Litlihundur
Latneskt heiti: |
Canis Minor |
Bjartasta stjarna: | Prókýon |
Bayer / Flamsteed stjörnur: |
14 |
Stjörnur bjartari +3,00: |
2 |
Nálægasta stjarna: |
Prókýon (11,4 ljósár) |
Messier fyrirbæri: |
0 |
Loftsteinadrífur: |
11 Canis Mínorítar |
Sést frá Íslandi: |
Já |
Uppruni
Stjörnumerkið Litlihundur er beint suður af stjörnunum Kastor og Pollux í Tvíburunum. Frá Íslandi sést merkið best yfir háveturinn.
Upphaflega samanstóð Litlihundur aðeins af stjörnunni Prókýon. Í merkinu er harla fátt markvert fyrir utan Prókýon sjálfa. Ptólmæos skrásetti aðeins tvær stjörnur í merkinu, Prókýon og Gomeisa eða Beta Canis Minoris.
Á himninum er Litlihundur venjulega sýndur sem annar af hundum veiðimannsins Óríons. Í frægri goðsögn sagnaritarans Hyginusar segir að stjörnumerkið tákni Mæra, hund Íkaríusar (ekki Íkarosar), fyrsta mannsins sem guðinn Díónýsus kenndi að útbúa vín. Þegar hann bauð nokkrum hjarðmönnum sínum að smakka, urðu þeir fljótt drukknir og óttuðust að Íkaríus hefði eitrað fyrir þeim og myrtu hann. Hundurinn Mæra hljóp geltandi til Erigónu, dóttur Íkaríusar og lét hana vita af föður hennar. Hlupu þau til hans og þegar þau sáu líkið, sviptu þau sig sjálf lífi. Til að minnast þessa dapurlega atburðar kom Seifur þeim fyrir meðal stjarnanna. Þar táknar Íkaríus stjörnumerkið Hjarðmanninn, Erigóna Meyjuna og Mæra Litlahund.
Morðingjar Íkaríusar flúðu til eyjarinnar Keos í Eyjahafi. Þar ríkti hungursneið og pestir gengu sem, samkvæmt goðsögninni, voru rakin til hitans frá Hundastjörnunni (Síríusi). Aristæus, konungur Keos og sonur Apollós, bað föður sinn ráða sem sagði honum að biðja Seif griða. Seifur sá aumur á þeim og sendi sterka norðanvinda yfir Eyjahafið í 40 daga til að kæla Grikkland og grísku eyjarnar undan steikjandi hita Hundastjörnunnar.
Stjörnur
-
Alfa Canis Minoris eða Prókýon er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlahundi (birtustig 0,34) og sjöunda bjartasta stjarna næturhimnsins. Prókýon er tvístirni sem samanstendur af hvítri meginraðarstjörnu af gerðinni F5 (Prókýon A) og daufum hvítum dvergi (Prókýon B). Prókýon A er 42% massameiri en sólin, tvöfalt breiðari og tæplega sjö sinnum bjartari. Prókýon er með nálægustu stjörnum við sólina eða í aðeins 11,46 ljósára fjarlægð. Nafn hennar kemur úr grísku og þýðir „á undan hundinum“ og vísar til þess að hún rís upp á himininn á undan hundastjörnunni Síríusi. Prókýon er hluti af Vetrarþríhyrningnum ásamt Síríusi og Betelgás.
-
Beta Canis Minoris er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlahundi (birtustig 2,89). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B8, tæplega 12.000°C heit, í 162 ljósára fjarlægð frá jörðinni samkvæmt hliðrunarmælingum. Stjarnan er rúmlega þrisvar sinnum massameiri og breiðari en sólin en 195 sinnum bjartari. Beta Canis Minoris er einnig kölluð arabíska nafninu Gomeisa sem þýðir „syfjulega (konan)“.
-
Gamma Canis Minoris er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Litlahundi (birtustig 4,34). Hún er litrófstvístirni sem samanstendur af appelsínugulri risastjörnu af gerðinni K3 og förunauti sem lítið er vitað um annað en að umferðartími hans er 389 dagar. Gamma Canis Minoris er í um 398 ljósára fjarlægð frá jörðinni.
-
HD 56925 er Wolf-Rayet stjarna í um 15.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er í miðju ljómþokunnar NGC 2359 eða Þórshjálmsþokunnar.
-
Stjarna Lyutens er rauður dvergur af gerðinni M3,5 í stjörnumerkinu Litlahundi (birtustig 9,9). Hún er ein nálægasta stjarnan við sólkerfið okkar eða í aðeins 12,4 ljósára fjarlægð. Stjarnan er 26% af massa sólar og 35% af breidd hennar. Lyuten er næsti nágranni Prókýons í geimnum, í rétt rúmlega eins ljósárs fjarlægð frá henni.
Djúpfyrirbæri
-
NGC 2350 er linsulaga vetrarbraut í um 90 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er mjög lítil, dauf og ílöng og er nokkuð erfitt að sjá, jafnvel í gegnum stóra stjörnusjónauka (birtustig 12).
-
NGC 2359 eða Þórshjálmurinn er nokkuð björt ljómþoka í um 15.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 30 ljósár eða svo að stærð og má rekja til Wolf-Rayet stjörnunni HD 56925 sem varpað hefur miklu efni frá sér í gegnum tíðina.
-
NGC 2394 er lausþyrping, gisin og dauf og inniheldur fáar stjörnur.
-
NGC 2459 er daufur hópur stjarna eða samstirni af 12. birtustigi.
-
NGC 2485 er þyrilvetrarbraut af birtustigi 12,3. Hún sést best í stórum áhugamannasjónaukum.
Loftsteinadrífur
11 Canis Mínorítar er lítilsháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 4. til 15. desember og er í hámarki í kringum 10.-11. desember. Allir loftsteinarnir eru mjög daufir og sjást fæstir með berum augum. Drífan dregur nafn sitt af geislapunktinum sem liggur nærri stjörnunni 11 Canis Minoris. Mjög lítið er vitað um þessa drífu.
Stjörnukort
Stjörnumerkið Litlihundur og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum |
Stjörnukort af Litlahundi í prentvænni útgáfu er að finna hér.