Dælan
Latneskt heiti: |
Antlia |
Bjartasta stjarna: | α Antliae |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
9 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
0 |
Nálægasta stjarna: |
DEN 1048-3956 (13,17 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Í hágöngu: |
Á ekki við |
Uppruni
Dælan er eitt af fjórtán stjörnumerkjum á suðurhveli himins sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til árið 1756 eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku. Lacaille nefndi merkið upphaflega la Machine Pneumatique eftir 17. aldar uppfinningu franska eðlisfræðingsins Denis Papin. Hann latneskaði það síðan í Antlia Penumatic eða Loftdæluna á korti sem hann gaf út árið 1763.
Engar goðsagnir tengjast merkinu, eðli málsins samkvæmt.
Stjörnur
Í Dælunni eru aðeins níu stjörnur bjartari en birtustig 5,5 en engin bjartari en birtustig +3.
-
α Antliae er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Dælunni en ber ekkert formlegt nafn. Hún er í um það bil 370 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Antliae er risastjarna af K-gerð sem breytir sýndarbirtustigi sínu örlítið, eða milli +4,22 og +4,29. Stjarnan er rúmlega tvisvar sinnum massameiri en sólin og 53 sinnum breiðari. Hún er um 3.900°C heit.
-
δ Antliae er fremur dauft tvístirni í stjörnumerkinu Dælunni (sýndarbirtustig +5,57) í um 480 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stærri stjarna kerfisins, Delta Antliae A, er af B-gerð, um 3,4 sinnum massameiri en sólin, 200 sinnum bjartari og næstum tvisvar sinnum heitari. Í gegnum sjónauka eru stjörnurnar bláar að sjá.
Djúpfyrirbæri
Stjörnumerkið Dælan. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Mjög fá djúpfyrirbæri er að finna í Dælunni. Merkið inniheldur hvorki stjörnuþyrpingar né geimþokur en nokkrar vetrarbrautir og má þer helst nefna:
-
NGC 2997 er þyrilvetrarbraut í um 40 milljóna ljósára fjarlægð.
-
Dæludvergurinn er dvergvetrarbraut sem fannst árið 1997.
Stjörnukort
Stjörnukort af Dælunni í prentvænni útgáfu má nálgast hér.