Tilkynningar

Fyrirlestur vísindamanns hjá NASA um Marsjeppann Curiosity

Sævar Helgi Bragason 10. ágú. 2013 Tilkynningar

Þriðjudagskvöldið 13. ágúst 2013 heldur Dr. Jim Garvin, meðlimur í vísindahópi Curiosity jeppans og yfirmaður vísindarannsókna hjá NASA Goddard Space Flight Center, erindi um fyrsta ár Curiosity á Mars. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, og hefst klukkan 20:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Ár í lífi Marsjeppans Curiosity

Jim Garvin,
Dr. Jim Garvin, meðlimur í vísindahópi Curiosity jeppans og yfirmaður vísindarannsókna hjá NASA Goddard Space Flight Center. Mynd: NASA

eftir Dr. Jim Garvin, meðlim í vísindahópi Curiosity og yfirmann vísindarannsókna hjá NASA Goddard Space Flight Center.

Ágrip: Fyrir rúmu ári lenti NASA eins tonna þungum jeppa á yfirborð Mars. Lendingin markaði upphaf rannsókna á því hvort byggingareiningar lífs gætu leynst á annarri reikistjörnu. Geimjeppinn Curiosity hefur varið einu ári við rannsóknarstörf á yfirborð Mars og endurskrifað kafla í kennslubókum um nágrannareikistjörnuna okkar. Jeppinn hefur tekið glæsilegar ljósmyndir, gert nákvæmar efnagreiningar og ekið um landslag sem minnir um margt á Ísland og þurrdali Suðurheimskautsins.

Rannsóknir Curiosity á efnasamsetningu yfirborðsins og myndir af ummerkjum fljótandi vatns hafa þegar sýnt okkur að Mars var eitt sinn lífvænlegur hnöttur. Þrátt fyrir það er ævintýrum jeppans langt í frá lokið. Hann ekur nú yfir grýtta sléttu Gale gígsins að rótum Sharpfjalls þar sem áhugaverð setlög bíða hans.

Curiosity er hluti af könnunaráætlun NASA um Mars sem hófst árið 2000. Markmið hennar er að rannsaka Mars sem heild og skera úr um hvort líf hafi einhvern tímann getað þrifist og þróast þar. Jet Propulsion Laboratory (JPL) hefur umsjón með Mars-áætlun NASA og stýrir rannsóknum Marsjeppanna Spirit, Opportunity og Curiosity.

Árið 2020 hyggst NASA senda nýjan jeppa til Mars en með honum verður fyrsta skrefi stigið fyrir undirbúning mannaða leiðangra. Þangað til skoða vísindamenn frá NASA jarðneskar hliðstæður eins og Ísland til að geta túlkað betur gögnin sem geimförin senda til baka um hið dularfulla yfirborð Mars.

Upplýsingar um viðburð

  • Viðburður: Fyrirlestur um Marsjeppann Curiosity

  • Hvar: Stofa 132 í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands

  • Hvenær: Þriðjudagur 13. ágúst 2013 kl. 20:00

Fyrirlesturinn er haldinn á vegum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands, Stjarnvísindafélags Íslands, Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins.

Tenglar

Þetta er tilkynning frá Stjörnufræðivefnum