Örin

  • stjörnukort, stjörnumerki, Örin
    Kort af stjörnumerkinu Örinni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Sagitta
Bjartasta stjarna: γ Sagitta
Bayer / Flamsteed stjörnur:
19
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Gliese 745
(28 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Að minnsta kosti þrjár sögur eru til um stjörnumerkið Örina.

Sagt er að merkið sé sú ör sem Apolló notaði til að drepa Kýklópana. Kýklóparnir höfðu búið til þrumufleygana sem felldu son hans, Asklepíus. Asklepíus var heimsins færasti læknir og gat jafnvel reist fólk upp frá dauðum. Þegar Hades, guð undirheimanna, kvartaði yfir skorti á látnum, kom hann kvörtunum á framfæri við Seif sem drap þá Asklepíus. Asklepíusar er minnst sem stjörnumerkið Naðurvaldi.

Örin er einnig sögð sú ör sem Herakles notaði til að drepa örninn sem át lifur Prómeþeifs. Prómeþeifur hafði stolið eldi frá Seifi og fært mönnum. Í refsingarskyni hlekkjaði Seifur Prómeþeif við Kákasusfjall þar sem örn nokkur nartaði í lifur hans. Á næturnar óx lifrin aftur svo örninn gat haldið áfram að narta næsta dag. Herakles skaut örinni í örninn og frelsaði Prómeþeif undan pyntingunni.

Örin er líka sögð örin sem Eros skaut að Seifi sem gerði hann ástfanginn af Ganýmedesi. Í þessari sögu er Ganýmedes stjörnumerkið vatnsberinn. Örn Seifs á himninum gætir örinnar — Örin er enda það stjörnumerki sem er næst Erninum.

Stjörnur

Örin er þriðja minnsta stjörnumerki himins og inniheldur engar stjörnur bjartari en fjórða birtustig.

  • γ Sagittae er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Örinni (birtustig 3,5). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M0 í um 275 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 640 sinnum bjartari en sólin, 55 sinnum breiðari og rúmlega tvisvar sinnum massameiri.

  • δ Sagittae er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Örinni (birtustig 3,8). Hún er tvístirni sem samanstendur af björtum risa af M2-gerð og meginraðarstjörnu af gerðinni A0. Stjörnurnar eru í 448 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • α Sagittae er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Örinni (birtustig 4,39). Hún er gul risastjarna af gerðinni G1 í um 475 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 340 sinnum bjartari en sólin, fjórum sinnum massameiri og tuttugu sinnum breiðari. Alfa Sagittae ber einnig nafnið Sham eða Alsham sem þýðir „ör“.

  • β Sagittae er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Örinni (birtustig 4,4). Hún er risastjarna af G8-gerð sem brennir helíumi í kjarna sínum. Hún er í um 440 ljósára fjarlægð og 429 sinnum bjartari en sólin.

Djúpfyrirbæri

  • Messier 71 er mjög gisin kúluþyrping sem lengi vel var ruglað saman við lausþyrpingu. Þyrpingin sést vel með handsjónauka en meðalstóra stjörnusjónauka þarf til að greina sundur stjörnur í henni. Hún er í 13.000 ljósára fjarlægð.

  • NGC 6886 er hringþoka í um 11.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Til að sjá hana þarf meðalstóran sjónauka en þótt hún sé lítil er hún ekkert sérlega dauf. Best er að nota töluverða stækkun, gott stjörnukort, dimman himinn og hliðraða sjón.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Óríon
Stjörnumerkið Örin og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Örinni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Sagitta the arrow

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Sagitta_(constellation)

  3. Small Wonders: Vulpecula and Sagitta