Tilkynningar

Eldur og ís: Fyrirlestrar um sólina og halastjörnur

Sævar Helgi Bragason 16. jún. 2011 Tilkynningar

epoxi_hartley_2Á sumarsólstöðum, lengsta degi ársins, þriðjudaginn 21. júní, munu þær Shadia Habbal og Karen Meech, stjörnufræðingar við Hawaiiháskóla, halda fyrirlestra um rannsóknir á sólinni og halastjörnum. Fyrirlestrarnir fara fram á vegum Stjarnvísindafélags Íslands, Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins í stofu 158 í VR II húsi Háskóla Íslands og hefjast klukkan 20:00. Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og er aðgangur ókeypis.

Shadia Habbal er sérfræðingur í sólinni. Í fyrirlestri sínum mun hún segja frá leiðangri sem farinn var í júlí 2011 til suður Kyrrahafsins þar sem gerðar voru rannsóknir á sólvindinum og sólkórónunni við almyrkva á sólu sem þá var. Í fyrirlestrinum verður fjallað um áhrif sólar á reikistjörnur og smærri hnetti sólkerfisins, meðal annars hugsanleg áhrif á þróun lífs á jörðinni og möguleikana á lífi annars staðar í sólkerfinu.

Karen Meech er sérfræðingur í halastjörnum. Í fyrirlestri sínum mun hún segja frá nýjum og óvæntum niðurstöðum rannsókna gervitungla NASA á halastjörnum. Sagt verður frá fyrstu tilrauninni sem gerð var á halastjörnu þegar Deep Impact geimfarið myndaði gíg á halastjörnunni Tempel 1. Einnig verður fjallað tengsl lífs við halastjörnur og hlutverk þeirra í vatnsbúskap jarðar og annarra reikistjarna.

Hér undir má lesa ágrip fyrirlestranna.

Ágrip

Einstök rannsóknartækifæri við almyrkva á sólu

habbalShadia Habbal — Institute for Astronomy, University of Hawaii

Í gegnum tíðina hafa almyrkvar á sólu verið einu tækifæri manna til að rannsaka sólkórónuna, ysta hluta lofthjúps sólar, þar sem segulsviðið og sólvindurinn þróast með tilþrifamiklum hætti. Með tilkomu ljósmyndunar og litrófsgreiningar komust menn að því að kórónan leikur lykilhlutverk í tengslum sólar við segulumhverfi, lofthjúpa og geislunarumhverfi reikistjarna og smærri hnatta, til dæmis halastjarna, í sólkerfinu. Hugsanlegt er að geislunarumhverfið hafi haft áhrif á þróun lífs á jörðinni en líka möguleikana á að líf þrífist annars staðar í sólkerfinu. Með betri tækni og myndvinnslu gefa rannsóknir á sólinni við sólmyrkva mælingum á gervitunglum ekkert eftir. Í erindi Shadiu verður tekið dæmi um rannsóknarleiðangur sem farinn var 11. júlí 2010 til suður Kyrrahafsins til að sýna okkur hvernig nota má agnir sólvindsins sem tæki til að rannsaka sólina.

Shadia er stjörnufræðingur við Stjarnvísindastofnun Hawaiiháskóla. Hún sérhæfir sig í eðlisfræði sólar og uppruna og þróun sólvindsins og segulsviðs sólar. Shadia hefur staðið fyrir sólmyrkvaleiðangrum víða um heim, t.d. á Indlandi, í Mongólíu, á Sýrlandi, í Sambíu, Suður Afríku, Líbíu, Kína og suður Kyrrahafinu. Shadia lauk BS prófi í eðlis- og stærðfræði við Damaskusháskóla, meistaragráðu í eðlisfræði við Háskólann í Beirút og doktorsprófi í eðlisfræði við Cincinnatiháskóla.

Nýjar og óvæntar niðurstöður rannsókna NASA á ísleifum frá myndum sólkerfisins

meech2Karen Meech — Institute for Astronomy, University of Hawaii

Þegar halastjörnur birtust öllum að óvörum á himninum ollu þær oft hræðslu, rétt eins og sólmyrkvar. Það var ekki fyrr en með tilkomu geimtækninnar að í ljós kom að halastjörnur eru ísleifar frá myndun sólkerfisins. Sólvindurinn, flæði agna frá sólinni, uppgötvaðist fyrst þegar vísindamenn voru að reyna að skilja hala halastjarna sem myndast við víxlverkun segulsviðs sólar og gass sem losnar frá yfirborði halastjarna. Halastjörnur geyma vísbendingar um myndun sólkerfisins og eru þess vegna mikilvæg rannsóknarefni NASA og ESA. Árið 2005 var gerð fyrsta tilraunin á halastjörnu þegar Deep Impact geimfarið myndaði gíg á halastjörnunni Tempel 1. Í nóvember árið 2010 heimsótti sama geimfar svo halastjörnuna Hartley 2 en árið 2011 flaug Stardust-NExT geimfarið framhjá Tempel 1 á ný og batt þannig endahnútinn á tilraun Deep Impact geimfarsins — að leita að gígnum sem myndaðist við áreksturinn og kanna þær breytingar sem orðið höfðu á halastjörnunni. Í fyrirlestrinum verður fjallað um spennandi og óvæntar niðurstöður beggja leiðangra.

Karen Meech er stjörnufræðingur við Stjarnvísindastofnun Hawaiiháskóla. Hún var þátttakandi í Deep Impact, EPOXI og Stardust-NExT leiðangrum NASA til nokkurra halastjarna og leiðir rannsóknarhóp NASA í stjörnulíffræði. Karen rannsakar halastjörnur og hvað þær geta sagt okkur um uppruna sólkerfisins og myndun reikistjarnanna en einnig tengsl þeirra við líf og hlutverk þeirra í vatnsbúskap reikistjarnanna. Hjá NASA hefur Karen haft umsjón með athugunum á halastjörnum af jörðu niðri. Hún lauk BS prófi í geimvísindum frá Rice háskóla og meistara- og doktorsprófi í reikistjörnufræði við MIT.

Þetta er tilkynning frá Stjörnufræðivefnum til1109