Hringfarinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Hringfarinn
    Kort af stjörnumerkinu Hringfaranum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Circinus
Bjartasta stjarna: α Circini
Bayer / Flamsteed stjörnur:
9
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
α Circini
(54 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Hringfarinn er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52.

Á korti sínu frá árinu 1756 kallar Lacaille merkið le Compas eftir hringfaranum sem land- og siglingafræðingar notuðu við störf sína til að teikna hringi og mæla fjarlægðir. Í seinni útgáfu kortsins, sem kom út árið 1763, hafði hann nefnt merkið Circinus á latínu eða Hringfarinn.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Hringfarinn er dauft stjörnumerki en aðeins ein stjarna er bjartari en fjórða birtustig.

  • α Circini er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hringfaranum (birtustig 3,19). Hún er í um 54 ljósára fjarlægð frá jörðinni og er um 50% massameiri en sólin, tvisvar sinnum breiðari og tíu sinnum bjartari. Alfa Circini er stjarna af gerðinni A7 Vp SrCrEu. Þessi furðulega flokkun segir okkur að hún sé stjarna af gerðinni A7 á meginröð með óvenju mikið af frumefnunum strontíum, krómi og evrópíum í lofthjúpi sínum.

  • β Circini er næst bjartasta stjarna stjörnumerkisins Hringfarans (birtustig 4,1). Hún er í um 97 ljósára fjarlægð frá jörðinni, rétt rúmlega 30% breiðari enjörðin og nokkur þúsund gráðum heitari (um 8.600°C). Beta Circini er stjarna af gerðinni A3Va.

Djúpfyrirbæri

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Hringfarinn
Stjörnumerkið Hringfarinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Hringfaranum eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 5823 eða Caldwell 88 er lausþyrping í um 4.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Birtustig hennar er 7,9 en hún inniheldur um 80 til 100 stjörnur.

  • NGC 5315 er hringþoka í um 8.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ESO 97-G13 eða Hringfaravetrarbrautin er virk vetrarbraut af gerðinni Seyfert II í um 13 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • SN 185 er leif sprengistjörnu sem kínverskir stjörnufræðingar urðu vitni að snemma í desember árið 185 e.Kr. Stjarnan sást á himninum í um átta mánuði en þetta er fyrsta stjarnan sem ritaðar heimildir eru til um. Líklega var um að ræða sprengistjörnu af gerðinni Ia. Leifin er í um 9.100 ljósára fjarlægð.

Stjörnukort

Stjörnukort af Hringfaranum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Circinus the compasses

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Circinus