Dagbók stjörnufræðikennara – Kennsluvika 4 – haust 2013
Um dagbókina
Hér er sagt frá einni kennsluviku í stjörnufræði við Menntaskólann í Reykjavík veturinn 2013-2014.
Glærur um kvartilaskipti, myrkva og dýrahringinn
Ég sýndi glærur um tunglið, myrkva og dýrahringinn sem tengdist bæði stjörnuskoðun og kennslu um jörðina og tunglið.
Það kom í ljós að hluti nemenda hafði ekki áttað sig á því hvernig kvartilaskiptin virka sem er alveg eðlilegt. Myndir í kennslubókum eru oft frekar ruglingslegar.
Þegar ég sýndi glærusýningu og myndband um dýrahringinn þá kom það nemendum mjög á óvart að dagsetningarnar á því þegar sólin er í stjörnumerkjunum passa ekki við dagsetningarnar í stjörnuspám dagblaðanna. Einnig sást greinilega í myndbandinu hvað stjörnumerkin eru misstór og sólin mislengi að ganga í gengum þau.
Nemendum fannst forvitnilegt að kynnast 13. merki dýrahringsins (Naðurvalda). Svo skemmtilega vildi til að einhverjir nemendur áttu afmæli í fyrrihluta desembermánaðar (eða áttu ættinga sem á afmæli á þessum tíma). Það þýðir að þetta fólk á ekki stjörnuspá!
Notkun jarðarbolta í kennslu um árstíðir, myrkva og kvartilaskipti
Jarðarboltinn sem Stjörnufræðivefurinn gaf í alla leik- og grunnskóla í haust kom að góðum notum við kennslu um árstíðir, myrkva og kvartilaskipti tunglsins. Þetta eru allt hlutir sem nemendur „eiga að kunna“ en mín reynsla er hins vegar sú að þeir séu flestir ekki með þá á hreinu. Kennslubækurnar eru með tvívíðum og oft villandi myndum sem hjálpa nemendum ekki að ná fullum skilningi á þessum grundvallaratriðum í stjörnufræði.
Því kom sér vel að geta notað „leikmuni“ til þess að stilla upp þrívíðu líkani af jörðinni, tunglinu og sólinni.
Jörðin var að sjálfsögðu táknum með jarðarboltanum. (framför frá síðasta ári þegar ég notaði kringlótta ruslatunnu í stofunni!)
Tunglið var epli
Sólin var appelsína og þegar ég þurfti sólarljós þá gerði ég rifu á gluggatjöldin í stofunni.
Kvartilaskipti: Ég límdi legókarl á Ísland og spurði nemendur hvernig hann sæi tunglið.
Einnig sýndi ég nemendum muninn á sól og tunglmyrkva.
Sólmyrkvi sést aðeins á litlum hluta jarðarinnar (þar sem skuggakeilan af tunglinu nær niður á yfirborð jarðar). Þar sem tunglið er á milli jarðar og sólar þá er tunglið alltaf nýtt við sólmyrkva.
Tunglmyrkvi sést aftur á móti frá allri næturhlið jarðarinnar. Tunglið er alltaf fullt við tunglmyrkva.
DVD myndin Horft til himins (Eyes on The Skies)
Ég byrjaði að sýna DVD myndina Horft til himins (Eyes on The Skies). Hún fjallar um sögu sjónaukans frá dögum Galileó og allt fram að fyrirhuguðum sjónaukum sem eru núna í smíðum. Þessari DVD mynd var dreif í alla grunn- og framhaldsskóla í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009. DVD-diskurinn er með íslenskum texta.
Mér finnst þessi mynd passa vel til kennslu í framhaldsskóla og falla fullkomlega inn í stjörnuskoðunarþemað hjá mér í upphafi skólaársins.