Tilkynningar

Skipulag alheimsins: Nýjasta bók Stephen Hawking komin út á íslensku

Sævar Helgi Bragason 25. nóv. 2011 Tilkynningar

Skipulag alheimsins, Stephen Hawking, Leonard MlodinowÚt er komin nýjasta bók Stephen Hawking í þýðingu Baldurs Arnarsonar og Einars H. Guðmundssonar. Bókin hefur hlotið nafnið Skipulag alheimsins á íslensku, en á frummálinu heitir hún The Grand Design. Meðhöfundur Hawkings að verkinu er bandaríski eðlisfræðingurinn Leonard Mlodinow.

Þess má geta að Mlodinow hefur tekið boði þýðenda um að halda fyrirlestur við Háskóla Íslands í vor. Tímasetningin verður auglýst síðar. Jafnframt er ætlunin að kanna möguleikann á því að fá Hawking til landsins.

Bók þeirra félaga hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli erlendis fyrir frumleika og skýra og hnitmiðaða umfjöllun um efni sem almennt þykir flókið, það er að segja uppruna alheimsins, þróun hans og skipulag. Jafnframt finnst mörgum hugmyndaauðgi höfundanna skemmtilega ögrandi. Það á jafnt við um leikmenn sem sérfræðinga, þar á meðal eðlisfræðinga, heimspekinga og guðfræðinga.

Þessi þýðing á bók Hawkings og Mlodinows er eina verkið á íslensku sem fjallar um nýjustu og framsæknustu hugmyndirnar í eðlisfræði og heimsfræði samtímans. Og það á vel skiljanlegu máli.

Eins og ávallt þegar Hawking er annars vegar er framsetning efnisins sérlega áhugaverð og umfjöllunin markviss og sannfærandi. Þetta skemmtilega verk á því erindi til allra sem hafa áhuga á grundvallarspurningum um alheiminn, óháð aldri. Ritið hentar jafnframt mjög vel sem gjafabók við öll tækifæri.

Bókin er að koma í bókabúðir þessa dagana en einnig er hægt að panta hana á sérstöku tilboðsverði á netinu með því að fara inn á vefsíðuna http://nanophysics.raunvis.hi.is/~conference/Hawking/Hawking/Skipulag_alheimsins.html Þar er einnig að finna frekari upplýsingar um bókina, efni hennar, höfunda og fleira.

Tenglar