Hrúturinn
Latneskt heiti: |
Aries |
Bjartasta stjarna: | α Arietis |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
67 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
2 |
Nálægasta stjarna: |
SO 0253+1652 (13 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
Aríetítar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Hrútinn og telst hann því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Hrútsins frá 18. apríl til 13. maí (en ekki frá 21. mars til 20. apríl eins og segir í stjörnuspám).
Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Meyjunni.
Hrúturinn er fyrir ofan miðbaug himins og sést því að kvöldlagi allan veturinn (frá september fram í mars). Hann er í suðri klukkan níu að kvöldi í janúar.
Hrúturinn er fremur dauft stjörnumerki og stjörnurnar eru teljandi á fingrum annarrar handar sem sjást frá stöðum þar sem ljósmengun er talsverð. Til þess að finna Hrútinn á himninum er einfaldast að notast við Nautið og stjörnuþyrpinguna Sjöstirnið í Nautinu, austan við Hrútsmerkið.
Fyrir rúmum tvö þúsund árum var vorpunkturinn í Hrútsmerkinu (staðurinn þar sem sólin er stödd um sólstöður að vori og sólbaugurinn og miðbaugur himins mætast). Pólveltan hefur síðan valdið því að vorpunkturinn hefur færst yfir í Fiskamerkið og í kringum árið 2.600 færist hann yfir í Vatnsberann.
Uppruni
Stjörnumerkið Hrúturinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Fornegyptar tengdu stjörnumerkið Hrútinn við guðinn Amon-Ra. Var hann sýndur maður með hrútshöfuð og sagður tákna frjósemi og sköpunar.
Í grískri goðafræði kemur Hrúturinn við sögu í frásögninni af Jasoni og gullna reyfinu. Á íslensku útgáfu Wikipedia kemur eftirfarandi fram um þessa sögu:
Aþamant Eolosson, konungur Minýja í Orkomenos, átti við Nefele (= ský), konu sinni, tvö börn, soninn Frixos (= hið niðandi regn) og dótturina Helle (= hið lifandi ljós). Er Aþamant sneri baki við Nefele og kvæntist Ino, steig Nefele til himins og sendi landi Minýja hræðilegan þurrk. Ino vildi Frixos feigan. Taldi hún því mann sinn á að fórna honum Seifi, til þess að guðinn sendi aftur regn. Nefele sendi þá börnum sínum hrút með gullreyfi, og varð systkinunum undankoma auðið á baki hrútsins. Á flóttanum steyptist Helle af baki í sjóinn í sund það, er síðan er við hana kennt og kallað Hellespont. Frixos komst til Pontos. Liggur land það fyrir austan Pontos Evxinos eða Svartahaf. Fórnaði hann Seifi hinum gullna hrút og hengdi reyfið upp í lundi einum. Hélt síðan dreki einn ógurlegur vörð um það. Þaðan flutti Jason gullreyfið til Hellas.
Á himninum er Hrúturinn yfirleitt sýndur liggjandi og horfir í átt að Nautinu. Á sautjándu öld voru búin til þrjú merki við Hrútinn sem ekki eru lengur notuð í dag: Norðurflugan, Vespan og Býflugan. Árið 1930 voru síðan formleg mörk Hrútsins skilgreind af Alþjóðasambandi stjarnfræðinga.
Stjörnur
Í Hrútnum eru þrjár stjörnur bjartari en 4. birtustig og því mest áberandi, þær Alfa, Beta og Gamma.
-
α Arietis er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hrútnum (birtustig 2,01). Stjarnan ber einnig arabíska nafnið Hamal sem þýðir „lamb“ eða „höfuð hrútsins“. Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 í 66 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 96 sinnum bjartari en sólin og fimmtán sinnum breiðari.
-
β Arietis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hrútnum (birtustig 2,64). Hún er litrófstvístirni í um 60 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Aðalstjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni A5 en erfitt hefur reynst að henda reiður á förunautinum. Beta Arietis er ber einnig arabíska nafnið Sheratan.
-
41 Arietis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hrútnum (birtustig 3,61). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B8 í um 160 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
γ Arietis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hrútnum (birtustig 3,88). Árið 1665 uppgötvaði enski vísindamaðurinn Robert Hooke að um þrístirni væri að ræða. Kerfið samanstendur af kerfi tveggja meginraðarstjarna af gerðinni A sem snúast um sameiginlega massamiðju á yfir 5.000 árum. Þriðja stjarnan er mun daufari af gerðinni K.
-
δ Arietis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hrútnum (birtustig 4,35). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 í um 168 ljósara fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstum tvisvar sinnum massameiri en jörðin, tíu sinnum breiðari og 45 sinnum bjartari.
-
ε Arietis er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hrútnum (birtustig 4,63). Hún er tvístirni í um 293 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Báðar stjörnur kerfisins eru meginraðarstjörnur af gerðinni A (birtustig 5,2 og 5,5). Epsilon Arietis auk stjarnanna Delta, Zeta, Pí og Ró3 í Hrútnum, eru nefndar einu nafni Al Butain eða Botein sem þýðir „maginn“.
Stjarnan 53 Arietis er flóttastjarna af birtustigi 6,09 í 815 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B2. Með því að rekja slóð hennar aftur á bak kemur í ljós að hún kastaðist líklega út úr Sverðþokunni í Óríon fyrir um fimm milljónum ára. Þessi stjarnan er 18 sinnum massameiri en sólin, sjö sinnum breiðari og 20.000 sinnum bjartari. Hár massi hennar segir okkur að hún muni enda ævi sína sem sprengistjarna.
Djúpfyrirbæri
Engin fyrirbæri úr Messierskránni er að finna í Hrútnum en þar er að finna nokkrar vetrarbrautir sem þó voru of daufar til þess að rata á lista Messiers.
-
NGC 678 og NGC 680 er vetrarbrautapar í um 130 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. NGC 678 er þyrilvetrarbraut á rönd og stærri en NGC 680 sem er sporvöluvetrarbraut. Baáðar eru mjög daufar og sjást best í stórum áhugamannasjónaukum.
-
NGC 772 er þyrilvetrarbraut í um 115-130 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Birtustig hennar er 11,1 svo hún sést best í gegnum stóra stjörnusjónauka. Skammt frá henni er dauf sporvöluvetrarbraut, NGC 770. Þessar vetrarbrautir eru skráðar saman sem Arp 78 í skrá Haltons Arp yfir afbrigðilegar vetrarbrautir.
Loftsteinadrífur
Aríetítar er kröftug loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 22. maí til 2. júlí. Flestir loftsteinarnir eru þó ósýnilegir því sólin er fyrir ofan sjóndeildarhring þegar drífan er í hámarki. Þessi árlega drífa tengist halastjörnuhópi sem kallast Marsden. Hún nær hámarki 7. júní þegar rúmlega 50 loftsteinar sjást á klukkustund. Þótt drífan sé í hámarki að degi til má stundum sjá steina úr henni skömmu fyrir dögun. Flestir sjást þó ekki með berum augum heldur greinast þeir með útvarpsmælingum. Þegar steinarnir falla í gegnum lofthjúpinn skilja þeir eftir sig jónað gas sem endurvarpar útvarpsbylgjum.
Aðrar drífur eiga sér einnig geislapunkt í Hrútnum. Delta Aríetítar stendur yfir frá 8. desember til 14. janúar. Þetta er minniháttar drífa og loftsteinarnir hægfara þótt stöku sinnum sjáist bjartir vígahnettir. Drífan hefur verið tengt við jarðnándarsmástirnið 1990 HA.
Haust Aríetítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 7. september til 27. október en er í hámarki 9. október. Enn eru ónefndir Epsilon Aríetítar, sem standa yfir frá 12. til 23 október og Sigma Aríetítar sem eru sýnilegir milli 12. og 19. október. Báðar eru minniháttar drífur þar sem í kringum tveir loftsteinar sjást á klukkustund.
Stjörnukort
Stjörnukort af Hrútnum í prentvænni útgáfu er að finna hér.