Tilkynningar

Nýjustu fréttir úr heimi ördeindanna

Fyrirlestur Gian Francesco Giudice, öreindafræðings við CERN

Sævar Helgi Bragason 03. ágú. 2011 Tilkynningar

lhc-simGian Francesco Guiudice, öreindafræðingur við CERN, heldur fyrirlestur á ensku um LHC sterkeindahraðalinn mikla í Sviss og fyrstu niðurstöður sem fengist hafa með þessum nýjasta og stærsta hraðli heims. Fyrirlesturinn ber titilinn A Zeptospace Odyssey: A Journey into the Physics of the LHC. Fyrirlesturinn er á vegum Raunvísindadeildar Háskóla Íslands og verður haldinn í stofu 132 í Öskju, Sturlugötu 7, föstudaginn 12. ágúst 2011 og hefst kl. 16:00. Hann er öllum opinn.

Ágrip fyrirlesara: Rannsóknir eru nú hafnar með sterkeindahraðlinum mikla (Large Hadron Collider: LHC), metnaðarfyllsta og flóknasta vísindaverkefni allra tíma. Hraðallinn er í 27 km löngum neðanjarðargöngum nálægt Genf í Sviss. Hver er tilgangur þessara rannsókna? Munu þær veita okkur innsýn í dýpstu leyndardóma náttúrunnar? Fyrirlesarinn mun fjalla um ævintýrið að baki LHC, orkumesta hraðli heims, og útskýra nýjustu mæliniðurstöður.

Um fyrirlesarann: Ítalski eðlisfræðingurinn Gian Francesco Giudice er vísindamaður í fremstu röð. Hann vinnur að kennilegum rannsóknum í öreindafræði og heimsfræði við CERN (evrópsku rannsóknarstofnunina í háorkueðlisfræði) í Sviss, einkum við verkefni þar sem LHC kemur við sögu. Hann hefur alla tíð tengst hraðlarannsóknum og áður en hann hóf störf við CERN vann hann við bandarísku rannsóknarstofnunina Fermilab. Einnig vann hann um skeið við Texasháskóla meðan verið var að undirbúa smíði SSC-hraðalsins, sem hefði orðið stærri og öflugri en LHC. Ekkert varð þó af smíðinni, þar sem Bandaríkjastjórn stöðvaði hana vegna kostnaðar. Giudice er þekktur fyrir að geta útskýrt flókna hluti fyrir leikmönnum og er höfundar alþýðuritsins A Zeptospace Odyssey, sem fjallar um öreindafræði og hraðla, einkum LHC. Bókin hefur hlotið lof gagnrýnenda.

Zepto er forskeyti í alþjóða einingakerfinu og stendur fyrir 0,000000000000000000001 eða 10-21.

Gagnlegar vefsíður