Krabbinn
Latneskt heiti: |
Cancer |
Bjartasta stjarna: | β Cancri |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
76 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
0 |
Nálægasta stjarna: |
DX Cancri (12 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
2 |
Loftsteinadrífur: |
Delta Kankrítar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Krabbann og telst það því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Krabbans frá 20. júlí til 10. ágúst (en ekki frá 23. júní til 22. júlí eins og segir í stjörnuspám). Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Krabbanum. Krabbinn er daufasta stjörnumerki dýrahringsins.
Krabbinn sést að kvöldlagi síðari hluta vetrar (frá janúar fram í apríl). Hann er í suðaustri klukkan níu að kvöldi í febrúar.
Uppruni
Krabbinn kemur fram sem aukapersóna í annarri af tólf þrautum Heraklesar. Þar barðist Herakles við Lernuorminn (stjörnumerkið Vatnaskrímslið) og kom krabbinn upp úr feninu og beit Herakles í fótinn. Herakles reiddist, steig á krabbann og kramdi. Að launum fékk Hera, óvinur Heraklesar, Krabbanum stað á himninum meðal stjarna dýrahringsins þar sem hann er enn þann dag í dag.
Stjörnur
Krabbinn er dauft stjörnumerki eins og áður sagði. Um 23 stjörnur sjást með berum augum en einungis tvær þeirra eru bjartari en fjórða birtustig.
-
β Cancri er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 3,54). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K4 í um 290 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er næstum 50 sinnum breiðari en sólin og 660 sinnum bjartari. Beta Cancri ber einnig nafnið Tarf eða Al Tarf sem merkir „augað“.
-
δ Cancri er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 3,94). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K0 í um 180 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
ι Cancri er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 4,03). Hún er vítt tvístirni sem auðvelt er að aðgreina, bæði í hand- og stjörnusjónaukum. Bjartari stjarnan er gul risastjarna af gerðinni G8, um 215 sinnum skærari en sólin en sú daufari er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A3, 16 sinnum bjartari en sólin. Jóta Cancri er efsta stjarnan í teikningum af Krabbanum, um tíu gráður norður af stjörnuþyrpingunni Býflugnabúinu. Hún er í um 300 ljósára fjarlægð frá örðinni.
-
α Cancri eða Acubens er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 4,26). Hún er tvístirni í um 174 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan í kerfinu er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A5, tvöfalt massameiri en sólin, álíka breið og 23 sinnum bjartari.
-
γ Cancri eða Aselius Borealis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 4,66). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni A1 í um 158 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
ζ Cancri eða Tegmine (skel krabbans) er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 4,67). Hún er fjórstirni í um 84 ljósára fjarlægð frá jörðinni. A og B stjörnurnar snúast um sameiginlega massamiðju á tæpum 60 árum. Þær eru báðar gulhvítar meginraðarstjörnur af F-gerð, 28% og 18% massameiri en sólin okkar. Þriðja stjarnan í kerfinu, C, er gul meginraðarstjarna af gerðinni G0, um 15% massameiri en sólin okkar. Fjórða stjarnan, D, er líklega rauður dvergur.
-
55 Cancri, einnig þekkt sem Ró Cancri, er tvístirni í um 41 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Krabbanum (birtustig 5,96). Kerfið samanstendur af gulri meginraðarstjörnur af gerðinni G8 (55 Cancri A) og rauðum dvergi (55 Cancri B). Fjarlægðin milli þeirra er meira en 1.000 stjarnfræðieiningar. Fimm fjarreikistjörnur hafa fundist á braut um 55 Cancri A. Innsta reikistjarnan er talin risabergreikistjarna, álíka massamikil og Neptúnus en ytri reikistjörnurnar eru sennilega allar gasrisar, ekki ósvipaðar Júpíter.
Djúpfyrirbæri
Í Krabbanum eru fremur fá markverð djúpfyrirbæri. Þó er þar að finna lausþyrpingu sem sést með berum augum og er raunar augljósari en stjörnumerkið sjálft.
-
Messier 44 eða Býflugnabúið (einnig þekkt sem Jatan) er þekktasta djúpfyrirbærið í Krabbanum. Býflugnabúið er lausþyrping um 50 stjarna í um 577 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
Messier 67 er lítil og þétt lausþyrping í um 2.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún inniheldur um 200 stjörnur, þær björtustu af tíunda birtustigi.
-
NGC 2775 er þyrilvetrarbraut í um 56 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hana er að finna við norðurmörk stjörnumerkisins Vatnaskrímslisins og er vel þess virði að skoða í gegnum áhugamannasjónauka.
Loftsteinadrífur
Delta Kankrítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 14. desember til 14. febrúar. Drífan er í hámarki 17. janúar og sjást þá í kringum fjórir loftsteinar á klukkustund.
Stjörnukort
Stjörnumerkið Krabbinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Stjörnukort af Krabbanum í prentvænni útgáfu er að finna hér.