Flugan
Latneskt heiti: |
Musca |
Bjartasta stjarna: | α Muscae |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
13 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
2 |
Nálægasta stjarna: |
Gliese 440 (15 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Uppruni
Stjörnumerkið Flugan á rætur að rekja til loka 16. aldar. Þá bjuggu hollensku sæfarendurnir Pieter Dirkszoon Keyser og Frederick de Houtman merkið til úr þeim stjörnum sem þeir sáu í fyrstu leiðangrum Hollendinga til Austur Indía. Árið 1598 birtist merkið fyrst á hnattlíkani landa þeirra, Petrus Plancius, en af einhverjum ástæðum gaf hann merkinu ekkert nafn. Í skrá sinni frá árinu 1603 kallaði de Houtman merkið De Vlieghe sem þýðir flugan. Sama ár sýndi Jóhann Bayer merkið í stjörnuskrá sinni, Uranometria, en kallaði það Apis sem þýðir býfluga og margir notuðu það í tvær aldir.
Latneska heitið Musca birtist fyrst árið 1603 á hnattlíkani annars hollensks kortagerðamanns, Willems Janszoon Blaeu sem notfærði sér gögn de Houtmans. Um tíma var merkið líka þekkt undir Musca Australis, Suðurflugan, þegar stjörnumerkið Musca Borealis (Norðurflugan) prýddi norðurhimininn en það var sett saman úr nokkrum stjörnum í Hrútnum.
Engar goðsagnir eru til um merkið.
Stjörnur
Stjörnur Flugunnar eru flestar fremur daufar og ber engin þeirra formlegt nafn.
-
α Muscae er bjartasta stjarna Flugunnar (birtustig +2,69). Hún er risastjarna af B-gerð í um 305 ljósára fjarlægð frá jörðinni og skín meira en 4500 sinnum skærar en sólin okkar. Hitastigið á yfirborði hennar er um 20.000°C svo hún geislar að mestu frá sér útfjólubláu ljósi. Stjarnan er 4,7 sinnum breiðari en sólin og um átta sinnum massameiri. Alfa Muscae er sveiflustjarna sem breytir birtu sinni um 1% yfir 2,2 klukkustunda lotu.
-
β Muscae er örlítið daufari en Alfa Muscae (birtustig +2,97). Hún er tvístirni í um 340 ljósára fjarlægð og eru báðar stjörnurnar í litrófsflokki B, mun stærri og miklu heitari en sólin okkar.
Djúpfyrirbæri
Stjörnumerkið Flugan. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Í Flugunni eru fáein áhugaverð djúpfyrirbæri:
-
NGC 4833 er hringþoka í um 21.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er að hluta bak við ryk í vetrarbrautinni sem dregur nokkuð úr birtunni.
-
NGC 5189 er hringþoka í um 3.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
MyCn 18 eða Stundaglasþokan fræga sem er önnur hringþoka í um 8.000 ljósára fjarlægð.
Stjörnukort
Stjörnukort af Einhyrningnum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.