Eðlan

  • stjörnukort, stjörnumerki, Eðlan
    Kort af stjörnumerkinu Eðlunni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Lacerta
Bjartasta stjarna: α Lacertae
Bayer / Flamsteed stjörnur:
17
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
EV Lacertae
(16,47 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Í hágöngu:
September

Uppruni

Eðlan er eitt af sjö stjörnumerkjum sem pólski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus frá Gdansk bjó til og birtist á stjörnukorti sem kom út að honum látnum árið 1690. Með merkinu fyllti Hevelíus upp í tiltölulega autt svæði milli Svansins, Kassíópeiu og Andrómedu.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Í Eðlunni eru 23 stjörnur bjartari en birtustig +5,5 en engin bjartari en +3,0. Sömuleiðis ber engin stjarna formlegt nafn.

  • α Lacertae er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Eðlunni (sýndarbirtustig +3,7). Hún er stjarna af A-gerð, 28 sinnum bjartari en sólin okkar og næstum tvöfalt heitari. Hún er um það bil tveir sólmassar og rúmlega tvisvar sinnum breiðari. Alfa Lacertae er sýndartvístirni. Hún er í rétt rúmlega 100 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Eðlunni eru ekki ýkja mörg djúpfyrirbæri en nefna má þrjár lausþyrpingar.

  • NGC 7209 er lausþyrping um 100 stjarna, þar á meðal áberandi pari gulleitra kolefnisstjarna í miðjunni, í um 3.810 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum sjónauka sjást um það bil 40 stjörnur. Þyrpingin er um 410 milljóna ára.

  • NGC 7243 eða Caldwell 16 er gisin lausþyrping um 30 stjarna í um 2.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hana er að finna skammt austan við stjörnurnar Alfa Lacertae og 4 Lacertae og sést hún best í gegnum sjónauka með lítilli stækkun eða handsjónauka. Þyrpingin er líklega um 100 milljóna ára.

  • NGC 7296 lítil lausþyrping um 20 stjarna.

Stjörnukort

Stjörnukort af Eðlunni í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales – Lacerta the Lizard

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Lacerta

  3. http://stars.astro.illinois.edu/sow/alphalac.html

  4. http://cs.astronomy.com/asy/m/starclusters/430804.aspx