Dúfan
Latneskt heiti: |
Columba |
Bjartasta stjarna: | α Columbae |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
18 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
1 |
Nálægasta stjarna: |
Gliese 218 (48,9 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Uppruni
Hollenski kortagerðamaðurinn og stjörnufræðingurinn Petrus Plancius bjó stjörnumerkið Dúfuna til út úr nokkrum stjörnum sem Ptólmæos hafði skrásett í riti sínu Almagest en lágu fyrir utan Stórahund.
Merkið birtist fyrst á stjörnukorti sem Plancius birti árið 1592. Dúfan flýgur fyrir aftan skipið Argó sem Plancius nefndi síðar Örkina hans Nóa á hnattlíkani frá árinu 1613. Hún á því að tákna dúfuna sem Nói sendi út frá örk sinni í leið að þurru landi og sneri aftur með ólívugrein í goggi sínum, merki þess að flóðið var í rénun.
Fólk sem þekkir söguna af Argóarförunum gætu talið að merkið tákni dúfuna sem þeir sendu milli Skellidranga, sem gnæfðu yfir leiðina inn í Svartahaf, til að hjálpa sér að rata.
Stjörnur
Meginhluti stjarna í Dúfunni mynda nokkuð áberandi þríhyrning.
-
α Columbae eða Phact (dúfan) er bjartasta stjarnan í Dúfunni (birtustig +2,6). Hún er í um 270 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er næstum þúsund sinnum bjartari en sólin. Phact er stjarna af B-gerð, um 12.000 gráðu heit, sjö sinnum heitari og 4,5 sinnum massameiri en sólin.
-
β Columbae eða Wazn er næst bjartasta stjarnan í Dúfunni (birtustig +3,12). Hún er risi af K-gerð í um 86 ljósára fjarlægð. Beta Columbae er 53 sinnum bjartari en sólin en örlítið kaldari en hún. Stjarnan er 12 sinnum breiðari og tæplega tvisvar sinnum massameiri en sólin.
-
δ Columbae er þriðja bjartasta stjarna Dúfunnar (birtustig +3,85). Hún er bjartur risi af G-gerð í um 234 ljósára fjarlægð frá jörðinni og skín 150 sinnum skærar en sólin. Út frá því má ráða að hún sé 16 sinnum breiðari og þrisvar sinnum massameiri en sólin.
-
μ Columba er O-stjarna af fimmta birtustigi í um eða yfir 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 12 til 15 sinnum massameiri en sólin en meira en tuttugu þúsund sinnum skærari. Mu Columba snýst mjög hratt eins og vænta má af stjörnum í litrófsflokki O. Hún lýkur einum snúningi á aðeins einum og hálfum degi en til samanburðar snýst sólin einu sinni um sjálfa sig á tæpum mánuði, en hún er líka fimm sinnum minni en Mu Columba. Mu Columba er svonefnd flóttastjarna. Mælingar á eiginhreyfingu og sjónstefnuhraða hennar benda til að hún hafi þotið úr Sverðþokunni í Óríon fyrir um tveimur og hálfri milljón ára.
Djúpfyrirbæri
Stjörnumerkið Dúfan. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
NGC 1808 er bjálkaþyrilvetrarbraut af Seyfert-gerð í um 40 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.
NGC 1851 er kúluþyrping í um 39.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
Stjörnukort
Stjörnukort af Dúfunni í prentvænni útgáfu má nálgast hér.