Ökumaðurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Ökumaðurinn
    Kort af stjörnumerkinu Ökumanninum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Auriga
Bjartasta stjarna: Kapella
Bayer / Flamsteed stjörnur:
65
Stjörnur bjartari +3,00:
4
Nálægasta stjarna:
QY Aurigae
(21 ljósár)
Messier fyrirbæri:
3
Loftsteinadrífur:
Aurigítar
Sést frá Íslandi:

Ökumaðurinn rís á kvöldhimininn þegar líða tekur á haustið. Stjarnan Kapella er meðal björtustu stjarna á himninum og sú stjarna sem fyrst sést hátt á himni eftir að sól er sest á vorin. Ökumaðurinn er í suðri klukkan níu að kvöldi í mars.

Uppruni

Hátt á norðurhimninum stendur Ökurmaðurinn keikur og heldur með hægri hönd sinni í taum vagns, sem er reyndar hvergi sjáanlegur en í vinstri höndinni ber hann geit og tvo kiðlinga hennar.

Ökumaðurinn er oftast tengdur við Erikþoníus frá Aþenu, son eldguðsins Hefæstosar. Hefæstos var alla jafna of upptekinn til að sinna syni sínum svo gyðjan Aþena ól hann upp.

Algengasta sagan um uppruna merkisins er sú að hann sé Erikþoníus, konungur Aþenu. Erikþoníus var sonur eldguðsins Hefæstosar. Hefæstos var of upptekinn til að sinna syni sínum sem var þess í stað alinn upp af gyðjunni Aþenu.

Aþena kennti Erikþoníusi margt, til dæmis að temja hesta. Hann vann sér það til frægðar að láta fjóra hesta draga vagn sinn og líkti þannig eftir fjögurrafáka vagni sólarinnar. Fyrir það ávann hann sér aðdáun Seifs sem skipaði honum sess meðal stjarnanna. Þar sést hann halda um tauma vagnsins.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Ökumaðurinn
Stjörnumerkið Ökumaðurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Önnur skýring er sú að Ökumaðurinn sé í raun Myrtilus, ökumaður Oinomáosar konungs af Písa og sonur Hermesar. Konungurinn átti fagra dóttur, Hippódamíu, sem átti marga vonbiðla. Þessi tenging er studd þeirri staðreynd, að vagn Ökumannsins er hvergi sjáanlegur á himninum því vagn Myrtilusar eyðilagðist í kappakstri við Pelops sem varð síðan eiginmaður Hippódamíu og konungur Písa. Pelops myrti Myrtilus og kom þá Hermes faðir hans honum fyrir á himninum.

Hver sú sem hin raunverulega útskýring á Ökumanninum er, ber merkið vitni um mikilvægi kappakstursvagna í menningu Grikkja.

Stjörnur

Ökumaðurinn er áberandi stjörnumerki, einkum vegna þess að í merkinu er ein bjartasta stjarna næturhiminsins og fjórar stjörnur eru bjartari en þriðja birtustig.

  • α Aurigae eða Kapella er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum og sjötta bjartasta stjarnan á næturhimninum (birtustig 0,08). Kapella er kerfi tveggja risastjarna af gerð G8 og G1 sem eru að þróast yfir í rauða risa. Báðar eru rúmlega tvisvar sinnum massameiri en sólin, um tíu sinnum breiðari og 78 sinnum bjartari. Þær eru sömuleiðis nokkur hundruð milljón árum eldri en sólin en álíka heitar eða um og yfir 5.000°C. Stjörnurnar tvær eru svo þétt saman að beita þarf litrófsmælingum til að greina þær sundur. Rétt rúmar 100 milljónir kílómetra skilja á milli stjarnanna og er umferðartíminn um sameiginlega massamiðju 104 dagar. Nafnið Kapella er latneskt að uppruna og merkir „lítil geit“. Hún vísar til geitarinnar Amalþeu sem ól hvítvoðunginn Seif á eynni Krít og var komið fyrir á himninum í þakklætisskyni ásamt tveimur kiðlingum sínum. Hún er einnig nefnd Kaupmannastjarnan á íslensku.

  • β Aurigae er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum (birtustig 1,90). Hún er þrístirni í um 81 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Tvær bjartari stjörnur kerfisins eru undirmálsstjörnur af gerðinni A2 sem eru að þróast yfir í risastjörnur. Báðar eru 48 sinnum bjartari en sólin og rúmlega tvisvar sinnum massameiri og breiðari. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á tæpum fjórum dögum. Þriðja stjarnan rauður dvergur í um 330 stjarnfræðieiningafjarlægð frá undirmálsstjörnunum. Beta Aurigae ber einnig nafnið Menkalinan sem þýðir „öxl þess sem heldur um tamana“.

  • θ Aurigae er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum (birtustig 2,65). Hún er tvístirni í um 166 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarna kerifsins er af gerðinni A, þrisvar sinnum massameiri en sólin, meira en fimm sinnum breiðari og 260 sinnum bjartari. Daufari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni F2 sem er nokkru stærri en sólin okkar. Þeta Aurigae er stundum kölluð Mahasim sem þýðir „úlnliður [ökumannsins]“.

  • ι Aurigae er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum (birtustig 2,69). Hún er risastjarna af gerðinni K3 í um 490 ljósára fjarlægð. Stjarnan er sjö sinnum massameiri en sólin og 55 sinnum breiðari. Jóta Aurigae gengur einnig undir nafninu Al Kab sem er stytting á Kabdhilinan sem þýðir „ökli þess sem heldur í tauminn [ökumannsins]“.

Epsilon Aurigae
Teikning listamanns af myrkvatvístirninu Epsilon Aurigae. Mynd: NASA/JPL-Caltech
  • ε Aurigae er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum (birtustig 3,03). Um árabil hefur þessi stjarna valdið stjörnufræðingum miklum heilabrotum því um tveggja ára skeið á 27 ára fresti minnkar sýndarbirtustig hennar úr +2,92 niður í 3,83. Þegar birtan var seinast í lágmarki árin 2009 til 2011, var sjónaukum atvinnu- og áhugamanna beint að stjörnunni í þeirri von að ljósi yrði varpað á ráðgátuna. Niðurstöðurnar benda til að Epsilon Aurigae sé myrkvatvístirni. Sýnilegi hlutinn, Epsilon Aurigae A, er björt reginrisastjarna af gerðinni F0 sem er 135 sinnum breiðari en sólin og 200.000 sinnum bjartari. Hinn hluti kerfisins, sá sem myrkvar, er sennilega rykskífa með stjörnu í miðjunni sem sést þó ekki og er á rönd miðað við jörðina. Þegar þessi rykskífa gengur fyrir Epsilon Aurigae A myrkvast hún. Kerfið er í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • η Aurigae er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum (birtustig 3,18). Hún er stjarna á meginröð af gerðinni B3 sem er fimm sinnum massameiri en sólin, þrisvar sinnum breiðari og næstum þúsund sinnum bjartari. Stjarnan ber einnig nafnið Haedus II sem vísar til kiðlinga geitarinnar (Kapellu). Hún er í um 243 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ζ Aurigae er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Ökumanninum (birtustig 3,69).Hún er myrkvatvístirni sem breytir birtu sinni úr +3,61 í +3,99 á 972 dögum. Bjartari stjarnan er rauður reginrisi, 200 sinnum breiðari en sólin og 2.1000 sinnum bjartari. Daufari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni B7, 400 sinnum bjartari en sólin. Stjarnan ber einnig nafnið Haedus sem vísar til kiðlinga geitarinnar (Kapellu). Hún er í 790 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Vetrarbrautarslæðan gengur í gegnum Ökumanninn svo þar eru margar lausþyrpingar. Þrjár björtustu þyrpingarnar, M36, M37 og M38, sjást allar vel í gegnum handsjónauka og stjörnusjónauka og jafnvel með berum augum þar sem ljósmengun spillir ekki.

  • Messier 36 er lausþyrping í um 4.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún inniheldur um 60 stjörnur, flestar tiltölulega bjartar en um 40 þeirra eru sjáanlega í flestum áhugamannasjónaukum. M36 er minnst og þéttust þyrpinganna í ökumanninum.

  • Messier 37 er lausþyrping í um 4.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni eru um 150 stjörnu, ein þerra sérlega áberandi appelsínugul við miðju þyrpingarinnar. Þyrpingin er sú stærsta í Ökumanninum, um 25 ljósár í þvermál. Hún sést með berum augum og er glæsilega að sjá í gegnum sjónauka.

  • Messier 38 er lausþyrping í um 4.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er gisnust lausþyrpinganna þriggja en inniheldur um 100 stjörnur á 25 ljósára breiðu svæði. Um hálfa gráðu suð-suðvestur af M38 er önnur minni og daufari lausþyrping, NGC 1907.

  • NGC 1893 er nokkuð björt lausþyrping um 30 stjarna af 9. til 12. birtistigi. Við hana er dauf geimþoka, IC 410 sem sést í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 1931 er lítil og dauf ljóm- og endurskins í 6.000 til 7.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum stóra stjörnusjónauka hefur þokan yfir sér grænleitan blæ.

  • NGC 2281 er litil lausþyrping í um 1.500 ljósára fjarlægð. Í henni eru um 30 stjörnur. Þyrpingin er nokkuð björt og vel sýnileg í gegnum flesta áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Aurigítar er loftsteinadrífa í meðallagi sem sést milli 25. ágúst og 6. september. Drífan er í hámarki milli 1. september og sjást þá á bilinu 10-30 hraðskreiðir loftsteinar á klukkustund. Árið 2007 varð hrina þegar um 100 bjartir, bláir og grænir loftsteinar sáust á klukkustund.

Delta Aurigítar er minniháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 22. september til 23. október. Drífan er í hámarki milli 6. og 15. október og sjást þá 2 til 6 loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

Stjörnukort af Ökumanninum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Auriga

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Auriga_(constellation)