Þríhyrningurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Þríhyrningurinn
    Kort af stjörnumerkinu Þríhyrningnum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Triangulum
Bjartasta stjarna: β Trianguli
Bayer / Flamsteed stjörnur:
15
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
δ Trianguli
(35 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Grikkir þekktu stjörnumerkið Þríhyrninginn sem Deltoton og var þá vísað til gríska bókstafsins delta. Eratosþenes sagði merkið tákna óseyri Nílarfljóts.

Merkið var líka eitt sinn þekkt sem Sicilia eða Sikiley vegna þess að Seres, verndargyðja eyjarinnar, var sögð hafa beðið Júpíter um að koma henni fyrir á himninum.

Í dag er Þríhyrningurinn einfaldlega sýndur sem ójafnarma þríhyrningur.

Stjörnur

Þótt Þríhyrningurinn innihaldi fremur daufar stjörnur er merkið samt greinilegt á himninum.

  • β Trianguli er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Þríhyrningnum (birtustig 3,0). Hún er risastjarna af gerðinni A5 í um 127 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Trianguli er 71 sinnum bjartari en sólin okkar, rúmlega fjórfalt breiðari og meira en tvisvar sinnum massameiri. Beta Trianguli er litrófstvístirni með 32 daga umferðartíma.

  • α Trianguli er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Þríhyrningnum (birtustig 3,42). Hún er litrófstvístirni sem ber einnig nafnið Mothalla sem merkir „höfuð þríhyrningsins“. Alfa Trianguli er undirmálsstjarna af gerðinni F5 eða F6 sem er 70% massameiri en sólin og rúmlega þrisvar sinnum breiðari. Hún er með öðrum orðum að þróast yfir í risastjörnu. Hliðrunarmælingar benda til þess að hún sé í 63 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Trianguli er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Þríhyrningnum (birtustig 4,03). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A sem er 2,7 sinnum massameiri en sólin og næstum tvöfalt breiðari en 33 sinnum bjartari. Gamma Trianguli er rúmlega 9.000°C heit. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í 112 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • δ Trianguli er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Þríhyrningnum (birtustig 4,03). Hún er litrófstvístirni í um 35 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartari stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni G0, svipuð sólinni að massa og þvermáli. Minna er vitað um förunautinn en stjörnurnar tvær hringsóla um sameiginlega massamiðju á aðeins 10 dögum.

  • ε Trianguli er tólfta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Þríhyrningnum (birtustig 5,5). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A2 sem er rúmlega þrisvar sinnum breiðari en sólin og töluvert heitari eða um 10.000°C. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í um það bil 390 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Í Þríhyrningnum er eitt fyrirbæri úr Messiersskránni og nokkrar (daufar) vetrarbrautir úr NGC skránni

  • Messier 33 eða Þríhyrningsvetrarbrautin er ein nálægasta þyrilvetrarbrautin við vetrarbrautina okkar, í aðeins 2,3 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Birtustig hennar er 5,8 svo við bestu aðstæður er hægt að sjá hana með berum augum. Hún hefur lága yfirborðsbirtu svo erfitt getur reynst að sjá hana með handsjónauka eða stjörnusjónauka. Þríhyrningsvetrarbrautin er minnsta þyrilvetrarbrautin í Grenndarhópnum á eftir Messier 31 og vetrarbrautinni okkar.

  • NGC 925 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 45 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Birtustig hennar er 10,7 svo hún sést ágætlega í gegnum áhugamannasjónauka.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Þríhyrningurinn
Stjörnumerkið Þríhyrningurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Þríhyrningum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Triangulum the triangle

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Triangulum