Höggormurinn
Latneskt heiti: |
Serpens |
Bjartasta stjarna: | α Serpentis |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
57 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
1 |
Nálægasta stjarna: |
GJ 1224 (25 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
2 |
Loftsteinadrífur: |
Engar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Uppruni
Höggormurinn er einstakt meðal stjörnumerkjanna því það er tvískipt: Í Höggormshöfuðið í vestri og Höggormshalann í austri. Á milli er svo stjörnumerkið Naðurvaldi, sá sem heldur á nöðrunni eða höggorminum.
Í goðafræðinni var Naðurvaldi læknirinn Asklepíus, sonur Apollós. Ekki er útskýrt hvers vegna hann glímir við höggorminn á himninum. Tengsl hans við snáka eru þau að eitt sinn drap hann snák sem vaknaði skyndilega aftur til lífsins eftir að annar snákur hafði lagt lækningajurt á hann. Asklepíus notaði sömu jurt til að lífga fólk við, undirheimaguðinum Hadesi til mikillar armæðu. Snákar eru tákn um endurholgun því þeir hleypa hömum.
Stjörnur
Í Höggorminum er aðeins ein stjarna bjartari en birtustig 3,00 en fjölmargar af fjórða og fimmta birtustigi.
-
α Serpentis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höggorminum (birtustig 2,63), nánar tiltekið í höfðinu. Hún er tvístirni í um 74 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er appelsínugul risastjarna af K2-gerð sem er 12 sinnum breiðari en sólin og 70 sinnum bjartari. Alfa Serpentis er stundum kölluð Unukalhai sem er arabíska fyrir „háls höggormsins“ og Cor Serpentis á latínu sem þýðir „hjarta höggormsins“.
-
η Serpentis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höggorminum (birtustig 3,3), nánar tiltekið í halanum. Hún er appelsínugul undirmálsstjarna af K0 gerð sem er að þróast í risa. Stjarnan er tvisvar sinnum massameiri en sólin, sex sinnum breiðari og 19 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er hún í um 61 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
μ Serpentis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höggorminum (birtustig 3,54), nánar tiltekið í höfðinu. Hún er hvít meginraðarstjarna af A0 gerð í um 156 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
ξ Serpentis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höggorminum (birtustig 3,54). Hún er þrístirni í um 105 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarnan er gulhvít risastjarna af F0 gerð sem einnig er litrófstvístirni.
-
β Serpentis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu höggorminum (birtustig 3,65). Hún er þrístirni í um 150 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni A3 sem hefur tvo förunauta.
-
ε Serpentis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höggorminum (birtustig 3,71), nánar tiltekið í höfðinu. Hún er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A2 í um 70 ljósára fjarlægð frá jörðinni sem er 1,8 sinnum breiðari en sólin og 12 sinnum bjartari.
-
θ Serpentis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Höggorminum (birtustig 3,71), nánar tiltekið í halanum. Hún er þrístirni í um það bil 132 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Tvær bjartari stjörnur kerfisins eru hvítar meginraðarstjörnur af gerðinni A. Að minnsta kosti 900 stjarnfræðieiningar skilja þær að og er umferðartíminn hér um bil 14.000 ár. Stjörnurnar eru annars vegar 18 sinnum og hins vegar 13 sinnum bjartari en sólin, báðar tvöfalt breiðari og massameiri en hún. Þriðja stjarnan í kerfinu er gul meginraðarstjarna af G-gerð.
Djúpfyrirbæri
Í Höggorminum eru fjölmörg glæsileg djúpfyrirbæri.
-
Messier 5 er björt kúluþyrping í um 24.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést með berum augum við bestu aðstæður en er glæsileg að sjá í gegnum áhugamannasjónauka. Hún er með fallegri kúluþyrpingum sem sjá má á himninum yfir Íslandi.
-
Messier 16 er ljómþoka í um 7.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni er Arnarþokan sem varð heimsfræg árið 1995 þegagr Hubble geimsjónauki NASA og ESA tók mynd af stöplunum í miðju þokunnar. Þokan sést frá Íslandi, naumlega þó, og er alltaf lágt á lofti.
-
NGC 6604 er lausþyrping í nágrenni við Arnarþokuna. Hún er í um 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Fyrirbæri Hoags er óvenjuleg hringlaga vetrarbraut í um 600 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er mjög dauf (birtustig 16,0) og sést því aðeins í gegnum stærstu áhugamannasjónauka.
-
Sextett Seyferts er þéttur hópur fjögurra vetrarbrauta í um 190 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta vetrarbrautin í hópnum er hin linsulaga NGC 6027. Vetrarbrautirnar eru að renna saman í eina stóra sporvöluvetrarbraut.
Stjörnukort
Stjörnumerkið Höggormurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Stjörnukort af Höggorminum í prentvænni útgáfu er að finna hér.