Hornmátið
Latneskt heiti: |
Norma |
Bjartasta stjarna: | γ2 Normae |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
13 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
0 |
Nálægasta stjarna: |
HD 145417 (44,83 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Gamma Normítar |
Sést frá Íslandi: |
Nei |
Uppruni
Hornmátið er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52. Í merkinu eru daufar stjörnur milli Altarins og Úlfsins sem Ptólmæos hafði ekki skrásett.
Á korti sínu frá árinu 1756 kallar Lacaille merkið l'Equerre et la Regle og sýndi það sem hornmát eða vinkil og reglustiku. Í seinni útgáfu kortsins, sem kom út árið 1763, hafði hann stytt nafnið og nefnt merkið Norma á latínu eða Hornmátið.
Engar goðsagnir tengjast merkinu.
Stjörnur
Björtustu stjörnur Hornmátsins eru af fjórða birtustigi og bera engar þeirra formleg nöfn. Frá tíma Lacailles hafa mörk merkisins breyst svo að í Hornmátinnu eru engar stjörnur merktar alfa eða beta. Þær stjörnur sem Lacaille nefndi Alfa og Beta Normae eru nú hluti af Sporðdrekanum og þekktar sem N og H Scopii.
-
γ2 Normae er bjartasta stjarna stjörnumerkisins Hornmátsins (birtustig 4,02). Hún er risastjarna af gerðinni G8 í um 128 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er um þúsund gráðum kaldari en sólin en 45 sinnum bjartari, tíu sinnum breiðari og rúmlega tvisvar sinnum massameiri.
-
γ1 Normae er bjartasta stjarna stjörnumerkisins Hornmátsins (birtustig 4,02). Hún er reginrisi af gerðinni F9 í um 1.440 ljósára fjarlægð frá jörðinni
-
Mu Normae er er stjarna af fimmta birtustigi (+4,94) í stjörnumerkinu Hornmátinu. Þótt hún sé dauf að sjá á himninhvolfinu er hún reginrisi af gerðinni B eða O sem er meðal björtustu stjarna vetrarbrautarinnar. Vegna ryks í vetrarbrautinni og mikillar fjarlægðar (um 4.000 ljósár) virkar hún dauf en er samt meira en 500.000 sinnum skærari en sólin. Yfirborðshitastig hennar er líklega um 30.000°C, sex sinnum hærra en sólar. Þessi stjarna er líklega 40 sinnum massameiri en sólin og 25 sinnum breiðari.
Djúpfyrirbæri
Stjörnumerkið Hornmátið og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Hornmátið er við vetrarbrautarslæðuna og inniheldur þess vegna fjölmörg forvitnileg djúpfyrirbæri.
-
NGC 6067 er nokkuð björt lausþyrping (birtustig 5,6) í um 4.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hornmátinu. Hún sést leikandi með handsjónaukum og litlum stjörnusjónaukum.
-
NGC 6087 er bjartasta lausþyrpingin í Hornmátinu (birtustig 5,4). Hún er í um 3.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni og inniheldur um 40 stjörnur frá sjötta til ellefta birtustigi.
-
Shapley 1 er hringþoka í um 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er lítil og dauf (birtustig 12,6) og fannst ekki fyrr en bandaríski stjörnufræðingurinn Harlow Shapley kom auga á hana árið 1936. Þessi forvitnilega hringþoka er eins og kleinuhringur í laginu.
-
Abell 3627 eða Hornmátsþyrpingin (e. Norma Cluster) er vetrarbrautaþyrping í um 200 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Mjög erfitt er að rannsaka hana vegna ryks í vetrarbrautinni okkar sem byrgir okkur sýn.
Loftsteinadrífur
Gamma Normítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést árlega snemma í mars og er í hámrki í kringum 13. þess mánaðar. Drífan uppgötvaðist í mars árið 1929 og draga þeir nafn sitt af geislapunktinum í stjörnumerkinu Hornmátinu.
Stjörnukort
Stjörnukort af Hornmátinu í prentvænni útgáfu er að finna hér.