna: | ν Octantis |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
27 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
Engin |
Nálægasta stjarna: |
LHS 531 (28 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Uppruni
Áttungurinn er eitt þeirra fjórtán stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til þegar hann kortlagði suðurhimininn frá Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku milli 1751-52.
Lacaille nefndi merkið upphaflega l'Octans de Reflexion og kemur það fyrst fram á korti sem kom út árið 1755. Lacaille nefndi merkið eftir kvaðranti, tæki sem er áttundi hluti úr hring og var fundið upp árið 1730 og notað í siglingafræði til að mæla hæð fyrirbæra á himninum. Þegar önnur útgáfa kortsins kom út árið 1763 hafði Lacaille stytt nafn merkisins í Octans eða Áttunginn.
Stjörnur
Áttungurinn er á suðurpóli himins og er pólhverft séð frá suðurhveli jarðar sem þýðir að það er alltaf yfir sjóndeildarhring. Öfugt við Litlabjörn á norðurpóli himins er engin áberandi stjarna í merkinu sem kalla mætti suðurpólstjörnu. Stjarnan σ (sigma) Octanis er reyndar mjög nálægt pólnum en svo dauf að hún sést vart með berum augum (sýndarbirtustig nærri +6).
ν (ny) Octantis er bjartasta stjarna Áttungsins en sýndarbirtustig hennar er aðeins +3,76. ν Octantis er stjarna af K-gerð í 69 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 17 sinnum bjartari en sólin okkar, um 6 sinnum breiðari, 1,4 sinnum massameiri en örlítið kaldari.
Eftir um 100 milljónir ára breytist ν Octantis í rauðan risa sem verður 60 sinnum bjartari og 15 sinnum stærri en stjarnan er í dag. Miðað við massa stjörnurnar og þróunarstig er hún líklega um 12 milljarða ára gömul.
ν Octantis er tvístirni. Förunauturinn er dvergstjarna af K eða M-gerð og aðeins 0,5 sólmassar. Þessi förunautur er í um tveggja stjarnfræðieininga fjarlægð frá ν Octantis og hringsólar um hana á 2,8 árum.
σ Octantis er risastjarna af gerðinni F0 í um 270 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 5,42). Hún er sú stjarna, sem er næst suðurpól himins og ber þess vegna nafnið Polaris Australis.
Djúpfyrirbæri
Stjörnumerkið Áttungurinn. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum. |
Engin áberandi djúpfyrirbæri eru í Áttungnum.
Stjörnukort
Kort af stjörnumerkinu Áttungnum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.