Málarinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Málarinn
    Kort af stjörnumerkinu Málaranum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Pictor
Bjartasta stjarna: α Pictoris
Bayer / Flamsteed stjörnur:
15
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Stjarna Kapteyns
(12,8 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Málarinn er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku, þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52.

Lacaille nefndi merkið upphaflega le Chevalet et la Palette eða „trönur málarans“ og birtist það þannig á korti hans frá árinu 1756. Á korti sínu frá 1763 hafði Lacaille breytt nafninu í Equuleus Pitcoris sem síðan var stytt í Pictor eða Málarann.

Engar goðsögur tengjast merkinu.

Stjörnur

Björtustu stjörnur málarans eru af þriðja birtustigi en engin ber formlegt nafn.

  • α Pictoris er bjartasta stjarnan í Málaranum (birtustig 3,27). Hún er í um 97 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er af gerðinni A8, tvöfalt massameiri en sólin og 60% breiðari. Hún gefur frá sér 13 sinnum meira ljós en sólin og er um 7.300°C heit. Frá Merkúríusi séð er Alfa Pictoris suðurpólstjarna.

  • β Pictoris er næst bjartasta og frægasta stjarna Málarans (birtustig 3,9). Hún er í um 63,4 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Pictoris er aðeins 12 milljóna ára gömul en 75% massameiri. Hún er eitt þekktasta dæmið um stjörnu sem er umlukin rykskífu. Í rykskífunni hafa stjörnufræðingar fundið fjarreikistjörnu sem er í kringum 8 sinnum massameiri en jörðin.

  • Stjarna Kapteyns er rauður dvergur í aðeins 12,8 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er því með nálægustu fastastjörnum við sólkerfið okkar en sést samt ekki með berum augum (birtustig 8,9). Stjarnan er nefnd eftir hollenska stjörnufræðingnum Jacobus Kapteyn sem uppgötvaði hana árið 1898. Þegar hann skoðaði ljósmyndaplötur og bar saman við stjörnukort tók hann eftir mikilli árlegri eiginhreyfingu stjörnunnar. Stjarnan er aðeins 27% af massa sólar og næstum 30% af breidd hennar. Fyrir um 11.000 árum var hún í innan við sjö ljósára fjarlægð en hefur fjarlægst sólina æ síðan. Hún er um 3.300°C heit.

Djúpfyrirbæri

Í Málaranum eru fremur fá áhugaverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 1705 er afbrigðileg dvergvetrarbraut í um 17 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni er mjög virk nýmyndun stjarna.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Málarinn
Stjörnumerkið Málarinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Málaranum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Pictor the painter's easel

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Pictor

  3. Fjarreikistjarna á hreyfingu