Tilkynningar

Vísinda- og fræðsluviðurkenning Siðmenntar

Stjörnufræðivefurinn hlýtur verðlaun fyrir vísindamiðlun

Sævar Helgi Bragason 04. nóv. 2011 Tilkynningar

Í gær, fimmtudaginn 3. nóvember, veitti Siðmennt Páli Óskari Hjálmtýssyni Húmanistaviðurkenningu og okkur — Stjörnufræðivefnum og Stjörnuskoðunarfélaginu — fræðslu- og vísindaviðurkenningu félagsins. Fræðsluviðurkenningin er hvorki meira né minna veitt „þeim aðila eða samtökum sem hafa fært þjóðinni mikilvægt framlag“ við vísindalega þekkingarleit og fræðslu.

Hope Knútsson, formaður Siðmenntar, flutti við þetta tækifæri eftirfarandi ræðu:

Í dag mun Siðmennt einnig veita Fræðslu-og vísindaviðurkenningu félagsins fyrir mikilvægt framlag í þágu fræðslu á Íslandi. Þetta er í fjórða sinn sem Siðmennt veitir þessa viðurkenningu. Fyrrum handhafar þessar viðurkenningar eru Pétur Tyrfingsson sálfræðingur árið 2008, Orri Harðarson rithöfundur og tónlistarmaður árið 2009 og Ari Trausti Guðmundsson rithöfundur og jarðvísindamaður í fyrra.

Ég vil byrja á því að segja hvers vegna Siðmennt lætur sig varða fræðslumál og upplýsta umræðu á Íslandi. Eitt af þremur meginviðfangsefnum félagsins er þekkingarfræði, sem er ein af undirgreinum heimspekinnar rétt eins og siðfræðin. Innan húmanismans er fjallað um eðli og uppsprettu þekkingar og skyld hugtök eins og skynjun, huglægni, hlutlægni, raunhyggju, rökhyggju og afstæðishyggju.

Í stefnu félagsins segir:

Siðmennt telur að uppgötvanir í vísindum og nýjungar í tækni geti stuðlað að betra lífi. Þróun siðferðis þarf að vaxa jöfnum skrefum með þróun vísinda og þau þarf að nota til uppbyggingar, en ekki niðurrifs og eyðileggingar. Húmanisminn tekur mið af því að áreiðanleg þekking um okkur sjálf og heiminn verði til við stöðugt ferli athugunar, rannsóknar og endurskoðunar. Vísindin gefa okkur aðferðir og tæki, en mannleg siðferðisgildi verða að vísa leiðina.

Siðmennt hvetur til gagnrýnnar hugsunar og telur að nýjar hugmyndir eigi að standast fræðilega rannsókn; að öðrum kosti eigi að vantreysta þeim.

Tveir aðilar sem hafa starfað mikið saman, Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn hafa lagt fram ótrúlega mikinn kraft og mikla hugsjón í þágu vísinda og þekkingar í íslensku samfélagi. Stjörnuskoðunarfélagið er 35 ára gamalt í ár. Félagið hefur aflað fjár til að kaupa og dreifa 300 sjónaukum til rúmlega 220 grunn-og framhaldsskóla ásamt heimildarmynd sem heitir “Eyes on the Skies” framleitt af European Space Agency, the European Southern Observatory og the International Astronomical Union. Ennfremur gerðu félagsmenn Stjörnuskoðunarfélagsins þýðingartexta fyrir myndina og heimsóttu rúmlega 150 skóla um allt land. Félagið bauð upp á námskeið fyrir kennara um notkun sjónauka og ráð um hvernig væri hægt að gera kennslu í stjörnufræði spennandi. Fyrir tveimur árum síðan hélt félagið ljósmyndasýningu undir berum himni á Skólavörðuholtinu með 26 stórar hrífandi myndir af alheiminum. Stóð sýningin yfir í 5 vikur. Mér finnst þetta framtak virkilega magnað!

Fyrir þetta stórkostlega framlag til fræðslu almennings á Íslandi vill stjórn Siðmenntar veita Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjörnufræðivefnum Fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir árið 2011.

Við búum í samfélagi vísinda og tækni en samtímis búum við í samfélagi þar sem ríkir því miður mikil fáfræði og töluvert áhugaleysi um vísindi. Það vantar sárlega fleiri vísinda- og tæknimenntað fólk á Íslandi, en til þess þarf að vekja áhuga fólks á vísindum. Þetta er lykilatriði. Stjörnskoðunarfélagið og Stjörnufræðivefurinn standa sig prýðilega í þessu samhengi.

Mín er ánægjan að afhenda formanni Stjörnuskoðunarfélagsins og ritstjóra Stjörnufræðivefsins Sævari Helga Bragasyni fræðslu-og vísindaviðurkenningu Siðmenntar 2011. Félagið fær viðurkenningarskjal og Siðmennt hefur gefið formanninum flugmiða til Íslands til að geta tekið á móti viðurkenningunni fyrir hönd félagsins og til að vera með okkur í dag til að gleðjast saman.

Okkur þykir alveg óskaplega vænt um þessa viðurkenningu Siðmenntar. Takk kærlega!

Fréttatilkynningin og myndir af athöfninni er að vinna á vef Siðmenntar. 

Þetta eru önnur verðlaun sem við hljótum á árinu fyrir vísindamiðlun. Á Vísindavöku Rannís sem fram fór í september var okkur einnig veitt viðurkenning fyrir okkar starf.