Tilkynningar

Fyrirlestur um Curiosity á Mars mánudaginn 28. janúar

Sævar Helgi Bragason 14. jan. 2013 Tilkynningar

Mánudaginn 28. janúar 2013 fer fram fræðsluerindi um Marsjeppann Curiosity á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags í stofu 132 í Öskju, húsi náttúrufræðinga við Háskóla Íslands. Erindið hefst klukkan 17:15 og er öllum opið. Það er Sævar Helgi Bragason, einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins, sem flytur erindið.

Mars er fjórða reikistjarnan frá sólinni og sú reikistjarna sem líkist Jörðinni mest. Þótt yfirborðið sé skraufþurrt í dag ber það víða þess merki að vatn hafi flætt þar um í miklu magni, sem varpar upp þeirri spurningu hvort reikistjarnan hafi einhvern tímann verið lífvænleg. Til að leita svara við því var Curiosity jeppi NASA sendur til Mars. Curiosity er jarðfræðingur á hjólum, útbúinn fyrsta flokks vísindatækjum sem hann notar til að efnagreina jarðveg, berg og lofthjúp. Jeppinn lenti skammt frá lagskiptu fjalli sem talið er að hafi myndast í vatni en setlögin geyma upplýsingar um sögu svæðisins. Í erindinu verður fjallað um jeppann og þær rannsóknir sem hann á að gera á Mars. Fjallað verður um Mars almennt og jarðfræðilegar hliðstæður á Íslandi skoðaðar.

Allir velkomnir!

  • Hvenær: Mánudagur, 28. janúar 2013, kl. 17:15

  • Hvar: Stofa 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands