Doktorsvörn í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands
Sævar Helgi Bragason
28. jún. 2011
Tilkynningar
Föstudaginn 1. júlí fer fram doktorsvörn við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Annalisa De Cia stjarneðlisfræðingur doktorsritgerð sína: „Ljósi varpað á myndunarsvæði glæða gammablossa“ (e. Unravelling the Environment of Gamma-Ray Burst Afterglows). Andmælendur eru Dr. Jason X. Prochaska, prófessor við University of California, Santa Cruz, Bandaríkjunum, og Dr. Sandra Savaglio, sérfræðingur við Max Planck Institute, Þýskalandi. Leiðbeinendur Önnulísu eru Dr. Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við háloftadeild RH, Dr. Páll Jakobsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, og Dr. Einar H. Guðmundsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Deildarforseti Raunvísindadeildar, Guðmundur G. Haraldsson prófessor, stýrir athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst kl.14:00.
Annalisa De Cia fæddist 7. október árið 1982. Hún hlaut meistaranafnbót í stjarneðlisfræði frá Bologna-háskóla á Ítalíu í desember 2007. Hún hóf síðan doktorsnám við Raunvísindadeild Háskóla Íslands í janúar 2008 og hefur doktorsverkefnið verið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Rannsóknir Önnulísu hafa einkum verið stundaðar við HÍ, en hún dvaldi einnig um tíma við rannsóknir hjá University of Leicester í Englandi og hjá European Southern Observatory í Síle.
Ritgerð Önnulísu snýst um athuganir á glæðum gammablossa en það er rafsegulgeislun sem fylgir í kjölfar blossanna. Þessar orkumestu sprengingar alheimsins eru hrinur háorkugeislunar sem berast utan úr geimnum að jafnaði einu sinni á sólarhring. Hver hrina er skammlíf og getur varað allt frá þúsundasta úr sekúndu upp í allmargar mínútur. Glæðurnar eru hins vegar mun langlífari og eru venjulega mælanlegar mörgum dögum eftir blossann. Talið er að blossarnir eigi upptök sín við myndun svarthola í fjarlægum vetrarbrautum, annars vegar í gríðarlega öflugum sprengistjörnum og hins vegar við samruna tveggja ofurþéttra fyrirbæra. Í doktorsverkefni sínu notar Annalisa þrjár mismunandi aðferðir til að rannsaka eiginleika nánasta umhverfis gammablossa. Slíkar rannsóknir gefa m.a. upplýsingar um „forsprengi“ (e. progenitor) blossanna, þau fyrirbæri sem eru talin líklegust til að orsaka þá. Niðurstöðurnar gefa einnig mikilvægar vísbendingar um hagnýtingu hýsilvetrarbrauta í heimsfræði.
Doktorsvörn í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands
Sævar Helgi Bragason 28. jún. 2011 Tilkynningar
Föstudaginn 1. júlí fer fram doktorsvörn við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Þá ver Annalisa De Cia stjarneðlisfræðingur doktorsritgerð sína: „Ljósi varpað á myndunarsvæði glæða gammablossa“ (e. Unravelling the Environment of Gamma-Ray Burst Afterglows). Andmælendur eru Dr. Jason X. Prochaska, prófessor við University of California, Santa Cruz, Bandaríkjunum, og Dr. Sandra Savaglio, sérfræðingur við Max Planck Institute, Þýskalandi. Leiðbeinendur Önnulísu eru Dr. Gunnlaugur Björnsson, vísindamaður við háloftadeild RH, Dr. Páll Jakobsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, og Dr. Einar H. Guðmundsson, prófessor við Raunvísindadeild Háskóla Íslands. Deildarforseti Raunvísindadeildar, Guðmundur G. Haraldsson prófessor, stýrir athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst kl.14:00.
Annalisa De Cia fæddist 7. október árið 1982. Hún hlaut meistaranafnbót í stjarneðlisfræði frá Bologna-háskóla á Ítalíu í desember 2007. Hún hóf síðan doktorsnám við Raunvísindadeild Háskóla Íslands í janúar 2008 og hefur doktorsverkefnið verið styrkt af Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Rannsóknir Önnulísu hafa einkum verið stundaðar við HÍ, en hún dvaldi einnig um tíma við rannsóknir hjá University of Leicester í Englandi og hjá European Southern Observatory í Síle.
Ritgerð Önnulísu snýst um athuganir á glæðum gammablossa en það er rafsegulgeislun sem fylgir í kjölfar blossanna. Þessar orkumestu sprengingar alheimsins eru hrinur háorkugeislunar sem berast utan úr geimnum að jafnaði einu sinni á sólarhring. Hver hrina er skammlíf og getur varað allt frá þúsundasta úr sekúndu upp í allmargar mínútur. Glæðurnar eru hins vegar mun langlífari og eru venjulega mælanlegar mörgum dögum eftir blossann. Talið er að blossarnir eigi upptök sín við myndun svarthola í fjarlægum vetrarbrautum, annars vegar í gríðarlega öflugum sprengistjörnum og hins vegar við samruna tveggja ofurþéttra fyrirbæra. Í doktorsverkefni sínu notar Annalisa þrjár mismunandi aðferðir til að rannsaka eiginleika nánasta umhverfis gammablossa. Slíkar rannsóknir gefa m.a. upplýsingar um „forsprengi“ (e. progenitor) blossanna, þau fyrirbæri sem eru talin líklegust til að orsaka þá. Niðurstöðurnar gefa einnig mikilvægar vísbendingar um hagnýtingu hýsilvetrarbrauta í heimsfræði.
Tilkynning frá Háskóla Íslands
Upplýsingar um gammablossa