Folinn
Latneskt heiti: |
Equuleus |
Bjartasta stjarna: | α Equuleif |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
10 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
0 |
Nálægasta stjarna: |
HD 200779 (48 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Uppruni
Ekki er vitað hver bjó stjörnumerkið Folann til, ef vill var það Ptólmæos sjálfur. Þá hafði hann hugsanlega í huga söguna af Hippe og dóttur hennar Melanippe.
Hippe var dóttir kentárins Keirons. Dag einn dró Æolus, sem réði yfir vindum í Grikklandi, hana á tálar og barnaði hana. Til að fela óléttuna frá Keironi, flúði Hippe inn í fjöllin þar sem hún ól dótturina Melanippe. Þegar faðir hennar leitaði hennar, bað Hippe guðina um að breyta sér í meri, sem þeir og gerðu. Artemis kom merinni fyrir á meðal stjarnanna, þar sem hún felur sig enn frá Keiron (stjörnumerkið Mannfákurinn) og sést aðeins í höfuð hennar.
Stjörnur
Folinn er næst minnsta stjörnumerki himins. Það samanstendur af fáeinum stjörnum af fjórða birtustigi og daufari.
-
α Equulei eða Kitalpha (hluti hestsins) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Folanum (birtustig 3,9). Hún er risastjarna af gerðinni G0 í um 186 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Equulei er næstum þrisvar sinnum massameiri en sólin og 75 sinnum bjartari. Hún er litrófstvístirni.
-
δ Equulei er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Folanum (birtustig 4,5). Hún er tvístirni í um 60 ljósára fjarlægð. Stjörnurnar tvær eru meginraðarstjörnur af gerðinni F5 annars vegar og G0 hins vegar. Báðar eru rúmlega tvisvar sinnum bjartari en sólin og örlítið massameiri.
-
β Equulei er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Folanum (birtustig 5,16). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A3, 50% breiðari en sólin og 75 sinnum bjartari. Hún er í um 101 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
γ Equulei er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Folanum (birtustig 4,7). Hún er meginaraðarstjarna af F-gerð í um 118 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan skín 13 sinnum skærar en sólin og er tvisvar sinnum breiðari en 80% massameiri.
Djúpfyrirbæri
Í Folanum eru fremur fá markverð djúpfyrirbæri, einkum mjög daufar vetrarbrautir.
-
NGC 7015 er dauf bjálkaþyrilvetrarbraut (birtustig 12,4).
-
NGC 7040 er dauf þyrilvetrarbraut (birtustig 14).
Stjörnukort
Stjörnumerkið Folinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Stjörnukort af Folanum í prentvænni útgáfu er að finna hér.