Tilkynningar

Nýtt stjörnufræðifélag í Vestmannaeyjum

Sævar Helgi Bragason 27. mar. 2012 Tilkynningar

Stjörnufræðifélag Vestmannaeyja,
Félagsmenn í Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja

Á þriðjudaginn í síðustu viku var nýtt stjörnufræðifélag stofnað í Vestmannaeyjum. Greinilegt er að áhuginn í Eyjum er mikill því 27 manns mættu á fundinn. Það er eins og fjölmennur fundur hjá Stjörnuskoðunarfélaginu hér á Höfuðborgarsvæðinu. Stofnfélagar eru 34 talsins!

Stjórn félagsins var kjörin og er Karl Gauti Hjaltason formaður, Soffía Valdimarsdóttir gjaldkeri, Margrét Lilja Magnúsdóttir ritari og Bjartur Týr Ólafsson og Védís Guðmundsdóttir meðstjórnendur. Áhugasamir Vestmannaeyingar geta haft samband við Karl Gauta vilji þeir taka þátt í félagsskapnum.

Greinilegt er að hugur er í félagsmönnum því ýmsar hugmyndir voru ræddar um félagsfundi og fyrirlestra, ásamt stjörnuskoðunarkvöldum fyrir félagsmenn. Rætt var um samstarf við skóla og söfn bæjarins og leiðir til að vekja áhuga skólabarna og bæjarbúa almennt á stjörnufræði.

Þar með eru stjörnuskoðunarfélög á Íslandi formlega orðin þrjú! Ekki má gleyma Stjörnu-Odda félaginu á Akureyri sem stendur öllum Norðlendingum opið.

Við í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness (sem er opið öllum landsmönnum óháð búsetu) eigum í nánu samstarfi við þessi félög. Þannig fá félagsmenn þeirra tímaritið okkar, fréttabréf og fleira. Einnig höfum við reynt að halda sameiginlega félagsfundi með þeim á Akureyri og núna vonandi í Vestmannaeyjum innan tíðar.

Ljóst er að mikil gróska er í þessu stórskemmtilega áhugamáli um allt land og meðal fólks á öllum aldri. Vonandi eigum við einhvern þátt í því. Að því sögðu óskum við nýstofnuðu Stjörnufræðifélagi Vestmannaeyja innilega til hamingju með áfangann og góðs gengis!