Tilkynningar

Krakkavænar stjörnufræðifréttir á Stjörnufræðivefnum

Birtast líka annað slagið í Barnablaði Morgunblaðsins

Sævar Helgi Bragason 21. apr. 2012 Tilkynningar

krakkafréttir, Space Scoop, UNAWE
Nálgast má krakkavænar útgáfur af fréttum Stjörnufræðivefsins með því að smella á merkið í efra hægra horninu.

Á Stjörnufræðivefnum birtast nú krakkavænar útgáfur af nýjustu fréttum af himingeimnum. Fréttirnar eru unnar í samvinnu við UNAWE [1] og eru hugsaðar fyrir börn frá átta ára aldri. Fréttirnar koma meðal annars frá Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (ESO), öflugustu stjörnustöð heims og Chandra röntgengeimsjónauka NASA. Sömu fréttir birtast í íslenskum útgáfum á vefsíðum UNAWE og ESO undir heitinu Space Scoop. Hægt er að lesa krakkafréttirnar með því að smella á lógóin efst til hægri í aðalútgáfum fréttanna.

Von okkar er sú að krakkafréttirnar nýtist til dæmis í kennslustundum á yngsta og miðstigi grunnskóla. Þeim fylgja alltaf forvitnilegar myndir sem hægt er að stækka og varpa á tjald.

„Þær eru ekki margar náttúrufræðigreinarnar sem eru jafn aðgengilegar og stjörnufræðin“ segir Sævar Helgi Bragason, einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins. „Stjörnufræði er kjörin til að efla áhuga barna á vísindum og tækni. Framfarir eru örar, myndir verða sífellt betri svo bækur verða fljótt úreltar. Þess vegna er það okkur mikil ánægja að tryggja að nýjustu upplýsingar komist til skila á aðgengilegan hátt. Hvaða önnur náttúrufræðigrein getur státað af því?“

Annað slagið munu áhugaverðustu fréttirnar einnig birtast í Barnablaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgar. Fyrsta fréttin birtist um síðustu helgi og má sjá hér undir en hún er byggð á fréttinni um milljarða af lífvænlegum risajörðum (sjá eso1214).

Í haust verður svo opnaður sérstakur krakkavefur þar sem allar helstu fróðleiksgreinar verða aðgengilegar í krakkavænni útgáfu.

Barnablað, krakkafrétt
Fyrsta krakkafréttin sem birtist í Barnablaði Morgunblaðsins.

Skýringar

[1] UNAWE, sem stendur fyrir Universe Awareness for Young Children, er alþjóðlegt verkefni sem nýtur stuðnings Alþjóðasambands stjarnfræðinga, UNESCO og 7. rammaáætlunar Evrópusambandsins um vísindi og menntun. Markmið þess er að efla áhuga yngstu kynslóðarinnar á vísindum og tækni. Yfir 40 þjóðir taka þátt í verkefninu og sér Stjörnufræðivefurinn um framgang þess á Íslandi, til dæmis með því að standa fyrir námskeiðum fyrir kennara og börn um stjörnufræði.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
E-mail: [email protected]
Sími: 896-1984